02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Jeg á 3 brtt. á þskj. 284. Af þeim ætla jeg að taka til baka fyrstu brtt., nr. XVIII. Önnur brtt., nr. XL, er um hækkun á eftirlaunum Páls Árdals. Hæstv. stjórn hefir að vísu lagt til í fjárlagafrv. sínu, að honum verði veitt 600 kr. eftirlaun, en þetta verð jeg að telja miklum mun of lítið, þótt betra sje en ekki neitt, þegar litið er yfir æfistarf þessa mæta manns, sem nú er kominn yfir sjötugt.

Hann hefir fengist við kenslu í 44 ár og þótt samviskusamur og góður kennari, svo að allir róma, er til þekkja. Auk þess hefir hann fengist við vegaverkstjórn um 15 ár, og ljúka allir upp einum munni, hve vel það starf hafi farið honum úr hendi, enda lýkur vegamálastjóri miklu lofi á fyrirmyndarverkstjórn hans.

Ekki er öll iðja hans þar með talin. Enn hefir hann verið skáld og fræðimaður. Hann hefir gefið út ágrip af náttúrufræði, sem þótti góð kenslubók á sínum tíma. Af skáldritum hafa komið út eftir hann 2 ljóðasöfn, sem mjer er óhætt að segja, að nutu og njóta enn mikilla vinsælda, og 4 sjónleikir, sem sama má segja um. Aldrei hefir hann farið fram á að fá skáldastyrk, þótt Alþingi hafi margan verðlaunað, er síður skyldi. Nú er hann kominn yfir sjötugt og orðinn steinblindur og efnalaus. Það væri hreinasta vanvirða fyrir þjóðina að láta hann nú líða neyð í elli sinni.

Hvers hann er metinn á Akureyri, má sjá af því, að er hann var að hætta kenslu sakir sjóndepru, samþykti bæjarstjórnin að greiða honum 200 kr. mánaðarlega til ársloka þessa árs, en frá þeim tíma var þess vænst, að honum yrði veittur sæmilegur styrkur úr ríkissjóði, Vænti jeg þess, að hann verði ekki skorinn við neglur frekar en bæjarstjórnarstyrkurinn.

Jeg er þakklátur hv. fjvn. fyrir að hafa tekið upp dálitla ellistyrktarfjárveiting til nokkurra aldraðra og farlama ljósmæðra. Það hefir tíðkast á síðustu þingum að bæta þeim að nokkru upp margra ára illa launað en vel unnið starf með lítilsháttar ellistyrk. Þessi ljósmóðir, sem jeg ber fyrir brjósti, Sigurfljóð Einarsdóttir, getur að vísu ekki hrósað sjer af 50 ára ljósmóðurstarfi, en hátt upp í það. Hún hefir gegnt ljósmóðurstörfum í 48 ár, að því er jeg best veit, að meira eða minna leyti, þótt hún hafi ekki verið í opinberri þjónustu allan þennan tíma óslitið. Hjerað hennar hefir verið erfitt útkjálkahjerað, Grýtubakkahreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, og hún hefir verið sótt jafnvel til Grímseyjar, á árabát í illu veðri og ísreki. Það er erfitt ferðalag á vetrardag fyrir konu. Hún er nú orðin 77 ára gömul, svo að jeg býst ekki við, að hún verði lengi þessarar þóknunar aðnjótandi.

Í fjárlögunum eru 4 eða 5 ljósmæður, er hafa þessa upphæð, 500 kr. Með allri virðingu fyrir þeim, þá álít jeg þessa ekki síður hins sama maklega, og þó jafnvel miklu fremur. Jeg vona því, að háttv. deild sjái sjer fært að vera með þessari litlu hækkun um 200 kr.

Áður en jeg sest niður, vil jeg geta þess, að af brtt. hv. fjvn. vakti mesta undrun mína 28. brtt., við 14. gr., þar sem lagt er til, að veittar verði 11000 kr. til þess að koma upp húsmæðradeild við Laugaskóla í Þingeyjarsýslu. Það væri þörf á að tala langt mál og alvarlegt um alt þetta skipulagslausa skólafargan, sem nú gengur eins og farsótt um þetta land, en jeg ætla þó ekki að gera það að sinni.

Er einkennilegt í meira lagi, að slík tillaga sem þessi skuli hafa komið fram, þar sem vitanlegt er, að Alþingi samþykti 1917 lög um húsmæðraskóla á Norðurlandi. Er þar gefið loforð um, að reisa skuli þennan skóla jafnskjótt og efni og annað, sem með þarf til skólans, verður fáanlegt með viðunanlegum kjörum. Meðan dýrtíðin ríkti, var þess vegna ekki farið fram á, að skólinn yrði reistur, en lögin fela í sjer ótvírætt loforð Alþingis, að byrjað skuli á byggingu skólans jafnskjótt og dýrtíðinni ljetti. Nú má segja, að það sje sök norðlenskra kvenna, að ekki hefir verið hafist handa fyr og krafist uppfyllingar á loforðinu. En orsökin til þessa var sú, að þær hafa litið svo á, að of mikils væri krafist, að fara samtímis fram á að fá reist heilsuhæli Norðurlands og húsmæðraskólann. En svo mikil nauðsyn sem er á húsmæðraskóla, þá er þó meiri nauðsyn á að bjarga lífi fólks, sem er í hershöndum dauðans.

En verði nú þessi deild stofnuð á Laugum, er auðsætt, að erfiðara verður að fá loforðið frá 1917 uppfylt, enda engin þörf á þessari húsmæðradeild við Laugaskólann, þegar hinn skólinn er kominn upp.

