09.04.1927
Neðri deild: 51. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

21. mál, fjárlög 1928

Ólafur Thors:

Við 2. umr. fjárl. flutti sjútvn. till. um 75 þús. kr. fjárveitingu til þess að reisa 3 radiovita. Nefndin hafði þá falið mjer framsögu málsins og enda enn, þótt hv. samnefndarmaður minn, 4. þm. Reykv. (HjV), hafi nú tekið að nokkru leyti af mjer ómakið, raunar að óþörfu.

Við fyrri umr. málsins færði jeg rök fyrir till. nefndarinnar. Jeg skal ekki endurtaka þau, aðeins minna á, að menningarþjóðirnar keppast nú um að reisa radiovita, vegna þess að þeir eru nú af sjerfræðingum taldir sjófarendum ómissandi öryggi, — stærsta framfarasporið, sem nokkurntíma hefir verið stigið á þeirri braut, svo traustur leiðarvísir, að jafngildir í þoku og dimmviðri ljósvitum í heiðskíru veðri.

Jeg skýrði frá því, að vitar þessir væru nú orðnir það fullkomnir, að ólíklegt þætti, að mikil breyting yrði á þeim frá því, sem nú er. Enda er það nú brennandi áhugamál vitamálastjóra að umlykja sem allra fyrst strendur landsins með radiogeislum. Til þess þarf 14 vita, er kosta samtals um 300 þús. kr., en rekstrarkostnaður þeirra er hverfandi lítill. Þegar sjútvn, flutti till. sína við 2. umr. fjárl., gekk hún þess ekki dulin, að slíkt fjárframlag mundi sæta mótspyrnu. En nefndin átti sjer málsbætur. — í fyrsta lagi þær, að óviðfeldið er, að við Íslendingar, sem byggjum eyland og lifum að miklu leyti á sjávarútvegi, gerum vitamálin að tekjulind, en til þess var þó ætlast samkv. fjárlagafrv. hæstv. stjórnar. Þar er vitagjaldið áætlað kr. 300 þús., en útgjöld vegna vitamála 244 þús., og var þá tekjuafgangur 56 þús. En þar við bættist svo, að háttv. fjvn. hafði lagt til, að niður fjelli fjárveiting að upphæð 70 þús. kr., er ætluð var til þess að reisa Hornvitann.

Að vísu fór þessi háttv. nefnd jafnframt fram á það að hækka fjárveitingu til leiðarljósa um 5 þús. kr., svo að samkv. till. hennar nam sparnaður á vitamálunum 65 þús. í viðbót við þær 56 þús., sem hæstv. stjórn hafði ætlað að láta ríkissjóð hagnast á vitamálunum á næsta ári. Nam tekjuafgangurinn þannig 120. þús. kr.

Loks vænti nefndin þess, að hin ríka nauðsyn þessa máls væri hv. þdm. svo ljós, að í því mundi liggja sæmileg trygging þess, að till. nefndarinnar yrði samþykt.

Háttv. þdm. er nú í fersku minni hvernig leikar fóru. Till. sjútvn. var feld með jöfnum atkv. Jeg læt ósagt, hvernig fara mundi að þessu sinni, ef sjútvn. hefði treyst á að neyta aflsmunar. Tel þó ekki ólíklegt, að nefndin mundi hafa haft sitt mál fram, þótt hún hefði flutt till. um svipaða fjárveitingu og við 2. umr. En nefndin ákvað strax að tefla ekki á fremsta hlunn um það, heldur leita samvinnu við hv. fjvn., enda höfðu sumir hv. fjvn.menn talað líklega um málið. Sjútvn. hefir því lækkað upphæðina að verulegum mun, svo að hún fer nú aðeins fram á 60 þús. kr. til að reisa fyrir radiovita, og hafði þá vænst, að hv. fjvn. ljeti sjer það lynda.

Jeg þarf því eigi að lýsa vonbrigðum sjútvn., er hún sá till. hv. fjvn. á þskj. 336, er fer fram á, að veittar verði 50 þús. kr. til leiðarljósa og vita. í fljótu bragði sýnist till. þessi ekki mjög ólík till. sjútvn., en við nánari athugun sjest þó strax, að þessum 50 þús. kr. er ætlað að koma í stað þeirra 15 þús. kr., er nú standa í fjárlagafrv. Ný fjárveiting er því aðeins 35 þús., sem enn skerðast um 10 þús. fyrir þá till. hv. fjvn. að fella niður 10 þús. kr. fjárveitingu til hljóð- og ljósdufls á Valhúsgrunni.

Hjer er því í rauninni aðeins um 25 þús. kr. að ræða, í stað þeirra 60 þús., er sjútvn. í allri sinni auðmýkt hefir talið, að sje það minsta, sem komist verði af með. Svona er þá till. hv. fjvn., þegar hún er krufin til mergjar. En mjer var óblandin ánægja að heyra ræðu hv. frsm. (ÞórJ). Hann lýsti því yfir, að telja mætti sama og víst, að till. um að fella niður fjárveitingu til duflsins á Valhúsgrunni yrði tekin aftur, og gat þess jafnframt, að nefndin ætlaðist til, að á þessu ári yrðu reistir 2 radiovitar, enda þótt reynslan sýndi, að þær 35 þús. kr., er ætlaðar eru til þess, nægðu ekki.

Að fenginni þessari yfirlýsingu þykir mjer málið horfa vænlegar og játa fúslega, að dregið hefir saman með hv. fjvn. og sjútvn., þótt jeg hinsvegar geti ekki orðið við þeim tilmælum að taka aftur till. sjútvn. En það er vegna þess, að enda þótt svo sýnist, sem eigi skifti verulegu máli, hvort reistir verða 2 vitar eða 3, þá er þó munurinn meiri en tölurnar gefa til kynna. Sannleikurinn er nefnilega sá, að komi hjer 3 radiovitar, tel jeg sæmilega trygt, að allflest eimskip, er hafast að staðaldri við við strendur landsins, verði þegar búin miðunartækjum. Verði vitarnir aftur aðeins tveir, verða mikið færri skip búin tækjunum. Hjer er því um annan og meiri mun að ræða en venjulegan mun á 2 og 3 leiðarvísum.

Að endingu vil jeg minna hv. fjvn. á þá sorglega staðreynd, að á síðustu 40 árum höfum við fórnað Ægi um 3000 sægörpum, og þótt jeg játi, að víða sje þörfin brýn fyrir framkvæmdir á landi voru, hvílir sú skyldan þyngst á mjer, að auka öryggi sæfarenda.

Jeg skal svo geta þess, að jeg tel ólíklegt, að við útgerðarmenn höfum nokkurn beinan hag af þessum vitum. En verði þeir reistir tel jeg víst, að við þegar búum togarana miðunartækjum, til þess eins að tryggja sem best líf sjómannanna. Kostnaður okkar mundi nema um 100 þús. króna. Úr því nú að útgerðarmenn á þennan hátt, með 100 þús. kr. fjárframlagi, eru reiðubúnir til að rísa undir helgri skyldu sinni, vænti jeg þess, að hinu háa Alþingi blæði ekki í augum að samþ., að ríkissjóður leggi af mörkum 60 þús. kr. í þessu augnamiði, fyrst það nú er alment viðurkent, að hjer er um þjóðþrifamál að ræða, en það sýnir og sannar hinn samhuga áhugi hv. fjvn. og sjútvn. um fjárframlög til þessara vita.