02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Ólafsson:

Á þskj. 284 á jeg þrjár brtt. Hvergi ræ jeg þó einn á báti; við erum alstaðar tveir og þrír um hverja. Það er óþarfi að geta þess, að þessar brtt. fara fram á aukin útgjöld úr ríkissjóði. En jeg er ekki hræddur við það, þótt nokkrum smáupphæðum sje bætt við það, sem áætlað er, því að það hefir oft sýnt sig, að í þessum áætlunum Alþingis hefir ekki staðið steinn yfir steini, svo það er því síður en svo, að þessar áætlanir um tekjur og gjöld sjeu óskeikular. Þá skal jeg fyrst minnast á brtt. þá, sem jeg flyt ásamt hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um 3000 króna ferðastyrk til Ríkarðs Jónssonar til þess að kynnast þjóðlegri húsgagnalist í Noregi og Svíþjóð. Þennan styrk hefir hann sótt um vegna áskorana frá fjölda mörgum mönnum. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, eru Norðmenn og Svíar búnir að vinna að þessu hjá sjer um langt skeið og eru komnir manna lengst í þeim efnum að eiga þjóðlegan húsgagnastíl. Á hinn bóginn hafa komið hjer á landi fram háværar raddir um það, að við þyrftum að fá fastan og þjóðlegan stíl í húsgögn okkar, stíl, sem einkendi þau frá öðrum húsgögnum. Ef þetta er krafa þjóðarinnar, að fá sjerstakan þjóðlegan stíl, þá er sjálfsagt að senda þann mann út til rannsóknar og athugunar í þessu efni, sem færastur er á þessu sviði. Ríkarður Jónsson mun nú vera flestum kunnur sem listamaður. Hann hefir lagt stund á þessa iðn; hann hefir fengist við útskurð og húsgagnagerð hjer innanlands og þykir mjög listfengur og þjóðlegur í ment sinni. Alþingi hefir líka sjeð, að þessi maður er verður styrks, því að það hefir styrkt hann ár eftir ár. Því ætti Alþingi að vera ljúft að styrkja hann til utanferðar í þessu skyni. Því er ekki hægt að neita, að þessi fjölhæfi listamaður, með sína góðu greind og glögga auga, hefir öðrum fremur skilyrði til þess að verða að liði á þessu sviði. Hann hlýtur að allra dómi að vera líklegasti maðurinn til þess að geta komið hjer á þjóðlegum stíl í húsgagnagerð. Bera því vitni verk hans og lærisveina hans, sem eru dreifð víðsvegar út um land, sem eru til prýði og ánægju á hverju heimili. Jeg vænti því, að háttv. deild taki þessari brtt. vel og samþykki hana.

Þá á jeg brtt. ásamt háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. 4. þm. Reykv. (HjV), þess efnis að veita sjúkrasamlagi Reykjavíkur alt að 3000 kr. styrk. Hv. 4. þm. Reykv. hefir nú mælt fyrir henni, og get jeg því sparað mjer langt mál. Þetta er fjelagsskapur, sem miðar að því að hjálpa einstaklingunum til þess að hjálpa sjer sjálfum. En það er gott starf. Sumir eru þannig gerðir, að þeir vilja heimta alt af hinu opinbera án þess að leggja nokkurn skapaðan hlut á sig sjálfa, en fjelagar í slíkum fjelagsskap sem þessum leggja á sig töluverð fjárútlát til þess að þurfa ekki að vera upp á aðra komnir. Að minni hyggju á því að styrkja þennan fjelagsskap í þessari viðleitni sinni. Það er ætlast til, að þessum styrk verði varið til þess annarsvegar að stofna ný sjúkrasamlög úti um landið og hinsvegar til þess að koma á sambandi milli þeirra sjúkrasamlaga, sem fyrir eru, svo og einnig til þess að koma þeim í samband við dönsku sjúkrasamlögin. Jeg vil taka það fram, að það er ekki meiningin, að þessi fjárupphæð standi áfram í fjárlögunum, heldur sje þetta veitt í eitt skifti fyrir öll. Jeg vil undirstrika það, að hjer er ekki um að ræða styrk til eyðslu án þess nokkuð komi í aðra hönd. Jeg vænti, að hv. dm. kunni vel að meta það, sem á móti þessu kemur.

