02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Jeg vil fyrst minnast þess, að háttv. 1. þm. Rang. (KIJ) beindi þeim aths. til hv. deildar í gær, að honum þætti sumum brtt. nokkuð seint útbýtt, og þar með vera tekinn upp siður, sem ekki ætti að eiga sjer stað. Þessi hv. þm. er nú vanur að koma þannig fram, að jeg veiti orðum hans og gerðum alveg sjerstaka athygli. Falla mjer hans skoðanir venjulega vel í geð, þær eru hreinar og einbeittar, hæfilega frjálslyndar og bornar fram með lipurð og ljúfmensku, frekar en hjá flestum öðrum hv. þm. Hv. þm. (KIJ) mintist sjerstaklega á eitt þskj. með nokkrum brtt., sem ekki var útbýtt fyr en á fundi í gær. Flestar þessar brtt. voru frá mjer, og er mjer sjerstök ánægja að fá tilefni til að skýra frá ástæðum til þessa. Jeg varð sem sje fyrstur allra manna til að leggja mínar brtt. fram á skrifstofuna, er forseti hafði tilkynt þann frest, er menn hefðu til að koma með brtt. En einmitt þetta er líklega orsök til þess, að brtt. mínar gleymdust í skrifstofunni, þegar farið var með þær till., er löngu seinna komu, til prentunar. Er þskj. 284 með brtt. einstakra þm. hafði verið útbýtt í hv. deild og jeg sá, að mínar brtt. voru þar ekki, sneri jeg mjer þegar í stað til skrifstofustjóra og bað um að láta prenta mínar till. Bjóst jeg við, að það yrði gert svo fljótt, að þeim yrði útbýtt ekki síðar en í fundarbyrjun í gær. En því var nú ekki að heilsa. Hjer hafði verið á ferðum þetta venjulega frjálslyndi, sem hjer er iðkað, og voru mínar brtt. látnar bíða, til þess að sjá, hvort ekki kæmu einhverjar eftirlegukindur, sem gætu orðið á þskj. með þeim, þótt frestur til að koma með brtt. væri löngu útrunninn. Svona stendur nú á því, að brtt. mínum var ekki útbýtt fyr en seint á fundi í gær. Þetta er ekki stórt atriði í sjálfu sjer, en jeg vona, að hv. 1. þm. Rang. (KIJ) geti nú litið á brtt. mínar með vinsemd, þar sem hann er hverjum þm. sanngjarnari og fremri að dómgreind. Því fremur þori jeg að vænta þessa, sem þessi hv. þm. hefir nýlega fengið mig og marga aðra góða menn til að greiða atkvæði með einni allsherjar brtt. við okkar þjóðskipulag, sem hann ljet sjer mjög ant um, að næði fram að ganga. Jeg vil kannast við, að jeg fylgdi honum þar með fúsu geði og að jeg ber fult traust til, að jafnan sje óhætt að fylgja því, sem þessi ósjerplægni hv. þm. beitir sjer fyrir. Vona jeg nú að fá fylgi hans með mínum brtt. til verðugs endurgjalds fyrir atkv. mitt í hinu málinu.

Þá get jeg snúið mjer að brtt. mínum á þskj. 294. Fyrst eru brtt. við 15. gr. 17. d., tveir nýir liðir, sem jeg hefi merkt a. og b. A.-liðurinn er 1500 kr. til Guðmundar Kristjánssonar til sönglistarnáms. Pilturinn er nú við þessháttar nám á Ítalíu. Hann hefir hvað eftir annað fengið bestu vottorð frá kennurum sínum, sem jeg kann ekki nöfn á. Hjer fyrir hinu háa Alþingi liggja m. a. nokkur meðmæli frá þeim, bæði á frummálinu og í íslenskri þýðingu, Síðast á þinginu í fyrra bar jeg fram samskonar brtt. og þá, er hjer liggur fyrir. Þessi efnilegi piltur fann þá ekki náð fyrir augum, hv. fjvn. frekar en nú. Þess vegna gerði jeg, er fjárlögin komu þá hjer til síðustu umr., tilraun til að koma að sjerstökum styrk til hans, en gekk þó inn á að taka aftur brtt. mína, í þeirri von, að hann fengi styrk af því fje, sem stjórnin hefir til úthlutunar. Hann hefir þó enn ekki fengið neitt af þeim styrk, og mjer virðist borin von, að hann fái hann á þessu ári. En hvað sem öðru líður, er þessi piltur svo fátækur, en þó efnilegur, að óhætt er að mæla með honum framar flestum öðrum. Vænti jeg því, að hv. deild sjái sjer fært að liðsinna honum, því fremur sem aðrir söngmenn hafa notið góðs af styrk frá þinginu.

