01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

21. mál, fjárlög 1928

Jakob Möller:

Jeg hefi nú ekki mikið að segja að þessu sinni, því eins og hv. þdm. sjá, er mitt nafn ekki bendlað við nema eina brtt. við þennan kafla. Um aðrar till. sje jeg ekki ástæðu til að segja mikið; þó skal jeg fyrir mitt leyti taka það fram, að mjer finst sumar af brtt. fjvn. tilgangslitlar, þeirra er ganga í þá átt að minka útgjöldin. T. d. vil jeg nefna tillögu nefndarinnar um hæstarjett, þar sem þó jafnframt er tekið fram, að nefndin muni ekki átelja stjórnina, þó út af sje brugðið, því jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stjórn muni nota sjer þau ummæli nefndarinnar í fylsta mæli. Svipað má segja um till. nefndarinnar viðvíkjandi starfsmönnum opinberra stofnana. Jeg tók svo eftir, að yfirhjúkrunarkonan á Kleppi hafi 3000 kr. laun. Jeg lít nú svo á, að ef ekki er hægt að fá fullkomna hjúkrunarkonu í þessa stöðu fyrir minna, þá sje ekkert við því að gera.

Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að nú liggur fyrir þinginu frv. til laga um nýja flokka opinberra starfsmanna, nefnilega skipverja á varðskipunum. Og þó að laun þeirra sjeu ákveðin mjög lág, þá eru þau samt hærri en laun annara opinberra starfsmanna, er verða að kosta miklu til náms.

Þá er tillaga nefndarinnar um að leggja niður sendiherraembættið, sem þó hefir ekki fylgi nema nokkurs hluta nefndarinnar.

Þetta er till., sem mjer sýnist fara fullnálægt stjórnarskránni, ákvæði hennar um það, að ekki megi breyta lögum með ákvæði fjárlaga. Sendiherrann er skipaður samkv. lögum frá 1921, og það er vitanlega ekki hægt að upphefja þá skipun með fjárlagaákvæði. Þessi tillaga er því algerlega þýðingarlaus, því að það hvorki má nje er hægt að fara eftir henni. Jeg veit ekki, hvort hæstv. forseti telur sjer fært að bera hana undir atkvæði, en jeg vil leyfa mjer að skjóta því til hans athugunar, hvernig hann lítur á það.

Þá skal jeg víkja að brtt. minni undir III. lið á þskj. 284, um að heimila stjórninni að láta niður falla vexti og afborganir af viðlagasjóðsláni Jóns Kristjánssonar læknis árin 1924–1926. Hæstv. stjórn hefir tekið upp í fjárlagafrv. styrkveitingu til nuddlækningastofu þessa læknis, og má af því sjá, að hún telur hann styrks verðan, og hv. fjvn. hefir ekki gert aths. við þetta. Nú hefir læknirinn farið fram á þessa ívilnun á láni sínu úr viðlagasjóði, sem felst í brtt. minni, og byggir hann umsókn sína á því, að hann hafi eftir tilmælum hæstv. stjórnar tekið að sjer að stunda mænusóttarsjúklinga, en hann hafi gert ráð fyrir, að þeir yrðu miklu fleiri en raun varð á. Í þeim tilgangi að geta leyst þetta vel af hendi, rjeði hann til sín hjúkrunarkonu og kostaði öðru til, en vegna þess að sjúklingarnir urðu svo fáir, svöruðu tekjur hans af þessum lækningum hvergi nærri til þess kostnaðar, sem hann hafði af þeim, og hefir hann því beðið talsvert fjárhagslegt tjón við þessa samninga. Umsókn læknisins um þetta fylgja meðmæli frá landlækni og hjeraðslækni, og kveða þeir svo að orði, að þessi lækningastofa sje nú orðin þjóðnýt stofnun, sem ekki megi án vera, því að sjúklingar sæki nú til hennar víðsvegar af landinu. Tekjur læknisins svara hinsvegar alls ekki til þess starfs, sem hann leysir af hendi; innheimtur ganga mjög misjafnlega, enda er þessi maður alls ekki eftirgangsharður í þeim sökum. Jeg hefi orðið þess var, að ýmsum hv. þdm. eru þessar ástæður allar kunnar, og vænti þess því fastlega, að þeir taki vel í þessa till. mína.