09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Jeg á eina brtt. við þennan kafla fjárl., og hafa 2 hv. þm., hv. 1. þm. S.-M. og hæstv. atvrh., gert hana að umtalsefni. Till. er af mjer flutt til þess að bæta úr formgalla, er jeg hugði vera á þessu atriði, en er engin efnisbreyting á fjárl.frv. Jeg skal kannast við það, eftir það sem hæstv. atvrh. hefir skýrt frá, og jeg get búist við að hafi verið skýrt við meðferð fjárl.frv. í fyrra, að þessi till. eigi ekki heima í þeirri grein fjárl., sem hljóðar um samgöngubætur. En mjer hefði þá fundist rjettara að hafa lengri fyrirsögn um það, til hvers þessi fjárframlög ættu að vera. Mjer þykir annars einkennilegt, að opinberum styrk til ræktunarfyrirtækis skuli vera þannig háttað, að ár eftir ár skuli vera leitað styrks svo tugum þúsunda nemi til þess að geta byrjað að hafa not af einhverju ræktunarsvæði þarna í eyjunum. Jeg skal nú ekkert um það segja, hvort sanngjarnt er að veita fje á þennan hátt og þótt svona standi á. Það var í raun og veru ekki hugsun mín að gera ágreining út af því, þótt hjer væri annað og meira lagt í sölurnar en gerist og gengur. Og vegna þess hefi jeg ákveðið að taka till. aftur, og að jeg geri það, er af því, að fram er komin önnur till. um þennan sama lið, sem jeg felli mig betur við en mína till.