02.04.1927
Neðri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

21. mál, fjárlög 1928

Bernharð Stefánsson:

Jeg hafði nú ekki ætlað mjer að taka aftur til máls enda er það ekki sanngjarnt, að jeg sje að tefja hjer umr., vegna þess að jeg hefi stutt að því, að umr. og atkvgr. geti orðið lokið í kvöld, en það voru ummæli hv. þm. Ak. (BL) í fyrri ræðu hans áðan, sem komu mjer til að standa upp, en jeg skal ekki tala langt mál.

Hv. þm. ljet í ljós sjerstaka forvitni um það, hvernig jeg myndi greiða atkvæði um 28. brtt. nefndarinnar á þskj. 233, sem fer fram á byggingarstyrk til húsmæðradeildar við Laugaskólann. Það er þó ekki svo, að jeg ætli beinlínis að svala þessari forvitni hv. þm.; það er svo skamt eftir til atkvæðagreiðslunnar, að það getur beðið þangað til, að hv. þm. getur sjeð það eða heyrt. (BL: Jeg er ánægður, ef það verður nafnakall). Enda sagði jeg það í gær, þegar jeg gerði grein fyrir einni lítilli brtt., sem jeg á við þennan kafla fjárlaganna, að jeg myndi sýna það með atkvæðagreiðslu minni, hvernig jeg liti á einstakar tillögur, og við þetta ætla jeg að láta sitja. En mjer þykir þó rjett að taka það fram, út af orðum hv. þm. (BL), að jeg tel hann hafa gert of mikið úr því, hvað þessi húsmæðradeild, sem fyrirhuguð er þarna á Laugum, myndi verða skæður keppinautur þessum fyrirhugaða húsmæðraskóla á Norðurlandi, í grend við Akureyri.

Það er ekki ætlast til, að þetta verði nema deild við Laugaskólann, og jeg tel, að þrátt fyrir það, þótt hún kæmist á, myndi sá skóli, sem fyrirhugaður er í grend við Akureyri, eiga fullan tilverurjett, og að þessi deild við Laugaskóla myndi ekki tefja stofnun hans. Jeg hefi ekki orðið var við, að nein sjerstök hreyfing væri á því máli, að koma upp fyrirhuguðum skóla í grend við Akureyri, en ef hv. þm. hefir svo mikinn áhuga á því máli eins og ræða hans í dag virðist bera vott um, þá virðist mjer það vera rjettara fyrir hv. þm. að berjast fyrir þeirri stofnun og framkvæmd laganna frá 1917, heldur en að láta þennan áhuga sinn koma fram í því að amast við deildinni við Laugaskólann. Jeg vík að þessu, af því að jeg gat ekki betur heyrt en að hv. þm. teldi það skyldu þingmanna Eyfirðinga að leggjast á móti þessum styrk, því að hv. þm. getur annars ekki verið að heita á mig til fylgis við þessa stefnu sína. En ef það er svo, að hv. þm. hafi meint þetta, þá verð jeg algerlega að mótmæla því, að það geti sjerstaklega verið skylda þingmanna Eyfirðinga að leggjast á móti þessari styrkveitingu, því að jeg get ekki sjeð, að þetta geti skaðað Eyfirðinga, heldur jafnvel þvert á móti; því að á meðan ekki er um þennan skóla að ræða í Eyjafirði, þá álít jeg þó betra fyrir eyfirskar stúlkur að geta fengið tilsögn í þessum fræðum austur á Laugum heldur en hvergi. Jeg vil því taka það fram, að afstaða mín til þessa máls byggist alls ekki á því, að jeg er þingmaður Eyfirðinga, heldur á hinu, hvort jeg tel það gott mál eða ekki, og mun jeg alls ekki láta neina hreppapólitík ráða í því efni. Svo sje jeg heldur ekki betur en að í frv. og brtt. við það sje farið fram á styrki til húsmæðrafræðslu á ýmsum stöðum, þar sem mjer sýnist vera um eins mikið að ræða, þegar farið er fram á rekstrarstyrki, og er þar þó aðeins um smádeildir að ræða, en hjer er aðeins farið fram á 11000 króna stofnkostnað, og úr því að ekki er farið fram á meira, er ekki hægt að sjá, að þessi deild muni verða svo stór, að hún geti orðið eyfirska skólanum hættuleg.

Jeg skal ekkert fara út í hugleiðingar hv. þm. um skólana yfirleitt, þar sem hann var að tala um, að sjer virtist það vera orðið einskonar þjóðarböl þetta skólafargan, og að einstök hjeruð rykju upp með að stofna þessa skóla án þess að það lægi fyrir bein ákvörðun um, hvernig ætti að skipa þessum málum í heild. Jeg lít nú svipað á þetta, en finst aðeins, að þessi skoðun komi dálítið í bág við gerðir hv. þm. og flokks hans, þar sem þeir studdu það „fargan“, sem er svo margfalt stórkostlegra heldur en nokkurt annað fargan, sem farið hefir verið fram á í skólamálum. (BL: Við hvað á hv. þm.?). Jeg á þar við samskóla Reykjavíkur.