02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg mun ekki fremur venju fara út í almennar aths. við þennan kafla fjárlagafrv. Jeg vil þó geta þess, að fjvn. bárust fleiri erindi en nokkru sinni áður, og var tekið harðar á þeim en venja hefir verið.

Fjvn. leggur til, að 14. gr. fjárlagafrv. hækki um 41500 kr., 15. gr. um 1800 kr., 16. gr. um 63730 kr., 17. gr. um 1000 kr. og 18. gr. um 7208 kr. Samtals eru þá hækkanir nefndarinnar á þessum kafla 115238 kr. Á móti þessari hækkun koma svo lækkunartill., sem nema 17040 kr., svo að nettóhækkun nefndarinnar á þessum kafla frv. nemur 98198 kr. Svo hafa einstakir hv. þm. borið fram till., sem nema 104250 kr. hækkun, svo að allar hækkunartillögur á þessum kafla, bæði nefndarinnar og einstakra þm., nema samtals 202448 kr.

Sje nú þessi útkoma borin saman við samskonar tillögur undanfarinna ára á þessum kafla, þá hefir fjvn. lagt til þessar nettóhækkanir: 1925 220 þús. kr., 1926 170760 kr. og nú í ár 98198 kr., sem er ekki alveg helmingi lægra en í fyrra. En nettóhækkunartill. einstakra þm. eru þessar: 1925 380 þús. kr., 1926 128680 kr. og 1927 202448 kr.

1. brtt. við þennan kafla fjárlagafrv. er sú, að nefndin leggur til, að greitt sje 5000 kr. álag á Langholtskirkju í Meðallandi, enda taki söfnuðurinn við henni í núverandi ástandi hennar. Jeg get vísað í ummæli nefndarinnar í nál. Það má telja víst, að samkomulag náist við söfnuðinn á þessum grundvelli um afhending kirkjunnar, og telur nefndin rjett, að að því sje stefnt, að söfnuðum verði afhentar þær kirkjur, sem enn eru í umsjón landsins. Um aldamót var gert ráð fyrir, að ríkissjóður þyrfti að borga 3200 kr., og ef það er borið saman við núverandi verðgildi peninganna, þá er þessi upphæð, sem nú er farið fram á að borga með, raunverulega lægri. Það er skylda ríkissjóðs eins og hvers annars kirkjuhaldara að halda kirkjunum vel við, og það verður ekki staðið á móti því að búa kirkjurnar orgelum og ofnum. Söfnuðurinn hefir borið fram kröfu um þetta og áður en langt líður verður að reisa kirkjuna að nýju. Nefndin áleit því frá fjárhagslegu sjónarmiði rjettast og hyggilegast að losna við kirkjuna og telur, að best verði sjeð fyrir henni, ef söfnuðurinn annast hana sjálfur. Biskup hefir mælt með afhendingunni á þessum grundvelli, og hæstv. dómsmrh. (MG) hefir óskað þess, að nefndin bæri þessa tillögu fram.

Næsta brtt. nefndarinnar er sú, að fella niður námsstyrkinn til Markúsar Kristjánssonar. Þar sem nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að sinna neinu af hinum mörgu styrkbeiðnum til náms ytra, vill hún, samræmisins vegna, láta sama gilda um þennan námsmann.

Þá er 22. brtt. um 1500 kr. til vornámsskeiðs fyrir barnakennara, Frá því að kennaraskólinn var stofnaður og alt til 1923 voru þessi námsskeið haldin á hverju vori. Aðsókn var mikil, 15–20 manns á hverju námsskeiði. Þessi námsskeið kosta lítið, kenslukraftar eru þeir sömu og námsskeiðskenslan liður í starfi þeirra. Húsnæðið er til og um upphitun er ekki að ræða úr miðjum maí og í júní. Það er mikil hressing, mikil vakning fyrir kennarana að koma hingað t. d. 5. hvert ár, og þessi styrkur á að gera þeim kleift að sækja námsskeiðið. Skólastjóri kennaraskólans, sjera Magnús Helgason, hefir mælt mjög fastlega með því, að styrkur þessi verði veittur.