Hinn liðurinn, b-liður, er um 800 kr. náms- og utanfararstyrk til Ásgeirs Bjarnþórssonar málara. Hann er hv. þd. e. t. v. ekki eins kunnur og hinn pilturinn, sem jeg var að tala um, en hefir þó haft málverkasýningar hjer í bænum. Hann dvelur nú í Suður- Frakklandi til að fullnuma sig í málaralist og er mjög efnilegur maður. Jeg hefi leyft mjer að bera hann hjer fram, sakir þess að hann hefir ekki fengið neitt af þeim listamannastyrk, sem landsstjórnin hefir til úthlutunar. Geri jeg þetta í því trausti, að hv. þd. sjái sjer fært að liðsinna þessum efnilega manni.

Önnur brtt. mín er við 16. gr. 36, og er nýr liður, styrkur til Jóns Helgasonar til að gera vindknúinn þrýstiloftsumbúnað til raforkuframleiðslu. Samskonar brtt. og þessa bar jeg fram við fjárlögin á þingi í fyrra. Þá lágu tvær umsóknir af þessu tægi fyrir hv. fjvn., og vildi hún aðeins sinna annari. Nú er mjer ekki kunnugt um, að fleiri slíkar umsóknir hafi komið fram, en hitt veit jeg, að þessi umsókn hefir legið fyrir hv. fjvn. ásamt meðmælum mínum. Hv. nefnd hefir nú ekki viljað sinna þessari beiðni, og ber jeg hana því fram á ný. — Jeg hefi sett hjer þá upphæð, sem maðurinn fer fram á, og ætla jeg ekki að þessu sinni að útlista, til hvaða framkvæmda hann ætlar að nota fjeð. Jeg gerði rækilega grein fyrir því í fyrra, og þykist jeg vita, að það sje flestum hv. þdm. í fersku minni. Hafa fyrirætlanir hans ekki breyst síðan, nje heldur trú þeirra, sem þekkja manninn, hugvit hans og vilja til að nota náttúruöfl í þjónustu manna á þann hátt, sem ekki hefir áður verið gert. Jeg vænti þess, að flestir hv. þdm., sem litið hafa í þingmálafundargerð í Borgarnesi í vetur, hafi veitt því athygli, að þar er þess æskt, að þessi maður fái styrk frá hinu opinbera. — Jeg veit, að hv. fjvn. hefir tekið þá stefnu að fara nú enn varlegar en nokkru sinni fyr um styrkveitingar. Það þykist jeg sjá m. a. á till. hennar um að veita ekki námsmönnum eða listamönnum styrki. Þótt hv. nefnd vilji nú ekki víkja frá stefnu sinni um þessa menn, ætti hún að sjá, að öðru máli er að gegna um verklegar framkvæmdir og framfarir. Og það þykist jeg hafa fyrir satt, að hv. nefnd þyki hjer um þarft hlutverk að ræða. Samskonar fyrirtæki, sem í fyrra var styrkt eftir till. hv. nefndar, hefir ekki sýnt nein mistök, svo að jeg viti. Þó er vitanlega ekki við að búast, að á það sje enn komin full reynsla. En þetta er svo þýðingarmikið og merkilegt atriði, að ástæða er til að afla sjer reynslu um það á fleirum en einum stað sem fyrst, enda þótt hagur ríkissjóðs sýnist ekki upp á það besta.

