02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg ætla aðeins að mæla hjer örfá orð til skýringar á beiðni Hólshrepps um fjárframlög til þess að fullgera brimbrjótinn í Bolungarvík, og um leið vil jeg þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefir nú enn sem fyr snúist vel við þessu mikla vandamáli.

Viðbót sú, sem gerð var við brimbrjótinn 1923, var ótrygg frá upphafi og lá nærri, að hún eyðilegðist á fyrsta ári. Hólshreppur tók þá á sig mikla fjárhagslega byrði til þess að endurbæta brimbrjótinn. Kostnaður við það, sem áætlaður var 32 þús. kr., komst upp í 58 þús. kr., og af þeirri upphæð varð Hólshreppur að bera 38 þús. kr. Þó er þetta mannvirki hvergi nærri trygt enn og þarf að byggja talsvert við það, svo að trygt verði.

Síðastliðið vor átti hreppsnefndin kost á því að kaupa steinnökkva, 57 metra langan og 9 metra breiðan, vandaðan og sterkan, til þess að sökkva fyrir framan brimbrjótsendann og lengja hann með því og fullgera. Steinnökkvar sem þessi voru smíðaðir í Englandi á stríðsárunum og kostuðu þá um 1 milj. kr., en þennan nökkva mátti fá fyrir 20 þús. kr. Vitamálastjóri sagði, að þetta væri tryggasta ráðið til þess að gera brimbrjótinn vel úr garði og fulltryggan, og þess vegna keypti hreppsnefnd Hólshrepps steinnökkvann. Hefir verið gerð áætlun um það, hve mikið þetta alt muni kosta, steinnökkvinn og verkið við að sökkva honum og koma honum fyrir í sambandi við brimbrjótinn, og er talið, að kostnaðurinn muni nema 70 þús. kr. En áætlun sú, er vitamálastjóri hefir gert um fullnaðarframkvæmd verksins, er 90 þús. kr. Hreppsnefnd Hólshrepps hefir þó farið í gegnum þessa áætlun og allar teikningar henni aðlútandi og segir, að mikið megi draga úr þessum áætlaða kostnaði. Í brjefi til fjvn. hefir hreppurinn nú boðist til þess að taka að sjer að fullgera þetta mannvirki á sína ábyrgð fyrir 70 þús. kr. Það hefir nú verið svo, að þótt verk þetta, það sem af er, hafi verið framkvæmt undir stjórn og eftirliti vitamálastjórnar, þá er það ekki viðunandi, og hreppsnefnd Hólshrepps og ríkissjóður hafa tapað tugum þúsunda króna á því, hvað það hefir verið illa gert. En byrjunina, fyrsta spotta brimbrjótsins, hefir aldrei þurft að endurbæta. Þennan spotta gerðu Bolvíkingar sjálfir á eiginn kostnað og hann hefir aldrei haggast, þótt mest reyni á hann, þar sem brimsúgurinn er mestur uppi við land. Það sýndi sig og einu sinni, að verkfræðingur sá, sem stjórnin lagði til, stóð uppi ráðþrota við það að koma fyrir kassa fyrir framan brimbrjótinn. Þá var fenginn frá Ísafirði maður, sem kipti þessu öllu í lag, þótt ólærður sje. Nú er í ráði að fela þessum manni framkvæmd verksins, sem eftir er, og er það óhætt, þar sem hann hefir sýnt, að hann tekur lærðum verkfræðingum fram. Jeg vænti því, að þar sem hjer er um að ræða svo örugga og ódýra bót á þessu mikla mannvirki, þá taki háttv. þdm. ekki ver í þetta mál heldur en hv. fjvn. hefir gert. Tillögur hreppsnefndar eru ábyggilegar, og jeg vænti þess, að stjórnin sjái sjer fært að taka þann mann fyrir verkstjóra, sem áður hefir sýnt, að hann kann vel til verksins og hreppsnefnd hefir hugsað sjer að fá. Jeg veit ekki, hvort vitamálastjóri hefir nú nokkrum manni á að skipa til þessa verks, enda er það undir hælinn lagt, hvort maður, þótt verkfróður sje, muni reynast til jafns við þennan mann, er jeg talaði um, eða betri.

Fáist þessi bót á höfninni í Bolungarvík, fær ríkissjóður framlag sitt endurgoldið með tímanum. Sjómennirnir þar vestra fá þá meiri afla með minni kostnaði, en af því koma aftur auknar tekjur í ríkissjóð.