Næst kemur 23. brtt., um 9000 kr. viðbótarfjárveitingu til Hvanneyrarskóla. Um bændaskólana er það að segja, að eins og hv. þm. muna, var í fyrra veitt fje í fjárlögum til búauka á Hólum. Skólastjóri setti það sem skilyrði fyrir því, að hann tæki við búinu, að það væri aukið, og var fallist á það. Ennfremur var byrjað að veita til fjárhúss og hlöðu á Hólum og nú er í stjfrv. aftur veitt fje til þessa, enda vita það allir kunnugir, að staðurinn er, eins og er, alls ekki viðunanlega húsaður. Hliðstætt erindi barst nefndinni frá skólastjóranum á Hvanneyri. Fjósrúm og hlöðurúm er orðið óviðunandi lítið, svo að búið líður mjög við. Auk þess þarf gamla fjósið höfuðaðgerðar við, sem skólastjóri framkvæmir á eiginn kostnað. Hefir húsameistari gert áætlun um viðbót við fjósið og nýja hlöðu. Vegna aðstöðu. annara húsa verður hlöðurúmið sjerlega ódýrt. Áætlunarupphæðin nemur 18 þús. kr. Leggur nefndin til, að helmingur þeirrar upphæðar verði veittur nú, en helmingur bíði næsta árs.

Þá er komið að Blönduósskólanum. Nefndin leggur til, að honum verði veittar 6000 kr. til raflýsingar. Þess var getið í fyrra, að hann hefði ekki fengið hlutfallslega jafnháan styrk upp í stofnkostnað sinn og aðrir skólar, og svo er enn. Þessi skóli hefir verið prýðilega rekinn, kenslan hefir verið góð og skólinn vel sóttur. Hefir reglugerð skólans verið breytt og námstíminn lengdur, svo að hann nær nú frá 15. sept. til 20. júní, án þess að farið hafi verið fram á hærri rekstrarstyrk. Í fyrra var veitt fje til miðstöðvar upp í skuld ríkissjóðs við skólann, vegna vangoldins stofnstyrks; nú leggur nefndin til, að veitt verði fje til raflýsingar í skólanum. Eins og sjá má af þessari tillögu, og fleirum, sem á eftir fara, hefir nefndin fallist á að veita meira fje en áður til húsmæðrafræðslunnar í landinu; álítur nefndin, að ríkið hafi vangert í því efni hingað til, en þar sje um að ræða mjög þýðingarmikla fræðslu. — Óski einhverjir háttv. þm. frekari upplýsinga um Blönduósskólann, mun hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) geta gert betur grein fyrir honum.

25. brtt. er orðabreyting á aths. samkvæmt ósk fræðslumálastjóra.

Næst kemur 26. brtt., um styrk til unglingaskóla, að í staðinn fyrir 38 þús. komi 45 þús. kr. Um þetta atriði leitaði nefndin umsagnar fræðslumálastjóra, og gat hann þess, eins og kemur fram í nál., að vöxtur þessara skóla væri svo mikill, að óhjákvæmilegt sje að hækka styrkinn til þeirra, svo framarlega sem ríkið ætlar að styrkja þá í eitthvað svipuðum stíl og áður. Samkv. brjefi fræðslumálastjóra hafa hjeraðsskólarnir hvergi nærri fengið svo mikinn styrk sem athugasemdin gerir ráð fyrir og sem ætlað er, að hinn væntanlegi samskóli Reykjavíkur fái, samkv. frv. hæstv. stjórnar. Um stærstu skólana gildir t. d., að eftir því hlutfalli, 3/4 af kostnaði við skólahaldið, hefði Hvítárbakkaskólinn árið sem leið átt að fá 12668 kr., en hann fjekk 9100 kr. Laugaskóli hefði átt að fá 16767 kr., en hann fjekk 10500 kr., og Núpsskólinn hefði átt að fá 8081 kr., en hann fjekk 6000 kr. Aðrir skólar, t. d. unglingaskólinn á Ísafirði, hafa líka orðið hart úti. Fræðslumálastjóri lagði til að hækka þennan styrk upp í 50 þús. kr., en nefndin treysti sjer ekki til að fara hærra en í 45 þús. kr. En þó að það verði samþykt, þá er þó ekki nærri eins vel búið að þessum skólum eins og t. d. Flensborgarskóla, kennaraskólanum í Reykjavík og Eiðaskóla.