Þriðja brtt. er við 22. gr. og er nýr liður, alt að 20 þús. kr. lán handa Borgarneshreppi, til endurbyggingar raforkustöðvar. Fyrir Alþingi hefir legið umsókn um þetta frá hreppsnefndinni og nokkur fleiri gögn til að byggja á. Hjer stendur svo á, að fyrir nokkrum árum var sett á stofn stöð í Borgarnesi til að framleiða rafmagn, aðallega til ljósa, en þó einnig til hitunar lítið eitt. Þessi stöð var knúin með mótor og hafði og hefir venjulega raforkugeyma. Nú er það vitanlegt, að allir raforkugeymar, a. m. k. við smærri vinslu, vilja eyðast nokkuð fljótt. Sama er að segja um steinolíumótora, að þeir ganga fljótt úr sjer. Enda er nú svo komið í Borgarnesi, að þar þarf að endurbyggja stöðina algerlega, og segja fróðir menn, að ekkert sje hægt að nota aftur nema leiðslurnar. Því hefi jeg nú farið fram á, að hv. deild vildi veita hreppnum nokkurt lán, t. d. 20 þús. kr., til að endurbyggja stöðina. Jeg vil biðja hv. þd. að athuga, að mikill munur er á því, hvort farið er fram á fjárveitingu eða aðeins lán, og það því fremur, sem ekki er um stórlán að ræða og til nauðsynlegs fyrirtækis. Þetta er eitt hið minsta lán, sem beðið hefir verið um undir svona kringumstæðum. Jeg leyfi mjer að vænta þess, að þessi brtt. fái ekki aðeins atkv. margra eða flestra hv. þdm., heldur vona jeg, að einhverjir gerist nú til þess að veita mjer stuðning í að tala fyrir henni.

Jeg hefi aldrei verið gefinn fyrir að tala lengi, en þó þarf jeg enn að minnast á tvö atriði í þessu máli. Það er þá fyrst brtt. á þskj. 284, XXXIV, sem hv. 4. þm. Reykv. flytur. Þessi hv. þm. (HjV) var um daginn í öðru máli að minnast á umtal í Reykjavík. Mjer datt nú í hug, að sitthvað mætti heyra hjerna um ýms málefni. T. d. hefi jeg heyrt talað um Byggingarfjelagið á þann hátt, að jeg efast um, að það sje takandi trúanlegt. Því er fleygt manna á meðal, að árangurinn af stofnun þessa fjelags hafi orðið annar en til var ætlast, og að styrkur sá, sem það hefir fengið af almannafje, hafi ekki verið notaður svo sem vera bar. Jeg efast ekki um, að fjelagið hafi mikið getað mildað kjör þeirra snauðu manna, sem notið hafa góðs af starfsemi þess. En jeg hefi altaf hugsað mjer, að fjelagið ætti að geta rjett smám saman við úr skuldakröggum sínum, án þess beinlínis að fá nú opinberan styrk. Þó mun jeg ekki hafa neitt á móti þessu, ef hv. flm. (HjV) getur gert mjer ljósa grein fyrir fjárhag fjelagsins og hvernig það hefir varið því fje, sem því var veitt í upphafi. Mjer liggur nærri skapi að greiða atkv. með þessari brtt., en þó er óvíst, að jeg sjái mjer það fært, ef hv. flm. hennar verður eigi við tilmælum mínum.

Hitt atriðið er nú eiginlega um frv. sjálft. Jeg hefi jafnan verið gjarn á að vilja hafa gott skipulag á öllu því, sem jeg hefi færst í fang um dagana eða fjallað um, og jeg hefi veitt því eftirtekt, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir verið það umhugað að hafa gott skipulag á fjárlagafrv., og yfir höfuð reikningum ríkisins, þá stund, sem hann hefir látið það til sín taka. En þó vildi jeg leyfa mjer að benda á eitt atriði í frv., sem mjer finst, að vanti til þess að fult samræmi sje um skipulagið, og það er 7. liður 16. gr. Mjer finst, að sá liður sje settur á rangan stað og að hann mundi fremur eiga heima í 13. gr. Ef hæstv. fjrh. eða hv. fjvn. vildi fallast á þetta, mætti bera fram brtt. um það við 3. umr. Að vísu er það fleira í 16. gr., sem mjer virðist, að betur ætti heima í ýmsum öðrum gr. frv., þótt jeg fari ekki frekar út í það nú, enda skiftir það ekki miklu máli.

Loks skal jeg geta þess, að hjer hefir verið á ferðinni undirskriftalisti þess efnis að skora á hæstv. forseta að halda áfram fundi þangað til lokið verður umr. og atkvgr. Jeg vildi ekki skrifa undir þennan lista, en hinsvegar skal jeg styðja að því fyrir mitt leyti, að þetta geti tekist, og á þann hátt að segja ekki meira.