Þá kem jeg að 3. brtt. minni, sem jeg flyt ásamt háttv. 2. þm. Árn. (JörB), þess efnis að veita Böðvari Magnússyni á Laugarvatni alt að 20 þús. kr. lán til þess að byggja upp bæjarhús á jörðinni. Jeg hygg nú, að þeim, sem mest skrafa og skrifa um hátíðahöld á Þingvöllum 1930, ægi það ekki, þótt fram komi ýmsar tillögur, sem miða að því að prýða Þingvelli eða umhverfi þeirra. Ein af þeim bollaleggingum, sem jeg hefi heyrt talað um, er að leggja veg austur í Laugardal. Það eru nú skiftar skoðanir um það, hvar sá vegur eigi að liggja, og er um tvær leiðir að velja. En það vill nú svo til, að það er sama, hvor leiðin sem valin er; hið fyrsta, sem ferðamennirnir rekast á, er Laugarvatn, eitt hið fegursta býli á landinu. Það hefir legið við borð, að skóli yrði reistur þar, en nú er vafasamt, hvort úr því verður, þótt samkomulag náist annars um skólann. Mjer hefir skilist á bóndanum, að svo muni ekki verða, og þá verður ekkert úr byggingu þar skólans vegna. Mjer fyndist nú, að hin svo kallaða Þingvallanefnd ætti að taka það til athugunar, að það er ekki mest um vert til þess að sýna menningu landsmanna að hrúga byggingum upp á Þingvöllum sjálfum, heldur verður líka að gera nokkuð til þess, að umhverfi Þingvalla bæri sem mest menningarmerki. — Þessi bóndi, sem við förum fram á styrk halda, er svo sem menn vita fátækur maður. Hann hefir alið upp fjölda barna — jeg held 13 —, sem eru hvert öðru mannvænlegra. Jörðin er í besta lagi hirt, en bónda vantar nokkra aðstoð til að koma upp góðum húsakynnum. Bærinn er í þjóðbraut, en bóndi hefir ekki getað hýst ferðamenn til þessa. Er það leiðinlegt, þegar komið er á slíkt höfuðból að fegurð og stórfengleik í landslagi, að geta ekki staðið við nokkrar nætur. Jeg veit þess dæmi, að merka útlendinga hefir langað til að staldra þar við, en ekki hefir verið hægt að láta þeim húsrúm í tje, þrátt fyrir besta vilja bóndans. Í fyrirsjáanlegri framtíð er ekki hægt að vænta þess, að bóndi geti komið upp góðum byggingum af eigin ramleik. Því leitar hann nú til hins háa Alþingis og biður það að styrkja sig með lánveitingu. Jeg vil sjerstaklega benda mönnum á, að hjer er ekki verið að tala um neina eyðslu, heldur aðeins lán, sem hæstv. landsstjórn mundi væntanlega sjá fyrir, að yrði nægilega trygt. En þar fyrir gæti það komið manninum að góðu liði. Jeg vona, að ekki þurfi um þetta mikið fleiri orð, og vænti jeg þess, að bæði hv. þd. og hv. fjvn. sjái, að hjer er um sanngjarnt mál að ræða. Er það ósk mín, að hv. fjvn. sjái sjer nú fært að verða með bæði þessari og öðrum brtt. mínum; og þótt henni kunni að þykja nokkuð nærri gengið fjárhagnum á árinu 1928 með þessum og öðrum fjárveitingum, þá veit hv. nefnd lítið um það enn, hvernig það ár verður. Henni hefir brugðist spásagnargáfan um undanfarin ár, og það má búast við, að svo fari enn.