02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vildi aðeins gera athugasemd við till. um listamannastyrkinn. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er ákveðið, að styrkur til skálda og listamanna megi ekki vera minni en 1000 kr. til hvers. Styrkinn geta því ekki fengið nema 8 menn. Nú hafa 38 menn sótt um þennan styrk, og eins og að líkindum lætur, er talsvert erfitt að gera upp á milli þessara manna. Jeg fór þess því á leit við hv. fjvn., að hún gerði þá brtt., að styrkurinn mætti vera minst 500 kr. Um leið og jeg óska, að þessi brtt. verði samþykt, skal jeg taka það fram, að jeg vil líta svo á, að eftir samþykt hennar sje mjer einnig heimilt að láta þetta ákvæði ná til styrkveitingarnar fyrir þetta ár.

Það er svo um þessa umsækjendur, að þeir eru bláfátækir og mjög erfitt fyrir stjórnina að gera upp á milli þeirra. En vegna fátæktarinnar munar þá mikið um 500 kr., og jeg álít því rjettara að skifta nokkru af fjenu í 500 kr. hluti. Ef ekki koma fram andmæli gegn þeirri ráðstöfun, skoða jeg það svo, sem hv. deild sje mjer sammála um, að ekki sje rjett að binda upphæðirnar við 1000 kr., ekki heldur á yfirstandandi ári. Jeg minnist þess, að í fyrra kom fram brtt. um að hafa lágmarkið 600 kr., en hún var feld með litlum atkvæðamun. Einmitt vegna þess, að sú tillaga kom fram, vona jeg, að þessi tillaga verði samþykt.