09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Jeg á ásamt öðrum þm. (ÁÁ) eina brtt. við þennan kafla fjárlagafrv. Er hana að finna undir tölulið II, um lækkun skólagjalda um þriðjung. Þau voru fyrst innleidd á fjárlögum 1923, og var þá gert ráð fyrir, að þau mundu nema um 5000 kr., en sú upphæð varð þá nokkru hærri. Árið 1924 voru skólagjöldin áætluð 3000 kr., en urðu 15460 kr. Árið 1925 voru þau áætluð 20000 kr., en urðu 26085 kr. Og síðasta ár voru þau líka áætluð 20000 kr. Eins og kunnugt er hafa skólagjöldin verið bygð á þeirri skoðun, að þeim mönnum, sem hefðu þá góðu aðstöðu að búa í því sama kauptúni, sem skólinn var í, væri enginn órjettur gerður, þótt tekin væru af þeim nokkur skólagjöld, því að þeim yrði samt sem áður ljettara að menta börn sín en þeim, sem þyrftu að senda þau kannske langar leiðir á skóla. Það gat nú verið nokkuð til í þessu. En það er líka hinsvegar kunnugt, að það er mörgum erfitt að kosta börn sín til náms, jafnvel þótt þeir búi nálægt skólunum, þegar þeir verða að borga þessi gjöld. Auðvitað er heimilt að gefa eftir þessi gjöld, ef um fátæka, efnilega námsmenn er að ræða, en það hefir verið gengið skemra í því en ætlast var til af þinginu. Það sjest best á samanburði á þeim fjárhæðum, sem áætlaðar hafa verið og innheimtar hafa verið. í upphafi var lágmark skólagjaldsins ákveðið 100 kr. Þannig var það 1923–'24, en 1925 var það hækkað upp í 150 kr. En jafnframt verður að gæta þess, að peningarnir hafa hækkað frá því, sem þá var, og lækkunin, sem hjer er farið fram á, nemur ekki meiru en einmitt þeirri hækkun. Þá verður og að líta á það, að þeir menn, sem borga hjer skatta og skyldur til almennra þarfa, borga jafnframt svo mikið til kenslumála ríkisins, að ekki virðist rjett að láta þá auk þess gjalda sjerstaklega fyrir kenslu sinna eigin barna í opinberum skólum. — Þá hefir skólagjöldunum einnig verið talið það til gildis, að þau drægju nokkuð úr því, að skólarnir fyltust af nemendum, sem ekkert erindi hafa þangað námsins vegna, heldur aðeins til þess, að þeim verði forðað frá solli og göturápi. Vitanlega getur þetta þó komið mörgum ungling að góðu gagni, þótt jeg játi, að fyrir það sje of mikið gefið, ef það tefur fyrir námi þeirra, sem nema kunna. Jeg vona, að hv. þdm. sýni þessari till. okkar sanngirni. Einnig vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar. að hún verði eftirgefanlegri að því er snertir skólagjöldin en hún hingað til hefir verið og fari frekar eftir till. kennara í því efni hjer eftir en hingað til.

Jeg vil láta þess getið, að jeg flutti við 2. umr. till. um styrk til augnlæknis á Akureyri, en tók hana aftur, af því að fjvn. var fús á að taka hana upp, þó með annari fjárhæð en jeg hafði sett og auk þess athugasemd um ferðastyrk. Jeg vil eindregið mæla með þessari fjárveitingu og jafnframt leyfa mjer að benda á það, auk þess sem hv. frsm. (ÞórJ) tók fram, að Akureyri hefir ekki fengið styrk til aukalæknis í nærfelt 20 ár. Hefir mikil fjárhæð sparast ríkinu með þessu. Akureyri hefir átt og á ennþá fullan rjett á að fá þennan styrk og hann ekki minni en þann, sem Ísafjörður fær til slíkra hluta. Jeg get staðfest það, sem hv. frsm. (ÞórJ) tók fram, að það eru dæmi þess, að menn hafi orðið blindir norðanlands síðustu árin sakir þess, hve erfitt var að ná í augnlækni í tíma. Ef þessi litla fjárhæð verður veitt, sparar hún áreiðanlega mörgum augnveikum Norðlendingum mikið fje og fyrirhöfn, því að hvorki er altaf auðgert nje ódýrt að leita sjer lækninga hingað til Reykjavíkur. Og þessi litli styrkur mun áreiðanlega verða einnig til þess að bjarga sjón ýmsra manna, sem annars mundu missa hana, sakir þess að þeir ættu ekki kost á að ná til augnlæknis í tækan tíma.