02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að verja tillögur nefndarinnar. Af hálfu hinna mörgu, sem talað hafa, hafa ekki fallið nema fá orð í hennar garð. Jafnframt því sem gerðar hafa verið örfáar aths., hafa nefndinni borist góð orð frá hv. þm. í þeirra ræðum, hvernig sem atkvgr. kann að fara.

Jeg ætla fyrst að víkja að einstökum atriðum, sem komið hafa fram út af tillögum nefndarinnar. Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði síðast og ljet þannig orð falla, að að minsta kosti sumar brtt. nefndarinnar hefðu mátt bíða betri tíma. Þetta er vitanlega sá sami mælikvarði, sem nefndin lagði á hinar afarmörgu beiðnir, sem henni bárust. Hvað má bíða til næsta árs eða næstu ára og hverju á að sinna nú? Ef hæstv. ráðherra (JÞ) athugar, hvað óhemjumikið lá fyrir nefndinni af umsóknum, þá veit jeg, að hann játar, að í gegnum það sigti, sem við höfðum, hafi lítið smogið. Hver og einn getur svo dæmt um það, hvernig nefndinni hafi tekist að rata meðalhófið. Tillögur nefndarinnar nú og sá samanburður, sem jeg gerði á hækkunartillögum nú og í fyrra og hitteðfyrra, sýna, að sigtið var þrengra nú en nokkru sinni áður.

Um það, sem hæstv. ráðh. vjek sjerstaklega að hækkunartill. á 18. gr., hygg jeg, að mjer sje óhætt fyrir hönd nefndarinnar að segja, að nefndin er sammála hæstv. ráðh. um, að þar ríður á samræmi innbyrðis. Fjvn. hefir reynt að uppfylla það skilyrði, enda hefir hæstv. ráðh. ekki nefnt einstök atriði, sem sanna, að svo sje ekki.

Þá þarf jeg að svara hv. þm. Mýr. (PÞ) nokkrum orðum. Hann beindi að vísu máli sínu aðallega til hæstv. forsrh. (JÞ), en ummæli hans voru þess eðlis, að nefndin verður að taka þau til sín. Það er ekki rjett, að fjárveiting til Vestmannaeyjavegarins ætti að vera í 13. gr., heldur á hún að vera í 16. gr., þar sem ekki er um samgöngubót að ræða. Það er ekki stjórnin, heldur fjvn. Nd., sem hefir borið þetta fyrst fram. Háttv. þm. (PÞ) gleymist, að þessi vegur er fyrst og fremst ræktunarvegur, og ber því að líta á hann sem jarðabót, en ekki samgöngubót.

Einni harðri árás hefir fjvn. orðið fyrir frá hv. þm. Ak. (BL). Hann veittist að nefndinni fyrir till. hennar um fjárveitingu til Laugaskólans. Hv. þm. hefir áður, að jeg ætla tvisvar sinnum, vikið að þeim skóla. Nú vóg hann í þriðja sinn í þann knjerunn, sennilega með viðlíka miklum árangri og áður. Annars þarf jeg ekki mikið um þetta að segja, því að hv. þm. S.-Þ. (IngB) hefir svarað því að efninu til.

Hv. þm. Ak. talaði um „skólafarganið“. Það eru misjafnar skoðanir á því efni. Fjvn. lítur ekki á húsmæðraskólana sem „fargan“, heldur sem eitt hið nauðsynlegasta, sem stofnað er til úti um landið. Háttv. þm. (BL) benti á, að hann sem þm. Akureyrarkaupstaðar mætti taka þessa till. illa upp, því að lög væru til um húsmæðraskóla í Eyjafirði, og hjer sagði hann, að væri verið að hlaupa í kapp við þann skóla. Kvenfólk í Þingeyjarsýslu hefir sýnt mikinn áhuga og fórnfýsi og safnað fje fyrst til Laugaskólans sjálfs og nú til þessa húsmæðraskóla. Fjvn. telur rjett, að svo framarlega sem þær hafa safnað nægilegu fje, eigi ríkissjóður að koma á móti, enda ætti hv. þm. að bera það traust til hæstv. landsstjórnar, að hún fari ekki að veita fje úr ríkissjóði fyr en trygging sje fengin fyrir því, að fje komi á móti.

