02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

21. mál, fjárlög 1928

Jakob Möller:

Jeg á fáeinar brtt. við þennan kafla fjárlaganna, sem jeg ætla að láta fylgja fáein orð. Þær eru allar á sama þskj., 284, og sú fyrsta er þar undir tölulið XIV. Hún er um námsstyrk handa Valgarði Thoroddsen stúdent. Síðustu árin hefir slíkur styrkur verið veittur ákveðinni tölu stúdenta, er nám stunda við erlenda háskóla. En frá þessu hefir þó stundum verið vikið, og virðist benda til þess, að þingið hafi ekki viljað binda svo hendur sínar, að ekki mætti frá þessari venju bregða í einstökum tilfellum. Um þennan stúdent er það að segja, að hann er sonur Sigurðar yfirkennara Thoroddsens, sem um langt skeið hefir verið í þjónustu landsins með litlum launum. Hann hefir átt fyrir stórri fjölskyldu að sjá og á erfitt með að standa straum af því, sem kostar að manna börn sín og menta. Pilturinn er efnilegur að dómi þeirra manna, sem hann þekkja; hann ætlar að leggja stund á rafmagnsfræði, en þar er þó um verkefni að ræða, sem komið gæti þjóðinni að haldi, þegar farið verður að virkja fossa hjer á landi.

Það er talið, að nám þetta kosti um 2–3 þús. kr. yfir árið, eða frá 7–10 þús. kr. yfir allan námstímann, svo það er augljóst, að það sje erfitt og jafnvel ómögulegt fyrir mann með lágum launum, eins og faðir hans er, að standa straum af því. Jeg skal geta þess, að umsókn þessari fylgja meðmæli Steingríms Jónssonar verkfræðings, sem mun manna kunnugastur þessari fræðigrein, og hann leggur eindregið til, að styrkur þessi verði veittur. Pilturinn hefir um tíma unnið á vegum Steingríms, sem telur hann mjög efnilegan og hæfan til þess að stunda þetta nám. Vænti jeg því, að hv. deild sjái sjer fært að veita þennan styrk.

Næsta brtt. er sú XXVI. í röðinni og er um það að hækka styrkinn til Hljómsveitar Reykjavíkur um 700 kr. Á síðasta þingi var þessi styrkur settur inn í fjárlögin og var þá 2000 kr., en hæstv. stjórn hefir í frv. sínu lagt til, að hann lækkaði niður í 1800 kr., og mun sú lækkun hafa verið gerð í samræmi við aðrar lækkanir frv. En jeg vil aðeins benda á, að um þennan styrk er talsvert öðru máli að gegna en ýmsa aðra, sem lækkaðir hafa verið.

Það stendur svo á, að hljómsveitin þarf meira fje en í fyrra. Tekjur hennar eru ekki aðrar en styrkur frá þingi og bæjarstjórn og svo afgangur sá, sem verða kann af hljómleikum hennar. En vegna örðugs fjárhags almennings, hefir þessi styrkur af leikum hennar orðið. mjög hverfandi.

Þingið leit svo á í fyrra, að það væri ekki vansalaust fyrir okkur að hafa ekki hljómsveit, sem stæði fyllilega á sporði samskonar sveitum erlendis, og með tilliti til hátíðahaldanna 1930 er það talið okkur mjög nauðsynlegt, að þessi sveit verði þá til taks og svo skipuð, að okkur megi það til sóma verða. Í fyrra var sveitin skipuð 18 mönnum, en nú mun hún telja 24 menn, og því haldið fram, að þeim þurfi að fjölga upp í 30, til þess að fullnægja þeim kröfum, sem gera verður til hljómsveitar, sem koma á fram fyrir landið við opinber tækifæri. En þessi fjölgun eykur kostnað sveitarinnar til muna, auk þess sem hún þarf að kaupa hljóðfæri eftir þörfum. Hún hefir síðastliðið ár bætt við sig nýjum hljóðfærum og sömuleiðis styrkt menn til náms erlendis, sem vantaði í sveitina.

Sveitin hafði gert ráð fyrir, að þessi 2000 kr. styrkur, sem hún naut í fyrra, mundi nægja þetta næsta ár, en þegar hún sjer fram á minkandi tekjur af hljómleikum sínum, hefir hún ekki sjeð sjer annað fært en að sækja til þingsins um þennan viðbótarstyrk, sem jeg hefi leyft mjer að leggja til, að yrði samþyktur. Vænti jeg því, að hljómsveitin mæti þeirri velvild meðal hv. þdm., að þeir sjái sjer fært að samþ. þessa brtt.

Þá er næsta brtt. mín sú XXVIII. í röðinni, og þó að hún sje í mörgum liðum, lúta þeir þó allir að því sama, leiklistinni.

