02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að rísa svo snemma úr sæti, en þar eð enginn hefir kvatt sjer hljóðs og með því að jeg á hjer á þskj. 284 3 smáskornar brtt., þá þykir mjer hlýða að fara um þær nokkrum orðum.

Jeg get sagt það um allar þessar till. mínar, að ef mjer hefðu verið kunnar brtt. þær, sem ýmsir hv. deildarmenn hafa borið fram um aukin fjárframlög til einstakra hjeraða, þá myndi jeg hafa farið nokkru lengra í till. mínum og haft upphæðirnar hærri. En jeg takmarkaði mig í till., til þess að sýna, að jeg vildi styðja þá viðleitni hv. fjvn. að auka ekki útgjöld í fjárlögunum óhóflega mikið að þessu sinni, því að jeg tel það mikilsvert, að tekjuhallinn verði þó sem minstur, eða viðráðanlegur.

Jeg ætla mjer ekki að gera brtt. hv. fjvn. að umtalsefni; jeg tel það óþarft, en skal geta þess, að þó að jeg fylgi ekki hv. nefnd alstaðar í till. hennar, þá mun jeg þó fylgja henni víðast hvar.

Fyrsta brtt. á þskj. 284, sem jeg á, er XXI. brtt., við 14. gr. B. XV. Fer jeg þar fram á, að veittar verði til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal, til húsmæðrafræðslu í Mjóanesi, 1500 kr.

Kona sú, er hjer um ræðir, hefir undanfarin ár haldið uppi námsskeiðum fyrir stúlkur í handavinnu, vefnaði og öðrum þjóðlegum hannyrðum kvenna, auk þess sem hún hefir einnig leiðbeint þeim í húsmæðrastörfum öðrum. Hefir hún sýnt það, að hún er einkar vel til slíkrar kenslu fallin og hefir getið sjer góðan orðstír. Nú er hjer á ferð í þinginu frv., sem fer í þá átt að stofna húsmæðraskóla að Hallomsstað, og er ráð fyrir því gert, að kona þessi taki að sjer stjórn þess skóla, ef til kemur. Hvort sem frv. þetta nær samþykki þingsins nú eða ekki, þá má altaf búast við því, að framkvæmd á stofnun húsmæðraskólans eystra dragist, vegna þess meðal annars, að kvennaskólasjóður Austurlands, sem væntanlega verður lagður móti ríkistillagi í stofnun skólans, er enn sem komið er varla megnugur þess að leggja fram nægilegt fje eftir frv. Tel jeg því rjett til bráðabirgða að styðja með nokkru fjárframlagi þessa viðleitni konunnar og nota hæfileika hennar, og í því skyni hefi jeg leyft mjer að bera fram þessa till. Verði hún samþykt, er þegar fenginn vísir að húsmæðraskóla og bætt aðstaða til þess að halda uppi þeim námsskeiðum, sem haldin hafa verið undanfarið.

Nú er lítilfjörlegur styrkur veittur konu þessari í 16. gr. fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, og í fjárlagafrv. komandi árs er gert ráð fyrir lítilsháttar styrk til hennar. Jeg hefi í dag afhent brtt. um það að fella niður þennan styrk í 16. gr. fjárlagafrv., í trausti þess að þessi till. mín á þskj. 284 verði samþykt. Annars þykist jeg ekki þurfa að mæla frekar með till., því að konan er áður þekt af starfi sínu þarna eystra og auk þess af ritgerðum, sem eftir hana liggja í blöðum og tímaritum, eins og líka af umræðum á Alþingi undanfarin ár um starf hennar.

Til þess að tefja ekki tímann, skal jeg láta mjer þetta nægja um þessa brtt., en snúa mjer að næstu tillögu minni á sama þskj. Hún er XXVII. brtt. og við 15. gr. 17 d. Fer jeg þar fram á, að veittar verði til Þórarins Jónssonar tónlistarnema í Berlín 1200 kr. Eins og kunnugt er, þá eru honum ætlaðar 2000 kr. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Er það fyrsti styrkurinn, sem hann hefir fengið af opinberu fje. Hann mæltist að þessu sinni til þess að fá 4000 kr., en jeg hefi ekki treyst mjer til að fara fram á meira en þessar 1200 kr. Vona jeg, að vel verði í það tekið af hv. dm., því jeg álít hjer mjög hóglega í sakir farið, en verðleika Þórarins mikla og þörfina brýna.