27. brtt. er um aukinn styrk til kvenfjelagsins „Ósk“ á Ísafirði, til húsmæðraskólahalds. Nefndin leggur til að hækka styrkinn úr 3000 kr. upp í 5000 kr. Lá fyrir nefndinni umsókn, þar sem gerð var grein fyrir því, að kostnaðurinn við rekstur skólans hefði farið fram úr 10 þús. krónum í fyrra. Skólinn er mjög myndarlega rekinn og hefir náð miklu áliti. Kvenfjelagið óskaði eftir 8 þús. kr. styrk, en nefndin treysti sjer ekki til að fara hærra en þetta.

Þá vill nefndin enn leggja til, að húsmæðrafræðslan í landinu sje styrkt með því að veita með venjulegum skilyrðum 2/5 stofnkostnaðar til væntanlegrar húsmæðradeildar við alþýðuskóla Þingeyinga á Litlu-Laugum, alt að 11 þús. kr. Jeg tel ekki þörf í sambandi við þessa tillögu, fremur en í sambandi við hinar, að gera sjerstaka grein fyrir nauðsyn húsmæðrafræðslunnar. En það liggja alveg sjerstakar ástæður til þess að taka þessari fjárbeiðni vel. Laugaskólinn er rekinn með meiri myndarbrag en nokkur hjeraðsskólanna og betur að honum búið en nokkrum öðrum. Það er því sjerlega aðlaðandi að koma þar upp fjölbreytilegri kenslu. Vitanlega gætu báðar þessar skóladeildir haft hinn besta styrk hvor af annari, kenslukraftar notast betur o. s. frv. Þá hafa þingeyskar konur svo myndarlega hafið fjársöfnun til þessa skóla, að einsætt þykir, að fjárveitingavaldið komi á móti þeim áhuga. Hafa þær haft forgöngu: Helga Kristjánsdóttir, kona Arnórs skólastjóra á Laugum, Kristbjörg Marteinsdóttir, ekkja Sigurðar Jónssonar ráðherra, og Hólmfríður Pjetursdóttir, ráðherra Jónssonar, kona Sigurðar á Arnarvatni. Liggur fyrir þinginu mjög rökstutt erindi frá þeim um nauðsyn þessa máls, og það ætla jeg, að hjer sje um að ræða eitt stóra sporið í fræðslumálum okkar og vildi gjarnan, að þingið sæi sóma sinn að styðja þessa merku starfsemi. Fjárhæðin er sett með hliðsjón af áætlun Jóhanns húsameistara Kristjánssonar, sem fylgdi umsókninni.

Um 29. brtt. nægir að vísa til nál. Þar er aðeins um leiðrjettingu að ræða,

Erindi barst nefndinni frá hinu nýstofnaða Færeyjafjelagi „Grími Kamban“ um styrk til starfsemi, sem það vill reka. Standa að því fjelagi ýmsir mætir mentamenn hjer í bænum og Færeyjavinir. Tilgangur fjelagsins er að efla menningarsamband milli Íslands og Færeyja. Telur nefndin fjelag þetta þarft og nauðsynlegt, en hún lítur svo á, sem meiru skifti fyrir það að fá á sig opinberan stimpil en að fjárhæðin sje há, og leggur til, að því sje veittur 300 kr. styrkur.

Dr. Jón Stefánsson hefir tvisvar áður fengið styrk af opinberu fje til Íslandssögu á ensku, sem hann hefir í smíðum, og enn leggur nefndin til, að honum sje veittur 1500 kr. styrkur í því skyni að gera honum fært að hafa mikið af vönduðum myndum í bókinni.

Jeg skal geta þess, að dr. Jón Stefánsson hefir skrifað nefndinni erindi, sem jeg býst við, að háttv. þm. þætti fróðlegt að lesa. Nefndin treystir vel manninum til þessa starfa og vill styðja að því, að sagan geti orðið sem myndarlegust. (KIJ: Það eiga að vera nýjar myndir). Já, það er alveg rjett hjá hv. 1. þm. Rang. (KlJ), að hjer er um nýjar myndir að ræða, sem kasta munu nýju og skýrara ljósi yfir menningarsögu Íslendinga, sjerstaklega að því er viðskifti við England snertir.

