02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg sje enga ástæðu til að fara að gera neinar einstakar brtt. við þennan kafla fjárlaganna að umtalsefni út af fyrir sig, en jeg skal geta þess að því er snertir hækkunartillögur hv. nefndar, að mjer virðast ýmsar þeirra vera þess eðlis, að þær mættu niður falla nú, þar sem fjárhagslegar horfur ríkissjóðs leyfa ekki aukin framlög til málefna, þó að nauðsynleg sjeu, sem að skaðlausu geta beðið betri tíma. Jeg þykist ekki þurfa að benda hv. dm. á, hvaða tillögur þetta sjeu. Það segir til sín sjálft, sem er þess eðlis, að ekki er sjerstök ástæða til þess að sinna því nú, en síðar, þegar betur stendur á.

Um brtt. hv. þm. yfirleitt vil jeg geta þess, að þær hækkunartillögur, sem nema verulegri upphæð, eru þess eðlis, að rjettara er að láta þær bíða betri tíma.

Af þessum greinum fjárlaganna er þó ein grein, sem heyrir undir mig, sem sje 18. gr. Um hækkunartillögur á þeirri grein frá einstökum þm. skal jeg taka það fram, að mjer finst þurfa að gæta vel að því að ætla ekki einstökum mönnum, þótt mætir sjeu, hærri upphæðir en venja er að ætla öðrum, sem eftirlaun hafa samkvæmt þeirri grein. Slíkt ósamræmi hlýtur að leiða til þess, að eftir á verður farið að líta á lægri upphæðirnar, sem fyr voru settar inn, og því hætt við breytingum. Annars er ekki sjáanlegt, að það hafi borið neinn fjárhagslegan árangur fyrir ríkissjóð, að eftirlaun voru afnumin með lögum fyrir nokkrum árum. Síðan hefir þingið farið þess lengra í að veita eftirlaun ýmsu fólki, sem ekki hefir þau samkvæmt lögum. Þetta nemur þegar töluverðri upphæð og rík tilhneiging virðist vera til þess að bæta við þá upphæð. Því er það svo, að þó að eftirlaun embættismanna minki, fara ekki eftirlaunin í 18. gr. fjárlaganna neitt lækkandi.

Mjer er skylt að benda á það fyrir atkvgr., að það virðist nú þegar vera komið of langt á þessari braut. Jeg tel þess vegna, að þær brtt., sem fram eru komnar til hækkunar á 18. gr., eigi ekki rjett á sjer. Meira að segja hefir hv. fjvn. farið lengra í þessum tillögum sínum en rjett er, og eru. tillögur hennar ekki einu sinni í samræmi við venju á síðustu þingum. Það hefir verið svo, að hjá þeim embættismönnum, sem rjett eiga samkvæmt lögum til eftirlauna, hefir það verið siður, að þingið bætti einhverju við, þegar um mjög lítil efni er að ræða, þannig að fátækir embættismenn eru taldir þurfa meira en það, sem þeim er áætlað lögum samkvæmt. En í þetta sinn hefir verið stungið upp viðbót til vel efnaðra manna, sem eru alveg nýfarnir úr embætti.