Hv. þm. sagði, að þetta mál væri óundirbúið. Það er ekki rjett. Konurnar hafa útvegað áætlun og hafið fjársöfnun. En fje verður ekki veitt úr ríkissjóði, fyr en málið er fullundirbúið.

Þó er það einna spaugilegast, þegar hv. þm. er að finna að Laugaskólanum. Hann er sárastur yfir því, hvað aðsókn að skólanum sje mikil og að varla sje hægt að hemja ungt fólk heima. Þetta er einmitt ljós vottur þess, hvað skólinn er góður.

Þá held jeg, að jeg eigi ekki eftir að svara nema einum hv. þm„ hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann andmælti því, að styrkurinn til Markúsar Kristjánssonar væri feldur niður og upplýsti, að sjerstaklega stæði á með þennan mann; hann stundaði hljómlistarnám við háskóla og væri útskrifaður frá Kaupmannahöfn. Taldi hv. þm. styrk hans vera bindandi fyrir 4 ár. Þessi skjöl lágu ekki fyrir fjvn. og hún hefir ekki getað haldið fund síðan þessar upplýsingar komu fram. Jeg hefi því ekkert umboð frá nefndinni til þess að taka till. aftur, enda býst jeg ekki við, að nefndin viðurkenni, að styrkurinn sje bindandi fyrir 4 ár. Jeg vil spyrja þá hv. dm., sem flytja slíkar tillögur nú, hvort þær eigi að skilja svo, að ef þær verði samþ. nú, sje styrkurinn bindandi fyrir svo og svo mörg ár.

Þá mun jeg hverfa að því að gera grein fyrir afstöðu fjvn. til þeirra tillagna, sem einstakir þm. hafa borið fram. Jeg vil taka það fram, að langflestar þeirra hafa legið fyrir nefndinni og hún hefir athugað þær. Það má engum koma á óvart, þó að nefndin leggi á móti þeim.

Tveir hv. þm. bera fram fyrstu till. Hún er gamall kunningi, sem fjvn. bar fram í fyrra, um styrk handa prestvígðum mönnum til þess að ferðast um landið og halda fyrirlestra og ræður. Í fyrra náði hún samþykki í hv. Ed., en ekki hjer. Nú hefir orðið að samkomulagi í nefndinni, að hún vill sjá til, hvernig þetta reynist, en hún vill ekki, að það verði fastur liður.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) flytur till. þess efnis, að ef Suðurlandsskólinn verði stofnaður, þá megi greiða sjera Kjartani Helgasyni í Hruna prestslaun og dýrtíðaruppbót, ef hann taki við stjórn skólans og láti af prestsskap. Þetta stendur í núgildandi fjárlögum. Í fyrra var gert ráð fyrir, að skólinn yrði stofnaður og sjera Kjartan yrði skólastjóri. Nú horfir málið öðruvísi við, þar sem skólinn tekur ekki til starfa eins fljótt og haldið var. Hinsvegar hefir þingið lýst því yfir, hvernig það líti á þetta mál, og því var óþarfi að bera þessa till. fram nú.

Næst er till. frá hv. þm. Barð. (HK) um hækkun styrks til húsabóta á prestssetrum. Mjer skildist hann hafa tekið þá till. aftur, í von um, að fjvn. athugaði málið, og það mun hún að sjálfsögðu gera, ef hún fær þau skjöl, sem um það fjalla, en um þetta mál hefir ekkert legið fyrir nefndinni.

Hv. mentmn. ber fram tvær till. undir XIII. lið. Hv. þm. Dal. (JG) hefir mælt með þeim. Fyrsti liðurinn er um að veita 2000 kr. til grískukenslu við háskóla Íslands. Hv. þm. Dal. gat þess, að þessi tillaga kæmi fram af því, að leggja ætti niður kennaraembættið í grísku. En það hefir ekki verið afgreitt í gegnum þingið enn, svo að ástæðulaust er að setja slíkt ákvæði, meðan ósjeð er um, hvort embættið verður lagt niður. Jeg vil geta þess, að þó að embættið verði lagt niður, þá álítur fjvn. þessa upphæð of háa. Jeg vil því beina því til hv. mentmn., hvort hún vilji ekki láta þessa tillögu bíða.

Seinni till. mentmn. er um það, að 2000 kr. verði veittar til heimsókna erlendra vísindamanna til þess að halda fyrirlestra við háskólann hjer. Þetta hefir legið fyrir fjvn., en með hliðsjón af því, hvað nefndin hefir á öllum sviðum orðið að draga saman seglin, treystir hún sjer ekki til að styðja þetta.