31. brtt. nefndarinnar er viðvíkjandi listamannastyrknum. Er hún borin fram eftir ósk hæstv. dómsmrh. (MG). Honum þóttu tormerki á því að úthluta styrknum, er enginn mátti fá minna en 1000 kr. Meiri hl. nefndarinnar vildi því leggja til, að í stað 1000 kr. komi 500 kr.

32. brtt. er sjálfsögð, þar eð sá mæti maður er látinn. Jeg skal geta þess, að nefndin mun bera fram brtt. síðar um styrk í 18. gr. til ekkju hans.

33. brtt. er um það að fella niður af 15. gr. styrkinn til veðurathugana. Það fer betur á því að taka hann heldur upp í 16. gr.

Þá kem jeg að brtt. við 16. gr. Fyrsta brtt. þar, sem er 34. brtt. nefndarinnar, er um það að fella niður styrkinn til dýralækninganáms. Eins og segir í nál., lýkur sá maður prófi á þessu ári, sem þennan styrk hefir haft. Nefndinni er ókunnugt um, að nokkur annar maður sje að stunda þetta nám. Sjer hún ekki ástæðu til þess að láta þennan lið standa áfram í fjárlögum.

35. brtt. er um veðurstofuna. Jeg skal geta þess, að niðurstaða upphæðanna er sú sama og var í 15. gr. Einnig vil jeg geta þess, til athugunar fyrir skrifstofuna, að það þarf að útfæra heildarupphæðina síðar. Nefndinni þótti rjett að sundurliða upphæðina fyrir þm., svo að það komi skýrt fram, hvernig fjenu væri varið. En sundurliðunin er gerð eftir till. forstöðumannsins, og hefir nefndin þar engu breytt.

Þá hefir nefndin lagt til að hækka styrkinn til Fiskifjelags Íslands um 5000 kr. Hjer er þó ekki um hækkun að ræða frá því í fyrra, því að í núgildandi fjárlögum eru veittar 70 þús. kr., en í stjfrv., sem nú liggur fyrir, er þessi upphæð lækkuð. Forseti fjelagsins kom á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir þörfum fjelagsins og upplýsti, hvernig fjenu væri varið. Nefndin álítur, að ekki beri að lækka styrkinn. Annars munu sumir aðrir þm. vera fróðari í þessum sökum en jeg, og býst jeg við, að þeir muni gera frekari grein fyrir þessu, ef því verður mótmælt.

37. brtt. nefndarinnar er aðeins leiðrjetting á óaðgæslu í stjfrv., eins og segir í nál. Það eru talin laun eins matsmannsins í staðinn fyrir laun þeirra allra.

Um 38. brtt. get jeg verið stuttorður. Í nál. er gerð grein fyrir umsóknum um styrk til bryggjugerðar. Nefndin leggur til, að þessi liður verði lækkaður um 5000 kr. En umsóknirnar frá Breiðdalsvík, Búðardal og Akranesi telur hún alveg sjálfsagðar. Hjer er um mjög þarfar og nauðsynlegar umbætur að ræða. Liggja fyrir nefndinni skjöl viðvíkjandi þessum mannvirkjum, og get jeg vísað til þeirra og svo nál.

Þá hefir nefndin tekið aftur upp í fjárlögin styrk til að dýpka Snepilrásina við Stokkseyri, og nemi hann helmingi kostnaðar. Hafa áður verið veittar til þessa verks 10 þús. kr. Af þeim hafa nú verið notaðar 4600 kr., og eru því 5400 kr. endurveiting. Það sjest á till., að nefndin hefir fallist á þá ósk þeirra manna, sem hlut eiga að máli, að ekki verði krafist nema helmings framlags á móti, eins og gert er viðvíkjandi brimbrjótnum í Bolungarvík. Ástæðurnar fyrir þessari ósk eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi hefir kauptúnið orðið fyrir því áfalli, að stærsta verslunarfyrirtækið, Ingólfur, sem þar hefir verið, starfar nú ekki lengur. En það var einmitt einn stærsti þátttakandinn í kostnaðinum við að dýpka Snepilrásina. Kemur hann því þyngra niður á hinum, sem eftir eru. Þá verður hlutfallslega dýrari gröfturinn eftir því sem dýpkar. Í þriðja lagi hefir þorpið orðið fyrir miklu áfalli, eins og kemur fram í annari till., við brunann í vetur. Nefndin verður því að fallast á, að ekki komi nema helmingur á móti framlagi ríkissjóðs.

