26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að segja margt út af ræðu hv. 2. þm. S.-M. (IP). Hv. frsm. allshn. (GÓ) hefir þar tekið af mjer ómakið í mörgu.

En að því er snertir aths. hans um 11. gr. frv., vil jeg leyfa mjer að benda á, að þetta ákvæði hefir verið í lögum síðan 1872, og jeg hefi ekki heyrt þess getið, að nokkru sinni hafi verið kvartað undan því. Hv. þm. (IP) sagði það sjaldgæft, að atkvæði væru jöfn í nefndunum. Það get jeg ekki fallist á. Það hlýtur að geta komið fyrir, t. d. þegar einn mann vantar á nefndarfund. Ráð hv. þm. (IP), að málið væri látið niður falla í bili, ef atkvæði væru jöfn, kemur ekki til mála. Oft liggja þau mál fyrir sveitastjórnum, sem þurfa skjóts úrskurðar, eins og t. d. að úrskurða um sveitfesti þurfamanna o. s. frv. Þá er óhjákvæmilegt að hafa eitthvert úrskurðarvald, ef atkvæði eru jöfn. Sje jeg ekki, að eðlilegra sje að hafa það annarsstaðar en hjá oddvita. Hann er að jafnaði sá, sem mest traust er borið til í nefndinni, og á honum hvílir mestur þunginn um framkvæmdirnar. Vona jeg því, að hv. allshn. komi ekki með neina brtt. um þetta atriði til 3. umræðu.

Um endurskoðun hreppsreikninganna heima í hreppunum vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, sem það sje alls ekki „krítisk“ endurskoðun, og því ekki þörf á að borga hana eins og hv. 2. þm. S.-M. (IP) vildi. Þessi endurskoðun er oftast ekki annað en það, að láta einhverja góða menn í hreppnum líta á reikningana, en aðalendurskoðunin hlýtur að vera framkvæmd af endurskoðurum sýslunefndanna. Verður því ekki gert svo mikið úr starfi þessara manna með rjettu, sem heyra var á háttv. 2. þm. S.-M.

Þá fann háttv. þm. (IP) að því, að frestirnir í 39. gr. væru hafðir of stuttir; en frestunum í 25. gr. fann hann ekki eins mikla ástæðu til að finna að. Jeg get fallist á, að þeir sjeu nokkuð stuttir í frv. En þessum frestum hefir yfirleitt ekki verið framfylgt svo stranglega til þessa, og býst jeg við, að svo verði enn. Þó lít jeg svo á, að gott geti verið að hafa þessa fresti lögákveðna fremur stutta, því að þá má altaf ganga eftir, að þeim verði beitt, þar sem aðstæður liggja til og dráttur ætlar að keyra úr hófi. — Það er talsvert til í því, sem hv. frsm. (GÓ) sagði, að þetta er að nokkru leyti að kenna breytingu reikningsársins. Í flestum sýslum vilja menn hafa sýslufundi snemma, t. d. í aprílbyrjun, og þá verða frestirnir að vera svona stuttir.

Út af síðustu orðum hv. frsm. (GÓ) vil jeg taka fram, að jeg er honum algerlega samdóma um það, að sýslunefndarmönnum sje óheimilt að taka meira en hið lögákveðna gjald. Eiga þeir enga heimtingu á meiru en í lögum er ákveðið, og sýslunefndir hafa ekkert leyfi til að samþykkja slík útgjöld.