09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

21. mál, fjárlög 1928

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg á aðeins eina brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., og er hún um það, að skólagjöldin falli niður. Hv. þm. Ak. (BL) hefir ásamt hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) komið fram með aðra brtt. um að lækka þau. En jeg skoða þau alls ekki sem sómasamlegan tekjustofn fyrir ríkissjóð. Það er gömul venja, að skólarnir eigi að vera frískólar, og virðist ekki nauðsynlegt að breyta því. Með því að koma á skólagjöldum eins og nú er gert, með athugasemdum í fjárlögum, er farið inn á hála braut, í fyrsta lagi af því, að þá er gerður greinarmunur á utan- og innanbæjarmönnum. Er sá greinarmunur fjarri sanni, þar sem menn, er búa t. d. úti á Seltjarnarnesi eða Skildinganesi. geta sloppið við að greiða skólagjaldið, en aftur á móti þeir, sem búa rjett innan við takmörk bæjarlandsins, verða að greiða það. par að auki geta utanbæjarnemendur haft miklu betri efnalega aðstöðu. Í öðru lagi eru námfúsir unglingar með skólagjaldi þessu látnir gjalda fátæktar foreldra sinna, því að þótt það sje nú ekki hærra en þetta, 100–150 kr., þá eiga þó margir erfitt með að standa straum af því að borga það ár frá ári. Auk þess er mörgum mun örðugra að leggja alt þetta fje fram í einu í byrjun vetrar, eins og nú verður að gera. Háttv. þm. Ak. gat þess, að skólagjaldið mundi takmarka aðsóknina að skólunum. Mjer finst nú, að ef á að takmarka aðsóknina, þá eigi að gera það á annan hátt en að miða við efni manna, svo að þeir einir útilokist, sem eiga fátæka foreldra. Annars er engin ástæða til að takmarka aðsóknina að skólunum hjer, því að æskilegast væri, að sem flestir gætu sótt skóla. Þetta skólagjald kemur enn ver niður á þá, sem eiga fleiri en eitt barn í skóla, kannske tvö eða þrjú, og er þetta þá gífurlegur skattur. Mjer finst, að þingið eigi að fylgja hjer sömu stefnu og áður um það að hafa skólana opna, þannig að hver gáfaður hæfileikamaður geti stundað nám sitt, án þess að lagður sje á hann skattur þess vegna. Jeg vænti svo þess, að háttv. deild taki vel þessari till. um að fella niður skólagjöldin, en þau eru nú við þessa skóla: mentaskólann, gagnfræðaskólann á Akureyri, kennaraskólann, stýrimannaskólann, vjelstjóraskólann og Flensborgarskólann.

Jeg vil við þetta tækifæri beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh., hvort hann hafi gert þá rannsókn, er hann lofaði, er vantraustið var til umræðu, viðvíkjandi því, hvort undarnþáguleyfin fyrir vjelstjóra hafi verið greidd hærra verði en löglegt var. Eftir gildandi lögum kosta þau 10 kr.. en menn þeir, sem um þetta eiga að sjá fyrir hið opinbera, hafa tekið 50 kr. Hæstv. ráðh. (MG) hefir nú haft nægan tíma til þess að afla sjer upplýsinga um þetta og koma með skýrslu um það. (Atvrh. MG: Upplýsingarnar koma jafnskjótt og nöfnin verða upp gefin). Jeg hefi áður skýrt frá því, að menn þessir eru Gísli Jónsson vjelstjóri og Ólafur Sveinsson vjelfræðingur. Jeg vil benda á, að það er mjög einkennilegt, ef hæstv. ráðh. neitar að gefa skýrslu um það, hvort meiri gjöld eru tekin en lög standa til, og yfir tekur þar sem þessi gjöld renna þá ekki nema að litlu leyti til ríkissjóðs, heldur til einstakra manna.

Þá vil jeg minnast hjer á annað atriði, sem er brtt. sjútvn. við fjárlagafrv. Frsm. hennar hefir nú enn ekki tekið til máls, en jeg vil þó ekki eiga það á hættu, að því sje ekki svarað, sem hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði. Hann gat þess, að fram væri komin frá fjvn. brtt. um vitamálin, þar sem lagt er til, að til nýrra vita og leiðarljósa verði veittar 50 þús. kr., en af því mun verða ætlað 15 þús. kr. til leiðarljósa. Jeg verð að segja, að hjer er of skamt farið og ekki svipað því, sem jeg get fallist á. Þessi upphæð verður algerlega ónóg til þess að byggja 3 vita, því að hún mátti ekki minni vera en 60 þús. kr., eins og sjútvn. leggur til. Hv. frsm. gat þess líka, að nefndin mundi ekki telja það að sök, þó að farið yrði fram úr upphæðinni. En þar til er því að svara, að vafalaust er, að fram úr þessari upphæð verður að fara, ef byggja á þessa 3 vita, sem um er talað, og jafnvel þótt þeir verði ekki nema tveir. Það er rjettast að setja hina rjettu upphæð í fjárlögin, en ekki að vera að reyna að hafa hana lægri aðeins á pappírnum. Auk þess skal jeg geta þess, að með því að koma upp þessum 3 vitum, á Vesturlandi, Suðurlandi og Austurlandi, er mikið fengið, og líkindi til þess, að þeir geti komið að fullu gagni fyrir skipin. En með tveim vitum verður árangurinn töluvert minni. Vitarnir á Suður- og Austurlandi eiga aðallega að vera landtökuvitar og auk þess til fiskiveiða, en vitinn á Vesturlandi á aðallega að vera fyrir fiskiveiðar, og þá sjerstaklega á „Halanum“. — Jeg get ekki fallist á það, að stjórninni sje falið að ráðstafa þessu fje, án þess að ákveðið sje, að það gangi til radiovita, og líkar mjer því ekki orðalagið á till. fjvn.

Þess ber að geta, að í raun og veru er of skamt farið hjá sjútvn. í þessu efni. Eftir fjárlagafrv. eru tekjur af vitamálunum áætlaðar 300 þús. kr., en þótt teknar sjeu af þeirri upphæð þessar vitbótar 60 þús. kr., sem sjútvn. leggur til, verður samt ríflegur tekjuafgangur, þegar Hornstrandavitinn er niður feldur. En upphaflega var ekki til þess ætlast, að afgangur yrði af vitagjöldunum, heldur yrði það fje, sem þannig fengist, eingöngu notað til vitamálanna.