Næst koma námsstyrkir til stúdenta. Fyrstu till. undir XIV.–XV. tölulið eru frá hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. Dal. (JG), um styrk til þriggja ungra manna, og fleiri slíkar tillögur koma síðar. Jeg gat þess áðan, að fjvn. treysti sjer ekki til þess að mæla með þessum styrkjum. Miklu fleiri umsóknir en þetta lágu fyrir fjvn. Annars væri æskilegt, að háttv. þm. ljetu í ljós, hvort þeir álíta slíka styrki bindandi til margra ára, ef þeir verða samþ.

Hv. þm. Dal. (JG) og hv. þm. N.- Ísf. (JAJ) bera fram tillögu um að hækka framlag til Staðarfellsskólans. Fjvn. hefir borið fram tillögu um að hlynna að húsmæðrafræðslu í landinu, og í samræmi við það mun hún ekki mæla á móti þessu, en nefndarmenn hafa óbundin atkvæði.

Hv. þm. Ak. hefir tekið aftur till. sína undir XVIII. lið.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) ber fram tillögu um, að á undan aths. við 14. gr. B. XIV, 2. komi ný málsgr., svo hljóðandi: „Þar af til unglingaskólans á Ísafirði 7500 krónur“. Nefndin vill láta í ljós, að hún telur Ísafjarðarskólann hafa orðið hart úti, og mun því líta í velvild til hans. Hitt getur hún ekki fallist á, að með athugasemdum í fjárlögum sje farið að ráðstafa til einstakra skóla allmiklum fjárhæðum; um það gæti orðið reipdráttur milli skólanna. Nefndin vill því láta fræðslumálastjóra hafa með höndum úthlutun styrksins. Jeg vil svo fyrir hönd nefndarinnar beina því til hv. þm. Ísaf., hvort hann vilji ekki falla frá till. með skírskotun til þess, sem jeg hefi nú tekið fram.

Þá hefir hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) borið fram till. um að veita frú Sigrúnu Pálsdóttur Blöndal 1500 kr. til húsmæðrafræðslu í Mjóanesi, og hefir jafnframt borið fram tillögu um að fella niður af 16. gr. styrk til þesskonar fræðslu. Þetta er því nokkurskonar tilfærsla, og geri jeg því ráð fyrir, að meiri hluti nefndarinnar geti fylgt till. hans.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) vill fá styrkinn til sundlauga hækkaðan, sjerstaklega með tilliti til sundlaugar í Svarfaðardal. Nefndinni er alls ekki kunnugt um, að skortur sje á fje á þessum lið; að minsta kosti hefir hæstv. atvrh. ekki upplýst það, og yfirleitt hefir hún ekki fengið upplýsingar um, að nauðsyn sje á að hækka liðinn. Getur hún því ekki fallist á þessa till.

Þá bera þeir hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) fram till. um að veita Ríkarði Jónssyni 3 þús. kr. ferðastyrk til að kynnast þjóðlegri húsgagnalist í Noregi og Svíþjóð. Hafa flm. mælt mjög skörulega með till. þessari og vitnað í kröfur listarinnar um nauðsyn þessarar fjárveitingar. Það væri að vísu æskilegt að geta veitt fje í þessu skyni. En jeg á að skila frá nefndinni, að með tilliti til þess, að hún vill spara á öllum sviðum, getur hún ekki mælt með till. þessari.

Hv. þm. V.-Ísf. mælti með styrk handa Þorsteini M. Jónssyni, til bókaútgáfu, og sagði, að með slíkri bókaútgáfu væri verið að stofna til nokkurskonar háskóla fyrir alþýðu. En nefndin gat eigi að síður ekki fallist á till. þessa.

Þá óskar hv. þm. Ísaf. að fá styrk handa Leikfjelagi Ísafjarðar og vitnar sjerstaklega í það, að fordæmi hafi verið gefið með samskonar styrkveitingu til Leikfjelags Akureyrar. Þessu er því til að svara, að fjvn. var aldrei með styrknum til Akureyrarfjelagsins, og getur því ekki frekar verið með að þessi styrkur sje veittur.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) leggur til, að styrkurinn til Hljómsveitar Reykjavíkur verði hækkaður um 700 kr., og benti jafnframt á, að stjórnin hefði lækkað styrk þennan frá því í fyrra. Hann taldi, að hljómsveitin þyrfti meiri styrk en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., sökum minkandi aðsóknar o. fl. En svo mun um fleiri listamenn hjer á landi, að þeir þurfi meira fje en þeir fá, því að flestir þeirra eiga við þröng kjör að búa. Nefndin sjer ekki, að nein sjerstök ástæða sje til að hækka styrkinn til þessara listamanna frekar en annara og getur því ekki mælt með, að brtt. nái fram að ganga.