Þá er 40. brtt., þar sem nefndin leggur til, að veittar verði 20 þús. kr. styrkur til brimbrjótsins í Bolungarvík, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá. Það er enginn nýr gestur, sem hjer um ræðir. Síðan 1910 hefir hann meira og minna staðið í fjárlögum. Það var sagt í hitteðfyrra, er nefndin lagði til, að 16 þús. króna lán, sem tekið var til hans, yrði gefið eftir, að það yrði þá skoðað sem lokaveiting. Samt var enn veitt til hans í fyrra. Loks hefir nefndin nú ekki sjeð sjer annað fært en að verða við óskum manna þar vestra. Samkvæmt athugunum hygg jeg, að búið sje að veita til brimbrjótsins af opinberu fje rúmlega 83 þús. kr. Verður því upphæðin um 100 þús. kr., ef samþ. verður að veita þessar 20 þús. kr., sem nefndin leggur til. Ástæðan fyrir því, að nefndin hefir lagt þetta til, er sú, að upplýst hefir verið, að það er um líf eða dauða að ræða fyrir þorpið að fá gert við þetta mannvirki, enda hafa þorpsbúar lagt mikið á sig til að koma því upp og halda því við. En það, sem þegar hefir verið unnið við það, er í hættu, ef verkið verður ekki fullgert sem fyrst. Jeg býst við, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) muni geta gefið frekari upplýsingar, ef þess yrði óskað. Ekki getur þó nefndin fallist á þá aðferð, sem höfð er af hálfu hreppsnefndarinnar í Hólshreppi, að vilja snúa baki við allri fagþekkingu um eftirlit með verkinu og færa þannig áætlunina meira niður en eðlilegt er. Nefndin getur ekki sætt sig við það, og um leið og hún leggur til, að styrkurinn verði veittur, vill hún beina því til hæstv. stjórnar að hafa svo gott eftirlit með verkinu, að það verði forsvaranlega af hendi leyst. Eins og kunnugt er, áætlar hreppsnefndin kostnaðinn um 70 þús. kr., en vitamálastjóri áætlar hann allmiklu hærri. Hjer er ekki gert ráð fyrir að veita alt, sem veita þarf til þessara framkvæmda, heldur verður það auðvitað á valdi síðari þinga, hvort þau vilja veita meira síðar.

Þá er 41. brtt. Er það líka gamall kunningi. Niðursuðuverksmiðjan „Mjöll“ hefir nokkrum sinnum áður fengið styrk. Í núgildandi fjárlögum eru henni veittar 2 kr. á hvern kassa mjólkur, sem hún framleiðir. Nú leggur nefndin til, að verksmiðjan fái 1 kr. og 50 aura á hvern kassa, alt að 6000 kr. En þótt nefndin lækki þannig styrkinn um (4, vill hún samt halda áfram að styrkja þessa starfsemi. Gerist þess og þörf, þar sem slík fyrirtæki eiga oft við mikla byrjunarerfiðleika að stríða. Er því nauðsynlegt að styrkja þau í fyrstu.

42. brtt. er um mál, sem áður hefir legið fyrir þinginu. Nefndin leggur til, að kvenfjelagi Hvammshrepps í Mýrdal verði veittar 600 kr. til heimilisiðnaðarnámsskeiðs. Er þetta sama upphæð og stendur í núgildandi fjárlögum, en stjórnin hefir lækkað hana um 14 hluta. Liggur erindi þaðan að austan fyrir nefndinni. Hefir fjelagið rekið þessa heimilisiðnaðarkenslu prýðilega og er mjög vinsælt, enda eru námsskeiðin vel sótt. Nú hefir það ákveðið að auka þessa starfsemi sína, og mælir því öll sanngirni með því, að það fái sama styrk og áður.

Að því er snertir 43. brtt. get jeg vísað til nál. Fyrir nefndinni lá erindi frá Jóni Sívertsen skólastjóra verslunarskólans um styrk til utanfarar, til þess að kynna sjer starfrækslu erlendra kaupþinga. Fylgdi því langt erindi um nauðsyn þess vegna afurðasölu og verðbrjefasölu, og eindregin meðmæli frá verslunarráðinu. Nefndin getur fallist á nauðsyn þess að undirbúa stofnun kaupþings hjer á landi. Leggur hún því til, að þessi styrkur verði veittur, og komi hann í stað þess styrks, sem verslunarráðið fær til símskeytasendinga, sem fremur virðist eiga að koma til greina eftir að kaupþingið er stofnað.