Það er styrkur til Freymóðs Jóhannssonar, til að fullnuma sig í leiktjaldamálun, utanfararstyrkur til Friðfinns leikara Guðjónssonar, til Hallgríms Bachmanns, til þess að kynna sjer ljósaútbúnað og ljósbreytingakerfi í leikhúsum erlendis, og loks er það styrkur til Einars Markans söngmanns.

Allir þessir styrkir lúta að því sama, sem sje þjóðleikhúsinu, sem stendur til að reisa og margir hafa vænst eftir, að komið yrði upp um 1930. Hjer er enginn sjerstaklega leikinn í því að mála leiktjöld, enda er það sjerstök list út af fyrir sig, eins og best sjest á því, að í öðrum löndum, þar sem leiklist er talin á háu stigi, þá eru það sjerstakir listamenn, sem leggja stund á að mála leiktjöld og gera ekkert annað. Þess vegna mundi þjóðleikhúsið ekki verða sæmilega úr garði gert, ef það getur ekki fengið þau leiktjöld til sýninga sinna, sem því eru samboðin. Hinsvegar er Freymóður Jóhannsson efnilegur listmálari, sem lagt hefir stund á leiktjaldamálun í tómstundum sínum og þótt vel takast. Hann þarf því ekki annað en æfingu og að komast út til þess að kynnast þessu frekar.

Friðfinn Guðjónsson þekkja allir sem sjerstaklega skemtilegan leikara. Hann hefir leikið hjer í mörg ár og haft alveg sjerstakt lag á því að koma mönnum í gott skap. Hann hefir aldrei út fyrir landsteinana komið, en langar nú til að fara utan. Og þar sem sú venja hefir verið upp tekin í þessu skyni, vænti jeg, að hv. þingdeild sýni það við atkvgr., að hún telji Friðfinn maklegan að verða þessa styrks aðnjótandi.

Hallgrímur Bachmann Jónsson hefir sjeð um ljósaútbúnað Leikfjelags Reykjavíkur og þótt takast það svo vel, að hann hefir fyrir það þegið lof almennings. Hv. þm. hafa ekki átt kost á að sjá þetta, eins og við Reykvíkingar, eða að kynnast hæfileikum mannsins á þessu sviði. En jeg skal sjerstaklega geta þess, að í haust leiddi hann fram einkennilega falleg lósbrigði, sem allir áhorfendur dáðust að. Og fyrir þjóðleikhús er það nauðsynlegt að hafa hæfum manni á að skipa, er stjórni og ráði ljósbúnaði öllum við hinar einstöku sýningar. Þess vegna vænti jeg, að þessi tillaga mín finni einnig náð fyrir augum hv. deildar. Og þá er loks eftir styrkur til Einars Markans söngmanns. Hann hefir áður fengið styrk, er talinn mjög efnilegur söngvari, sem þjóðleikhúsinu mundi mikill styrkur að, þegar farið verður að sýna hjer stærri söngleiki. Vænti jeg því, að háttv. deild geti fallist á að styrkja hann, eins og hún gerði í fyrra.

Næsta brtt. mín er sú XXX. í röðinni, og hana bið jeg hv. þdm. sjerstaklega að athuga. Hún er um það að veita Einari Ó. Sveinssyni 2500 kr. styrk til þess að ljúka námi í norrænum fræðum við Hafnarháskóla. Um þennan mann stendur alveg sjerstaklega á, og eftir meðmælum þeim, sem umsókninni fylgja og eru gefin af Sigurði prófessor Nordal, er hann sjerstaklega góðum gáfum gæddur. Nordal fer þessum orðum um hann:

„... Honum er svo farið um flest, sem ungum fræðimanni má best vera: ágætum gáfum gæddur, starfsamur og áhugamikill, alvörugefinn og sjálfstæður í hugsun og sannarlegt prúðmenni í hvívetna“.

En nú er svo ástatt fyrir þessum manni, að hann á aðeins eftir að ljúka námi, en hefir tafist frá því um þrjú ár vegna veikinda. Var hann kominn að því að ljúka prófi, er hann veiktist. Nú hefir hann frískast það mikið, að hann hefir tekið námið upp aftur, en telur þó engin líkindi þess að geta lokið því, nema hann fái þennan styrk.

Faðir hans er ekki það efnum búinn, að hann geti styrkt hann, enda hefir hann orðið að leggja mikið af mörkum þessum syni sínum til styrktar; fyrst námskostnað bæði innan lands og utan, og svo bættist við sjúkdómskostnaður hans. Hann er maður hniginn á efri ár, orðinn blindur og hættur að geta unnið fyrir sjer, enda segir hann í umsókninni, að tekjur sínar sjeu ekki aðrar en þær að selja og veðsetja það litla, sem hann eigi eftir, sem lítið sje þó annað en nokkur smíðatól og partur í húsi.

Vænti jeg því, þegar svona alveg sjerstaklega stendur á, að hv. deild geti fallist á, að nauðsyn beri til að hjálpa þessum unga efnilega manni til þess að ljúka námi sínu.

