04.04.1927
Neðri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Jeg geri ráð fyrir því, að fleirum en mjer hafi þótt hv. frsm. fjvn. (TrÞ) leggja nokkuð fast á móti ýmsum till. á þskj. 284. Jeg skil að vísu, að fjvn. á talsvert erfitt með að gera upp á milli hinna mörgu fjárbóna, er fyrir liggja, og þó sjálfsagt misjafnlega erfitt. — Eftir atvikum get jeg unað undirtektum háttv. frsm., að því er kemur til 21. brtt. á atkvæðaskránni, þar sem farið er fram á 1500 kr. fjárveiting til húsmæðrafræðslu í Mjóanesi. Jeg hafði líka gert mjer von um góðar undirtektir um þetta, þar sem nefndin hefir verið tiltölulega örlát um fjárframlög til samkynja starfsemi annarsstaðar. Jeg skal því ekki fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að svona sanngjarnleg ósk verði viðurkend.

Að því er snertir 27. liðinn á skránni, sem er ósk um 1200 kr. til Þórarins Jónssonar tónlistarnema, þá skildist mjer á hv. frsm., að hann synjaði fullkomlega fyrir hönd nefndarinnar um fylgi við hann. Þó er jeg ekki viss um að hafa skilið það rjett. Yfirleitt lagði hv. frsm. á móti þeim styrkjum, sem lúta að námi og auknum frama námsmanna þeirra, er hjer hafa verið bornir fram á bænarörmum einstakra þm. En jeg vil segja um þennan mann, að hann á sjálfsagt fult eins mikinn rjett á áheyrn og hver annar, sem um styrk sækir í þessu skyni. Þetta er bláfátækur alþýðumaður, sem staðið hefir upp af þóftunni í fiskibát til þess að leggja út á þessa erfiðu braut og er nú eftir 3 ára baráttu fjelaus svo langt kominn, að hann er langþektastur utan landssteina Íslands þeirra manna íslenskra, sem tónlistarnám, stunda. Það væri reyndar aðeins lítil viðurkenning á dugnaði og hæfileikum umkomulausa og fátæka drengsins, að þessi upphæð yrði veitt. Auðvitað er þetta ekki nema lítið brot af því, sem þörf hans krefur, en óviðjafnanleg uppörvun væri það þó. Jeg hlýt að eiga það undir hv. þdm., hvort þeir vilja nú í annað sinn, er leitað er á náðir þingsins, sýna hjer lítilsháttar viðurkenningu. Það hefir af ýmsum verið á það minst, að Þórarinn Jónsson væri manna líklegastur til þess að undirbúa eitthvað, sem þjóð vorri mætti til sæmdar verða á sviði tónlistarinnar á þúsund ára hátíðinni, sem í hönd fer. Sumir hafa um þetta í spaugi talað, en það er mín trú, að hann muni líklegri flestum eða öllum öðrum til þess, ef honum endist aldur.

Þá skal jeg koma að 31. brtt. á sama þskj. Er þar farið fram á 6000 kr. fjárveitingu til húsabóta á Hallormsstað. Háttv. frsm. mæltist til þess, að jeg tæki till. aftur til 3. umr. svo að nefndin gæti athugað hana nánar. Sje jeg ekkert á móti því, sjerstaklega vegna þess að mjer finst endilega, að nefndin hljóti að hallast að stuðningi við till., er hún hefir kynt sjer málið betur. Það er ekki rjett hjá hv. frsm., að bygging þessi verði ekki til frambúðar. Húsið á að vera steinsteypt og eftir teikningu byggingarráðunauts Jóhanns Kristjánssonar, bygt í öðru formi en gamla timburhúsið, með það fyrir augum, að þegar gamla timburhúsið fellur, þá verði hægt að lengja eða bæta við steinsteypta húsið, sem nú er ætlað að komi fyrir baðstofuna fornu og nægt geti um mörg ár með timburhúsinu gamla. Þá er það heldur ekki rjett, að þessi bygging á Hallormsstað sje ætluð sjerstaklega til móttöku gesta. Þar skortir einmitt íbúð, og því verður að nota þar ævagamla baðstofu og ljelega, eitthvað um 70 ára, — af því að engin önnur íbúð er til. En þessi baðstofa er löngu orðin óforsvaranleg til íbúðar. Það hefir verið beðið eftir lækkuðu verði byggingarefnis til þess að koma upp þessari viðbótarbyggingu fyrir sem minst fje.

Til bygginga á Hallormsstað hefir nauðalítið verið áður lagt. Þær 7500 kr., sem veittar voru til þeirra 1921 og ’22, voru lagðar fram þegar gengi peninga var lægst, eða undir hálfvirði, og má því segja, að í raun og veru hafi ekki verið veittur nema helmingur þeirrar upphæðar. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Jeg get eftir atvikum fallist á tilmæli hv. frsm. um að taka þessa till. aftur til 3. umr., í þeirri von, að hv. fjvn. kynni sjer þetta mál nánar og athugi allar aðstæður. Jeg ætla, ekki að tefja tímann með því að fetta fingur út í brtt. annara hv. þm. Mun jeg við atkvæðagreiðsluna sýna hug minn til þeirra.