44. brtt. er um það, að hætt verði að starfrækja Helgustaðanámuna. Leggur nefndin til, að liðurinn falli niður og vill helst, að hætt verði við framleiðsluna þegar á þessu ári. Get jeg vísað til nál. og landsreikninganna í þessu efni. Náman er nú ávalt rekin með tapi. Hefi jeg fyrir mjer ummæli fjármálaráðuneytisins um það, að litlar líkur sjeu fyrir því, að 70 þús. kr. lánið, sem tekið var til þessarar starfsemi, fáist endurgreitt. Mikið af silfurbergi er fyrirliggjandi, en lítið selst. Er því ástæðulaust að vera að grafa meira. En nefndin vill, að stjórnin fái sjer ódýrari aðstoð en nú er til þess að sjá um sölu silfurbergsins. Hefir sumum nefndarmönnum komið til hugar, að stjórnin fengi t. d. hv. 1. þm. G.-K. (BK), sem mjög er vel að sjer í þessum efnum, sjer til aðstoðar við sölu silfurbergsins, ef hann gæfi kost á sjer til þess.

Tvö fordæmi eru fengin fyrir því að veita styrk til að gera fossa laxgenga, er skýr gögn hafa verið lögð fram og tilskilið framlag annarsstaðar að. Nú liggur hjer fyrir erindi frá Búnaðarsambandi Austurlands um styrk til þess að gera Lagarfoss laxgengan. Rannsókn hefir farið fram um það, hvort líkindi væru til þess, að lax gengi í Lagarfljót, ef fossinn yrði gerður laxgengur, og jafnframt, hvort hægt væri að gera hann laxgengan. Vegamálastjóri hefir áætlað kostnaðinn við þetta 10 þús. kr. Nefndin leggur til, að styrkurinn verði veittur á sama grundvelli og áður hafa verið veittir styrkir til slíkra fyrirtækja og í sama hlutfalli, sem sje 1/3 kostnaðar. Ef þetta gengur vel, er ekki að efa, að það geti komið að gagni fyrir stór hjeruð. Og þegar á það er litið, virðist miklu rjettmætara að veita þennan styrk heldur en þá, sem veittir voru í fyrra, þar sem um mun minna gagn var að ræða, jafnvel þótt vel takist.

Þá kem jeg að 46. brtt., sem er um það að lækka framlag ríkissjóðs til að gera skipulagsuppdrætti úr 6000 kr. niður í 4000 kr. Þetta er gamalt deilumál. Stóð það glögt í fyrra og sundruðust þá um það allir flokkar, en þó tókst ekki að fella það. Lítur nefndin svo á, að ríkinu skuli heimilað að leggja fram fje til þessa, en það miðist við það, hve mikið unnið er. Hinsvegar þótti henni rjett að draga ofurlítið saman seglin, og vill því lækka þessa upphæð um 1/3 hluta.

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð um 47. brtt. a, sem er styrkur til flugnáms, 2000 kr. Nefndin hefir ekki bundið þessa fjárveitingu við neinn sjerstakan mann. En það getur haft þýðingu á sínum tíma, að stjórnin hafi hjer fje til þess að ráðstafa, ef þurfa þykir.

Síðasta brtt. við 16. gr. er um 10 þús. kr. styrk til Stokkseyrarhrepps vegna brunatjóns, en er bundinn því skilyrði, að honum verði varið til endurgreiðslu á viðlagasjóðsláni, sem hreppurinn tók vegna brunans. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. Árn. (MT og JörB) geri frekari grein fyrir þessu, ef þurfa þykir. Við þennan bruna mistu margir smáatvinnurekendur aleigu sína. Þá eyðilögðust bæði veiðarfæri og beita, sem þeir höfðu tekið lán til þess að geta útvegað sjer. Stóð því hreppurinn mjög höllum fæti. Fiskiveiðasjóðurinn kom til hjálpar og veitti hreppnum 5000 kr. styrk og landsstjórnin veitti honum 10 þús. kr. viðlagasjóðslán, eins og minst hefir verið á. Vitanlegt er, að eins og sakir standa, eru engin líkindi til þess, að lánið verði hægt að borga. Nefndinni þótti rjett að láta þetta koma fram sem styrk, en með því skilyrði, að viðlagasjóðslánið yrði greitt með honum.

