26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hæstv. atvrh. (MG) hefir svarað hv. 2. þm. S.-M. (IP) nægilega, svo að jeg þarf einungis að segja nokkur orð til hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Hann fór varlegum orðum um það, að varhugavert væri að auka oddvitalaunin eins mikið og nefndin fer fram á. En jeg var búinn að færa nokkur rök fyrir því, að launin mundu ekki verða of há yfirleitt fyrir jafnmikið starf og oddvitastarf er. Hv. þm. sagði, að þar, sem hann þekti til, væri gott að fá oddvita — og líklega þá alla jafngóða. En jeg tel, að launahækkunin verði heldur til þess, að menn geti trygt sjer sæmilega oddvita. Það skiftir hvert sveitarfjelag miklu, hvort það hefir góðan oddvita eða ljelegan.

Sami hv. þm. (EÁ) sagði, að aðrir nefndarmenn yrðu að vinna sín störf fyrir engin laun, og er það rjett. En þar, sem jeg þekki til, eru störf hreppsnefndarmanna ekki sambærileg við störf oddvita. Þeir eyða auðvitað dálitlum tíma á fundum, en annað er það heldur ekki.

Jeg gat um það í fyrstu ræðu minni, að ef oddvitar fengju innheimtulaun sjerstök, þá myndi það margfalda laun þeirra. Innheimtulaun myndu varla verða ákveðin svo lág, að þau verði ekki tvöfalt eða þrefalt hærri en oddvitalaun, eftir því sem sveitagjöld eru nú orðin há. En verði laun oddvita hækkuð eftir tillögu nefndarinnar, minkar eða hverfur með öllu ástæðan til þess að borga þeim innheimtulaun. Jeg á heima í litlum hreppi, en þar eru þó útgjöldin orðin á 10. þús. kr. Svo að það sjá allir, að það þarf ekki svo háar prósentur af slíkri upphæð til þess að vega á móti þessari hækkun á oddvitalaununum.

Þá sagði hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að það væri mikið starf að endurskoða sveitarsjóðsreikningana. Getur verið, að svo sje í sumum hreppum, en ekki er það mikið starf þar, sem jeg þekki til. Hv. 2. þm. S.-M. (IP) taldi þetta aftur á móti geysimikið starf, en hann hafði líka sinn hrepp, sem mjög er fjölmennur, sjerstaklega fyrir augum. Það er víst óvíða eins mikið og þar. (IP: Í Borgarfjarðar- og Árnessýslum). Jeg er viss um, að það er afaróvíða eins mikið starf og hv. þm. segir það vera hjá sjer.

Þá talaði hv. þm. mikið um tvöfalt atkvæði og komst svo langt, að hann kallaði oddvitana tvöfalda. Ef hv. þm. heldur, að oddvitarnir verði persónulega tvöfaldir fyrir þetta, þá er náttúrlega skiljanleg afstaða hans hvað þetta atriði snertir.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) var líka að hafa eitthvað á móti þessu tvöfalda atkvæði. Taldi hann, að þetta færi fremur að koma að sök við breytta löggjöf, og átti víst þar við, að konur gætu verið í hreppsnefnd. Jeg á nú eftir að sjá það, að konur sæki ekki eins vel hreppsnefndarfundi og karlmenn. En ekki þar fyrir; jeg man vel eftir skoðun hans á kvenfólkinu í fyrra, og gæti jeg eftir því hugsað, að þessum hv. þm. þætti hreint ekki ver farið, þótt þær vantaði á fundi, því að þær hefðu hvort sem er ærið lítið af viti að segja um málin.

Þá var hv. 2. þm. S.-M. (IP) að taka til dæmis, hvað það væri slæmt, ef oddviti hefði tvöfalt atkvæði, þegar ætti að ákveða um sveitarstyrk, hvort hann væri endurkræfur eða ekki. Þessháttar málum má sjálfsagt fresta þangað til allir nefndarmenn geta sótt fund. (IP: Ekki víst, að þeir kæri sig um það). Jeg er annars alveg hissa á þessum spenningi móti þessu atkvæði. Hvers vegna hefir hv. þm. getað látið þetta vera á undanförnum árum samviskunnar vegna? Hann hefir þó komið með frv. um breytingar á sveitarstjórnarlögunum, en látið þetta alveg eiga sig. Þetta virðist hafa dottið ofan í höfuðið á hv. þm. á sömu stundu. Það má vera, að í gömlum lögum sjeu oft ákvæði, sem verða óþörf með tímanum. En meðan þeir, sem mest hafa móti þessu ákvæði, geta ekki komið með neitt dæmi um, að það hafi komið að sök í nokkra tugi ára, sem það hefir gilt, þá er jeg ekki svo hræddur við það.

En viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir athugað um frestinn — sem öllum kemur saman um, að sje of stuttur, — að kjósa tvo endurskoðunarmenn, þá virðist mjer hans skilningur rjettur, þar sem hann ætlast til, að hreppsfundur kysi þá, en ekki hreppsnefnd, og einnig að slept væri að leggja fram reikningana. Þetta tel jeg til bóta. Jeg er hv. þm. sammála um, að það eru svo sárafáir, sem líta á sveitarsjóðsreikningana, að það skifti litlu máli, hvort þeir eru lagðir fram eða ekki. Gæti það eins komið í staðinn, að allir hreppsbúar kysu endurskoðendur, annaðhvort einn eða tvo.