Þá vil jeg leyfa mjer að benda á það, að þær mætu og merku konur í Þingeyjarsýslu — jeg tek það fram, að tvær þeirra, sem jeg þekki, eru mjög mætar og merkar konur —, sem standa fyrir þessari beiðni um fjárframlag til þessarar húsmæðradeildar, skýra ekki rjett frá fyrirhugaðri stofnun húsmæðraskóla í Eyjafirði. Það er skýrt fram tekið í lögunum, að við skólann skuli reka búskap og þar skuli vera heimavistir fyrir 40–50 námsstúlkur. Með öðrum orðum: skólinn á ekki að vera í kaupstað. Mjer er ekki skiljanlegt, hvernig skólinn ætti að reka búskap á Akureyri, ef hann væri bygður þar. Auk þessa er það skýrt tekið fram í lögunum, að skólann skuli reisa í grend við Akureyri.

Einkennilegt er það líka við þessa skólahugmynd, að þær mætu konur skýra heldur ekki rjett frá kostnaðarhliðinni. Þær gera ráð fyrir 24 þús. kr. tilkostnaði og hugsa sjer að greiða þar af helminginn sjálfar. En húsameistari áætlar 26–28 þús. kr. Og í þeirri áætlun er ekki gert ráð fyrir öðru en allslausum hússkrokknum, en líklega þarf einhvern húsbúnað, og hann kostar líka fje, ekki síður en annað. Hv. fjvn. hefir skilið, að þetta er ekki nema fálm út í loftið og áætlar 11 þús. kr. 2/5 kostnaðar. En jeg geri ráð fyrir, að skólinn verði miklu dýrari en þetta og að lítið eða ekkert sje að byggja á þessari ónákvæmu bráðabirgðaáætlun, er hjer liggur fyrir. Og það eykur ekki trú mína á þessa áætlun, að þessi stofnun á að standa í sambandi við Laugaskólann, sem fyrir löngu er orðinn alræmdur fyrir það, hvernig fjármálum hans hefir verið stjórnað. Jeg ætla ekki að fara út í fjárhagsástæður hans nú. En benda má á, að skólinn er í botnlausum skuldum og veðsettur fyrir 25 þús. kr. Veittar voru 5 þús. kr. til byggingar sundlaugar þar að Laugum, en þegar til kom, kostaði hún 12 þús. kr.

Þykir mjer í meira lagi einkennilegt, ef Alþingi fer að samþykkja að byggja þennan skóla, án þess að sýna lit á að efna 10 ára gamalt loforð um að reisa slíkan skóla í Eyjafirði strax og efni leyfðu. Verður fróðlegt að vita, hvernig hv. 2. þm. Eyf. (BSt) greiðir atkvæði um þessa fjárveiting.

Þá vil jeg leyfa mjer að benda á það, að mál þetta er algerlega óundirbúið og í lausu lofti hvað fjárhagshliðina snertir. T. d. liggur ekkert fyrir um fjársöfnun til þessa. Þær mætu þingeysku konur hugsa sjer að greiða helming kostnaðar. En hvernig? þess geta þær ekki. Hinsvegar liggja fyrir upplýsingar um það, að svo var ætlast til í upphafi, að við Laugaskólann yrði húsmæðradeild, og er það atriði tekið upp í fyrstu reglugerð skólans. Það er því vitanlegt, að konur í Þingeyjarsýslu hafa þegar lagt fram fje til Laugaskólans með það fyrir augum, að húsmæðradeild starfaði þar jafnframt. Um þetta lágu fyrir ákveðin loforð, sem ekki hafa verið efnd af hálfu þeirra manna, er sölsað hafa undir sig öll völd yfir skólanum. Má vera, að aðsókn að sjálfum alþýðuskólanum hafi valdið því, að af því varð ekki, svo sem til var ætlast. Það er rjett, að aðsókn þangað er mikil. En hitt mun orka tvímælis, hver þjóðarheill stafi af þeirri aðsókn.

Jeg vil biðja þá hv. herra, sem altaf þykjast vera að berjast fyrir aukinni fræðslu og fleiri skólum, að athuga það vel, hvort það muni altaf vera full sönnun fyrir ágæti hvers skóla, að mikil sje aðsókn að honum. Jeg tel það ekki sjerlega eftirsóknarvert, að mæðurnar og feðurnir sjeu alein og hjálparlaus heima við bústörf og gegningar, meðan börn þeirra þyrpast saman í stofnanir, sem skólar eru kallaðir, en stjórnað er á þann hátt og í þeim anda, að betra væri, að unglingarnir hefðu aldrei þangað komið. Ef svo hraklega tekst til, að þetta verði samþ., verð jeg að skora á hæstv. stjórn að sjá um, að það fje, sem leggja á fram gegn ríkissjóðsstyrknum, sje í raun og veru fyrir hendi og lagt til, án þess að þess verði aftur krafist eða sje aðeins lán, sem krafist verði veðtryggingar fyrir í stofnuninni sjálfri, eins og farið hefir með Laugaskólann. Laugaskólinn er nú í botnlausum skuldum, búinn að veðsetja alt, og verð jeg að krefjast þess, ef til kemur, að sjeð verði um, að fjárreiður þessa skóla komi ekki í neitt samband við fjárhag þessarar fyrirhuguðu húsmæðradeildar.

Jeg sje, að hv. þm. S.-Þ. (IngB) hefir kvatt sjer hljóðs og jeg hlakka til að svara honum. En jeg býst naumast við að gera það fyr en við 3. umr., þegar jeg hefi aflað mjer nægra upplýsinga.