Við 17. gr. er aðeins ein brtt. Er hún um það að hækka styrkinn til stórstúkunnar upp í 10 þús. kr., eins og hann var í fyrra. Jeg býst við, að menn sjeu alment sammála um, að góður árangur hefir orðið af þessari bindindisstarfsemi. Útbreiðsla fjelagsins er nú meiri en nokkru sinni áður. Vona jeg því, að hv. þdm. sjeu fúsir til að veita því lið. Orðalaginu vill nefndin líka breyta eftir ósk stórstúkunnar.

Þá kem jeg að brtt. við 18. gr. Þarf jeg lítið um þær að segja, enda eru þær sjálfsagðar.

Sigvaldi Kaldalóns læknir hefir nú fengið embætti í Flatey og er því ekki ástæða til þess, að hann fái eftirlaun í 18. gr.

50. brtt. er styrkur til ekkju Ólafs Gunnarssonar læknis. Gerir nefndin ráð fyrir því, að hún fái einnig venjuleg eftirlaun úr ríkissjóði og framlag með börnunum.

51. brtt. er um eftirlaunaviðbót til tveggja presta, sjera Björns Þorlákssonar á Dvergasteini og sjera Stefáns Jónssonar á Staðarhrauni. Er þessi uppbót veitt til þess, að eftirlaun þeirra komist upp í 1000 kr.

Nefndin vill hækka eftirlaun Helgu Skúladóttur, ekkju sjera Pjeturs Jónssonar á Kálfafellsstað, um 230 kr., og verða þau þá samtals 300 kr.

Þá vill nefndin veita ekkju Þorvalds Arasonar póstafgreiðslumanns 300 kr. styrk. Þorvaldur var lengi starfsmaður hins opinbera og reyndist hinn nýtasti maður.

54. brtt. er um eftirlaun þriggja pósta. Hefir aðalpóstmeistari eindregið mælt með þeim öllum, enda hafa þeir starfað lengi í þjónustu landsins. Liggja fyrir erindi frá þeim öllum.

Þá er 55. brtt., sem er skáldastyrkur til Einars Benediktssonar. Kom erindi frá prófessorum heimspekideildar háskólans og landsbókaverði þess efnis, að Einari Benediktssyni yrðu veitt árlega hæstu prófessorslaun. Nefndin er á einu máli um það, að úr því að veitt eru skáldalaun á annað borð, þá verður Einar Benediktsson að teljast þeirra verðugur. Er því lagt til, að honum sje veittur styrkur jafnhár þeim hæsta, sem veittur er sem skáldalaun í 18. gr.

Nefndin leggur til, að þrem ljósmæðrum sje veittur ellistyrkur. Fleiri umsóknir lágu fyrir. En þessar konur hafa allar starfað yfir 35 ár og getið sjer hið besta orð. Það var auðvitað ekki hægt að sinna öllum, sem sóttu, en nefndinni þótti rjett, eftir því sem áður hefir verið gert, að veita þessum þrem ljósmæðrum smáupphæðir.

Þá kem jeg loks að síðustu brtt. Þar er farið fram á að hækka eftirlaun Steinunnar Sigurðardóttur, ekkju Magnúsar Vigfússonar, úr 400 kr. upp í 600 kr. Er það gert eftir ósk hæstv. forsrh. (JÞ). Samkvæmt umtali við þáverandi forsrh., Sigurð Eggerz, voru konu þessari veittar ívilnanir um húsnæði, er hún flutti úr stjórnarráðshúsinu. Hefir síðan verið greidd húsaleiga fyrir hana úr ríkissjóði. En nú verður þessi húsaleiga ekki greidd lengur, og hefir því nefndin fallist á að hækka eftirlaun hennar.

Þá hefi jeg mælt með öllum till. fjvn. og skal ekki fjölyrða um þær frekar. En um afstöðu nefndarinnar til brtt. einstakra þm. ætla jeg ekki að tala fyr en þeir hafa mælt fram með þeim.