02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

21. mál, fjárlög 1928

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg á ekki margar brtt. við fjárlagafrv. Brtt. mína I. á þskj. 284 tók jeg aftur í gær, og mun jeg ekki koma fram með hana aftur fyr en við 3. umr.

Jeg vil þá fyrst víkja að brtt. minni á þskj. 284 undir tölulið XXXVI við 16. gr. 40. Er það nýr liður, til Byggingarfjelags Reykjavíkur 5000 kr. Hafa styrkbeiðnir frá fjelaginu verið á ferðinni hjer á hv. Alþingi tvisvar sinnum áður og komist í fjárlög, en þá verið bundnar skilyrðum um meiri styrk annarsstaðar frá, sem hefir brugðist, svo að fjeð hefir ekki verið greitt fjelaginu.

Fjelag þetta var stofnað á ófriðarárunum, þegar dýrtíðin var sem mest, og reisti það þá nokkur hús. Það má auðvitað segja, að fje það, sem fjelagið byrjaði með, hafi verið of lítið; það var aðeins 13 þús. kr. En það var þá úr vöndu að ráða, þar sem margir fátæklingar stóðu uppi húsnæðislausir. Þá var tekið lán til þess að reisa húsin. Síðan hefir fjelagið tapað allmiklu vegna þess að verð á húsum og þar með húsaleiga hefir lækkað að miklum mun. En nú er það ætlun stjórnar fjelagsins, ef þessi styrkur fæst, að reyna að grynka á skuldum þess, svo að hægt verði að lækka húsaleiguna enn meira en gert hefir verið, og þó rjetta nokkuð við fjárhaginn. Í húsum fjelagsins búa nú á annað hundrað manns, svo að þessi hjálp mundi taka til margra manna. Hingað til hefir fjelagið getað staðið í skilum án þess að þurfa að leita til annara, og mundi geta það nú, ef þessi styrkur fengist.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á brtt. mína á sama þskj. undir tölulið XXXVIII, við 17. gr. 3. Er það einnig nýr liður, 3500 kr. til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Er þessi till. sama efnis og sú, er samþ. var í fyrra, en nú í ár láðist að' senda umsókn til stjórnarinnar, svo að styrkurinn stóð ekki í fjárlagafrv. Að sjóði þessum standa um 2000 manns, sem greiða árgjöld í hann, auk þess sem vextir renna í sjóðinn af stofnfjenu. Samkvæmt reikningum fjelaganna hafa styrkveitingar úr sjóðnum numið alls 7800 kr., eða um 165 kr. á mann að meðaltali, þó að töluverður munur sje á upphæðunum, frá 50 upp í 600 kr.

Upprunalega var tilætlunin, að þetta væri aðallega slysatryggingarsjóður, en eftir að hin almenna slysatrygging var sett á stofn, var ákveðið, að sjóðurinn tæki einnig til manna, er ættu við langvint heilsuleysi að búa. Sýna reikningarnir, að sjóðurinn hefir komið að miklu gagni, og vænti jeg, að till. fái góðan byr hjá hv. dm.

Loks vil jeg minnast á brtt. XXXIX, við 17. gr. 3, um 3000 kr. styrk til sjúkrasamlags Reykjavíkur, sem jeg flyt ásamt háttv. 1. og 3. þm. Reykv. Eftir upplýsingum, sem gefnar hafa verið, sjest það, að nú eru í landinu alls 9 samlög í flestum stærstu stöðum landsins, en þó ekki öllum. En ef sjúkratrygging á að verða almenn, þá verður að gera eitthvað til þess að setja á stofn ný sjúkrasamlög. Sjúkrasamlag Reykjavíkur vill nú gangast fyrir þessu, bæði að stofna ný sjúkrasamlög og svo að koma á landssambandi milli þeirra, sem þegar eru stofnuð. Eins og nú er, þá eru óþarfir örðugleikar gerðir mönnum, er flytja úr stað, þar sem sjúkrasamlag er, og í annan stað, þar sem sjúkrasamlag er fyrir. Þeir verða að byrja á nýjan leik í þessu nýja sjúkrasamlagi, í stað þess að komast þar inn án nokkurs sjerstaks biðtíma. En úr þessu mundi verða bætt, ef komið væri á sambandi milli allra sjúkrasamlaga landsins. Þá er slíkt landssamband væri komið, mundi og vera mögulegt að koma á sambandi við landssambönd sjúkrasamlaganna í öðrum Norðurlöndum, svo að menn, sem færu utan um lengri eða skemri tíma, gætu þar notið rjettinda sinna áfram sem sjúkrasamlagsmeðlimir. Þessi fjárveiting til sjúkrasamlags Reykjavíkur getur því komið að miklu gagni og er bráðnauðsynleg, ef ætlast er til, að frjáls sjúkratrygging í landinu aukist.