09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Jeg á eina brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Það er að vísu tillaga, sem jeg flutti við 2. umr., í nýrri mynd. Þá tók jeg hana aftur, en ber hana nú fram á ný. Hún fer fram á, að til Vesturlandsvegar verði veittar 15 þúsund krónur, í stað 25 þúsunda við 2. umræðu. Jeg lýsti þá hinni miklu nauðsyn þessa vegar og þarf ekki að endurtaka það. Ástæðan til þess, að ekki hefir verið ráðist í þetta fyr, er meðal annars sú, að ekki er fyllilega rannsakað vegarstæðið yfir sjálfa Bröttubrekku, en eftir því, sem vegamálastjóri hefir tjáð mjer, ætlar hann mjög bráðlega að framkvæma þá rannsókn. í öðru lagi er þessi fjárveiting ekki meiri en svo, að nóg verkefni er fyrir hana niðri í bygð. einkum ef byrjað væri að vestanverðu. Vegir þar eru í mikilli niðurlægingu og ekkert gert við þá, nema það allra óhjákvæmilegasta. Um eitt skeið fyrir nokkrum árum voru þeir naumast færir lausum hestum. Áframhald af þessum vegi liggur suður Dalina, sem unnið var að fyrir 15 árum, en hætt við í miðri mýri. Það vakir einkum fyrir mjer, að haldið verði áfram með þennan veg, og sem sagt er þarna nóg verkefni fyrir höndum fyrst uni sinn, þó að vegurinn yfir sjálfa Bröttubrekku verði látinn bíða. Þegar þess er gætt, hversu afskekt Dalasýsla er og útilokuð frá samgöngum á sjó og landi, vænti jeg, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. þessa hóflegu fjárveitingu.