Þá kem jeg að XXXIII. brtt., sem er einnig nýr liður og fer fram á, að upp í fjárlög sje tekinn 500 kr. styrkur til Kvenrjettindafjelags Íslands.

Það virðist næsta undarlegt, að Alþingi skuli ekki áður hafa viljað styrkja þetta fjelag, þar sem það hefir þó styrkt Samband norðlenskra kvenna og Bandalag kvenna hjer í Reykjavík. Kvenrjettindafjelag Íslands er þó elsta kvenfjelagið, sem stofnað hefir verið hjer á landi, og hefir langmest unnið fyrir mál kvenna. Þess vegna virðist það eiga vel skilið að verða einhvers styrks aðnjótandi af opinberu fje. Þess má líka geta, að það eitt allra kvenfjelaga hjer er í hinu stóra alþjóðakvenrjettindasambandi kvenna, og þá um leið eina kvenfjelagið hjer, sem erlend kvenfjelög snúa sjer til um allar upplýsingar. Það hefir líka sent fulltrúa á sambandsfundi erlendis, en það út af fyrir sig er ekki lítils virði, að Ísland komi þar fram sem sjerstakt ríki. En kvenfjelag þetta hefir beitt sjer fyrir fleiru en utanferðum. Það hefir t. d. látið landskosningarnar til sín taka, og landsspítalann má að mestu þakka því. Nú hefir þessu fjelagi verið falið að standa fyrir næsta landsfundi kvenna, sem verður hjer í Reykjavík 1930, en slíkur undirbúningur hlýtur að hafa mikinn kostnað í för með sjer, og það er meðal annars með það fyrir augum, að þessi styrkbeiðni er fram komin, og þegar ekki er um stærri upphæð að ræða en öll sanngirni mælir með að hún sje veitt, vænti jeg, að þessi brtt. mín verði samþykt.

Þá er það XXXIV. brtt., um 1500 kr. styrk til Jóns Eyjólfssonar, til sölutilrauna á söltuðum og reyktum rauðmaga erlendis. Það er nú svo um þessa veiði, að það berast feiknin öll af þessum nytjafiski á land, en hinsvegar er markaðurinn mjög takmarkaður fyrir þessa vöru innanlands, en ekkert til þess gert að leita að nýjum markaði erlendis. Virðist það því ómaksins vert að styrkja mann til þessara sölutilrauna og freista þess, hvort ekki megi færa út markaðinn. Hinsvegar hefir maður þessi meðmæli frá velþektum mönnum, svo sem Sveinbirni Egilsyni, ritstjóra Ægis, Geir Sigurðssyni, skipstjóra, og Jes Zimsen, kaupmanni, sem allir eru fróðir í þessu efni, og vísa jeg því til ummæla þeirra sem sjerstakra fræðimanna á þessu sviði og að hjer sje ekki um neina vitleysu að ræða.

Þá á jeg nú aðeins eftir að minnast á tvær brtt., sem báðar eru við brtt. nefndarinnar og fara báðar í sömu átt, að hækka eftirlaun tveggja manna.

Fyrri brtt. er sú XLIII. í röðinni og fer fram á að hækka ellistyrk Hans Hannessonar pósts úr 300 kr. (sem hv. fjvn. leggur til) upp í 1000 kr.

Þessi maður hefir verið póstur um langan tíma, eða yfir 30 ár, og er nú farinn mjög og slitinn, er hann lætur af starfi. Jeg skal að vísu játa, að allmikill munur er á upphæð þeirri, sem jeg legg til að greidd verði þessum manni, og því, sem venja hefir verið um aðra pósta fram að þessu. En hjer stendur líka sjerstaklega á. Þessi maður hefir verið austanpóstur um alllangt skeið, og síðari árin orðið að leggja í allmikinn kostnað, sem fylgdi af bættum samgöngum. Hann hefir orðið að hafa marga hesta og vagna, en síðari árin hafa bílarnir tekið frá honum mestan póstflutninginn á meðan þeir geta gengið, og hestarnir því orðið ómagar. þeim gat hann þó ekki fargað vegna vetrarferðanna. Svo má líka líta á það, að hann er búsettur í Reykjavík, þar sem allur framfærslukostnaður er margfalt hærri en víðast úti um land. Mun því síst fjarri, að sumir úti um land sjeu eins vel settir með 300 krónur til þess að lifa af eins og menn í Reykjavík með 1000 kr. Jeg hefi ekki annað heyrt en að maður þessi hafi staðið prýðilega í stöðu sinni, og þá virðist mjer ekki annað hægt en að veita honum þessa uppbót, sem hjer er farið fram á, og með því votta honum lítilsháttar þakkir fyrir langt og vel unnið starf.

Um styrkinn til Steinunnar Sigurðardóttur sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja. Þar er um svo litla hækkun að ræða frá því, sem nefndin leggur til, að jeg leyfi mjer að skjóta því til hv. deildar, að hún sjái sjer fært að samþykkja það.