Maður þessi er sjerstaklega vel gefinn, fær í tónlist, og verk hans hafa vakið athygli til og frá í löndum Evrópu. Eru skjöl, er fjalla um ný verk hans, geymd hjer hjá bæjarbúa einum, en því miður gat jeg ekki náð í þann mann, er jeg reyndi það fyrir nokkrum dögum. Nýlega var Þórarni boðið til Parísar til þess að hlýða þar á hljómleika, en þar átti að leika tvö tónverk, er hann hefir samið, en fiðlusnillingurinn Wollner hefir leikið þar og í Þýskalandi.

Þrátt fyrir fátækt hefir Þórarinn barist þetta áfram á 3. ár við erfitt nám. Og jeg veit, að skuldir þær, er hann hefir nú á baki, eru svo miklar, að líkur eru litlar til, að hann geti endurgreitt þær og lokið námi. Stuðningsmenn hans hafa lagt mikið af mörkum til hans, bæði sem gjafir og einnig í ábyrgðum, og munu þær nema 8 þús. kr. Væri ilt til þess að vita, að hann yrði nú að hverfa frá námi fyrir fátæktar sakir áður en hann hefir náð fullum þroska í list sinni. En þetta blasir við, ef honum verður ekki rjett hjálparhönd. Lítil fjárhæð, sem farið er fram á hjer í því skyni, gæti þó orkað miklu.

Jeg hefi frjett, að Þórarinn geri ráð fyrir að koma hingað heim að afloknu námi, ef hann sjer líkur fyrir því að geta starfað hjer. Hann er starfsvanur maður frá æsku, er íslenskur sjómaður, fær til allrar vinnu, en mundi þó sennilega helst vilja færa sjer kunnáttu sína í nyt að námi loknu. Skal jeg ekki fjölyrða um þetta atriði frekar, enda er ferill Þórarins flestum hjer kunnur.

Þá á jeg XXXI. brtt. á sama þskj., við 16. gr. 9. c. Er þar farið fram á 6000 kr. til húsabóta á Hallormsstað.

Árið 1921 voru veittar 5500 kr. til húsabóta á þessum stað. En þær húsabætur komust upp í 7500 kr., og var það, sem fram yfir áætlun fór, veitt í fjárlögum 1922, að því er mig minnir. Húsabætur þessar voru framkvæmdar þegar alt byggingarefni var sjerstaklega dýrt og aðstaðan því óhæg um byggingar. Reyndust því bæturnar allsendis ónógar, enda aðeins bygt búr og eldhús. Hefir því til þessa orðið að búa við fornfálega og gamla baðstofu, löngu úrelta. En á slíkum stað sem þessum, sem er heimsóttur af fjölda ferðamanna, erlendra og innlendra, og sem auk þess er einn af allra fegurstu stöðum landsins, er það næsta óviðfeldið, að ekki skuli vera bygging, er samsvari sæmilegum íslenskum sveitabæ. Fje það, sem veitt var 1921 utan fjárlaga, entist tæplega til þess að reisa eldaskála, búr og þvottaklefa, svo sem jeg áður nefndi, en upphæðin var svo takmörkuð, að ekki var vegur að endurbæta íbúðina. Því stendur þarna enn þann dag í dag 70 eða 80 ára gamall baðstofuendi og hafður til íbúðar.

Fyrir hv. fjvn. hefir legið erindi frá skógarverðinum og meðmæli frá skógræktarstjóra, auk áætlunar frá byggingarráðunaut um húsagerðina. Er þar lýst húsakynnum og gerð grein fyrir, hvað mest vanhagar um. En auk þess fylgir uppdráttur af húsunum eins og þau eru og ætlast er til að þau verði.

Upphæðin, sem farið er fram á hjer, er lág, ef til vill of lág, en byggingaráðunautur hefir áætlað kostnaðinn 6–7 þús. kr. Að sjálfsögðu væri hægt að leggja fram fje þetta án þess að það stæði í fjárlögum, þar sem hjer er um húsabætur að ræða á ríkiseign og ríkissjóði skylt að annast þær. En stjórnin hefir daufheyrst við öllum óskum um þetta, og því verður að leita þingsins.

Skógarvörðurinn hefir í einkabrjefi til mín skýrt mjer frá, að ýmislegt, er til byggingarinnar þarf, fáist á staðnum, og má því vel vera, að kostnaðurinn fari ekki fram úr þessum 6 þús. kr., enda er byggingin eftir teikningu og áætlun ekki stór.