09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Jeg á eina litla brtt. á þskj. 336, XVI, þar sem jeg fer fram á 9000 króna fjárveitingu til vegar á Hólmahálsi, þó með því skilyrði, að kostnaðar komi annarsstaðar frá. Eins og kunnugt er, er með vegalögunum frá 1924 gert ráð fyrir, að Fagradalsbraut haldi áfram til Eskifjarðar, eða með öðrum orðum, að vegurinn milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar sje þjóðvegur.

Nú er svo komið, að á þessum kafla vegarins hefir verið gert við stærsta farartálmann, þar sem Eskifjarðará hefir verið brúuð. Kaupstaðarvegurinn frá Fljótsdalshjeraði liggur til Reyðarfjarðar, og öll aðalviðskifti uppsveitanna fara fram þar. Frá Reyðarfirði til Eskifjarðar eru 15 km. og sá hluti þjóðvegarins er ólagður. Hólmaháls er erfiðasti hluti þess vegar. En með því að bæði aðallánsstofnun hjeraðsins er á Eskifirði og sýslumaður Suður-Mýlasýslu er búsettur þar, á mikill fjöldi þeirra, sem um Fagradalsbraut fara, leið til Eskifjarðar. Síðan hætt var að fara lestaferðir af Hjeraðinu, eru þessir menn ver settir en áður og verða venjulega að leigja sjer mótorbát til ferðarinnar milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, því að ekki er nærri altaf hægt að fá hesta. Það er því talsverðum erfiðleikum bundið að ná til sýslumanns og þess, sem sækja þarf til Eskifjarðar. Leggja því búendur á þessu svæði mikið kapp á að fá sem fyrst þennan veg, svo að hægt verði að nota sömu farartækin til Eskifjarðar og frá Hjeraðinu til Reyðarfjarðar. Áhugi þeirra sýnir sig best í því, að þeir bjóðast til að leggja fram fjórða hluta kostnaðarins og losa þannig ríkissjóð við gjöldin.

Þessi litla upphæð, sem um er beðið, er aðeins brot af því, sem þarf. Jeg hefi spurt vegamálastjóra, hvað allur vegurinn muni kosta. Hann giskar á ekki minna en 100 þúsund krónur. En sú er bót í máli, að ef akfær vegur kemst yfir Hólmaháls, þá er vegurinn víðast svo greiðfær, sem eftir er, að hægt verður án mikilla erfiðismuna að aka hann með ljettu hlassi.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða frekar um þessa tillögu. Þar sem hlutaðeigendur bjóða fram 25% af kostnaðinum, ættu þeir öðrum framar að sitja fyrir slíkri fjárveitingu. Auðvitað kemur vegurinn á sínum tíma, þótt þeir leggi ekki fram fje, en með þessari fórn frá hjeraðsbúum ætti að takast að fá hann fljótlega.

Um leið og jeg ber fram þessa tillögu, vil jeg gera tilraun til að spara ekki minni upphæð á fjárlögunum. Þess vegna hefi jeg borið fram brtt. við 16. gr. fjárlagafrv., um 20 þúsund króna niðurfellingu á einum lið. Þetta liggur samt ekki fyrir til umr. nú, og tala jeg nánar um það, þegar þar að kemur.

Hjer liggur að vísu fyrir tillaga undir XVII. um færslu á þessum sama 980 lið frá 16. gr. yfir í 13. gr. Sú tillaga er þvert ofan í mína tillögu við 16. gr., en jeg býst við, að annaðhvort fresti hv. flm. tillögunni, atkvæðagreiðslu um hana, eða taki hana aftur, og fjölyrði jeg því ekki frekar um hana að sinni.

Aðrar brtt., sem hjer liggja fyrir, læt jeg afskiftalausar. Mjer skilst, að fyrir hv. þdm. vaki að koma umr. af í dag. Jeg skal geta þess, að þó að jeg sje mótfallinn mörgum af tillögunum, er jeg yfirleitt hneigður til að styðja þær, sem lúta að hjálp við veika menn og nauðstadda, hvaðan sem komnar eru.