Þá koma þrjár brtt. um að styrkja menn til söngnáms og málaranáms.

Hv. 1. þm. S.-M. leggur til, að Þórarni Jónssyni verði veittar 1200 kr. til söngnáms, og hv. þm. Mýr. (PÞ) leggur til, að Guðmundi Kristjánssyni verði veittar 1500 kr. til sönglistarnáms og Ásgeiri Bjarnþórssyni 800 kr. til málaranáms. Þetta eru 3 menn af mörgum, sem sótt hafa til fjvn. um sjerstakan styrk í fjárlögum, en nefndin getur ekki tekið þessa menn út úr þeim mikla hóp, sem sótt hefir, og leggur því til, að brtt. þessar verði ekki samþyktar.

Þá ber hv. 1. þm. Reykv. fram beiðni um utanfararstyrk til fjögurra manna: 2500 kr. til Freymóðs Jóhannssonar til þess að fullnuma sig í leiktjaldamálun, 2500 kr. til Friðfinns Guðjónssonar leikara, 1800 kr. til Hallgríms Bachmanns Jónssonar, til að kynna sjer ljósaútbúnað og ljósbreytingakerfi í leikhúsum erlendis, og loks 2000 kr. til Einars Markans söngmanns. Þessar styrkbeiðnir eru flestar vegna leiklistarinnar, en eigi að síður getur nefndin ekki mælt með þeim. Þó stendur sjerstaklega á um einn manninn, Friðfinn Guðjónsson, að hann er öllum bæjarbúum o. fl. að góðu kunnur fyrir leiklist sína og hefir mörgum skemt. Jeg held því, að sumir nefndarmanna myndu geta verið með styrk til hans, ef um minni upphæð væri að ræða.

Þá vil jeg frá eigin brjósti nota tækifærið og bera fram fyrirspurn til hv. 1. þm. Reykv., hvort hann líti ekki svo á, að þegar menn eru styrktir til utanferða til leiklistarnáms, þá eigi að mega ætlast til, að þeir starfi hjá leikfjelagi að náminu loknu.

Þá eru tvær styrkbeiðnir til þess að ljúka námi í norrænum fræðum. Hv. 2. þm. Árn. sækir um 2500 kr. handa Sigurði Skúlasyni stud. mag. til framhaldsnáms í íslenskum fræðum erlendis, og hv. 1. þm. Reykv. um 2500 kr. til handa Einari Ó. Sveinssyni til að ljúka námi í norrænum fræðum við Hafnarháskóla. Það er hið sama um þessa námsstyrki eins og aðra, nefndin getur ekki lagt með þeim.

Háttv. 1. þm. S.-M. leggur til, að veittar verði 6000 kr. til húsabóta á Hallormsstað. Erindi um þetta lá fyrir nefndinni, og voru þar færðar fram þær ástæður, að þetta væri nauðsynlegt vegna gestakomu á þennan stað. Þetta má vel vera rjett að mörgu leyti, en nefndin lítur svo á, að slíkar húsabætur gætu ekki orðið til frambúðar, þar sein fyrir hv. Ed. liggur frv. um stofnun húsmæðraskóla á þessum stað, og mikill áhugi er vaknaður fyrir því máli á Austurlandi. Jeg vil því beina því til hv. 1. þm. S.-M., hvort hann vilji ekki taka till. aftur við þessa umr., og tala svo frekar við nefndina, ef verða mætti til þess að færa till. til betra samræmis við óskir manna þar eystra.

Þá ber hv. þm. Dal. fram till. um 700 kr. styrk til Eggerts Magnússonar til dýralækninga. Nefndinni þykja ekki nægileg rök færð fyrir þessari fjárbeiðni og getur hún því ekki mælt með henni. Sama er að segja um styrkinn til Kvenrjettindafjelags Íslands. Enn gildir það sama um styrk til að gera sölutilraun á söltuðum og reyktum rauðmaga. Nefndinni er ekki kunnugt um, að svo mikil framleiðsla sje af þessari vörutegund, að ekki sje nægilegur markaður fyrir hana hjer í Reykjavík.

Hv. þm. Mýr. ber fram tillögu um, að Jóni Helgasyni í Borgarnesi verði veittar 8 þús. kr. til þess að gera vindknúinn þrýstiloftsumbúnað til raforkuframleiðslu. Hv. þm. bar þessa till. fram í fyrra, og treysti nefndin sjer ekki þá til þess að mæla með henni, og getur það ekki frekar nú.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) ber fram till. um, að Byggingarfjelagi Reykjavíkur verði veittur 5000 kr. styrkur. Telur hann þetta vera endurveitingu, sem nota eigi til þess að borga skuldir fjelagsins með, svo húsaleiga lækki. Hann kemur með aðrar upplýsingar hjer í deildinni um málið en lágu fyrir nefndinni. Gæti því komið til mála að láta till. þessa bíða til 3. umr., án þess að jeg með því sje að gefa vilyrði fyrir meðmælum með henni frá nefndinni.

Hv. þm. Barð. (HK) ber fram till. um eftirgjöf á 20 þús. kr. viðlagasjóðsláni til Patrekshrepps. Fyrir nefndinni lágu ekki glöggar upplýsingar um þetta mál; gat hún því ekki sannfærst um, að hjer væri um rjettmæta kröfu að ræða, og treysti sjer því ekki til að mæla með till. En vel má vera, að hv. flm. till. hafi með sinni snjöllu ræðu hrært til meðaumkunar eitthvað af hv. deildarmönnum og komi henni því í gegn.

Um brtt. hv. 4. þm. Reykv. um 3500 kr. styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík eru óbundin atkvæði nefndarmanna.

Þá bera þrír hv. þm. Reykjavíkur fram tillögu um, að sjúkrasamlagi Reykjavíkur verði veittur 3000 króna styrkur til að vinna að því að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga í landinu og stofna ný sjúkrasamlög. Hafa tveir flm. mælt allvel fyrir till. þessari, en eigi að síður getur nefndin ekki mælt með henni; hún lítur svo á, að upphæðin sje of há. Væri ekki ómögulegt, að sumir nefndarmenn gætu fylgt lægri upphæð í þessu skyni.

Þá er komið að brtt. við 18. gr. Jeg get tekið undir það með hæstv. fjrh., að samræmi þurfi að vera í þeim till., og skal jafnframt geta þess, að fjvn. heldur fast við sínar till., og getur því ekki mælt með þessum brtt. Á það við till. um Pál Árdal, læknisekkjuna og sjera Björn Þorláksson. Sömuleiðis á það við till. um póstinn, yfirsetukonuna og ekkju Magnúsar Vigfússonar dyravarðar. Vil jeg svo minna á, að till. fjvn. eru gerðar í fullu samræmi við hliðstæða styrki í 18. grein.

Þá eru eftir till. við 22. gr. Hv. þm. Mýr. ber fram 20 þús. kr. lánbeiðni til endurbyggingar raforkustöðvar í Borgarnesi. Stöð þessi er mótorstöð, og hefir reynslan orðið sú, að þær stöðvar hafa gefist illa. Erum við sjerstaklega mintir á það með till. hv. þm. Barð., og virðist nefndinni, að fje viðlagasjóðs sje betur komið í eitthvað annað.

Þá bera tveir hv. þm. fram till. um viðlagasjóðslán handa Jóni Stefánssyni málara. Það mun ekki hafa verið gert áður að veita lán úr viðlagasjóði til þess að koma upp vinnustofum; getur meiri hl. nefndarinnar því ekki fallist á þessa tillögu.

Síðasta till. er um að veita Böðvari Magnússyni á Laugavatni alt að 20 þús. kr. lán til þess að byggja bæjarhús á jörðinni. Hv. flm. till., 3. þm. Reykv. og 2. þm. Árn., mæltu með henni. Hv. 3. þm. Reykv. taldi byggingu á þessum stað einn liðinn í undirbúningnum fyrir 1930; þyrfti að byggja þar, svo hægt væri að taka á móti gestum. En það lágu fleiri beiðnir fyrir nefndinni, sem fóru í þessa átt, en þessi, og getur nefndin því ekki veitt henni stuðning.