11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

21. mál, fjárlög 1928

Benedikt Sveinsson:

Jeg þarf aðeins að segja fáein orð með brtt. á þskj. 336. Jeg legg til, að tekinn sje upp nýr liður um að veita 3 þús. kr. uppbót til Friðriks pósts Jónssonar á Helgastöðum, vegna langvinnrar heilsubilunar, er hann hefir hlotið að ofreynslu í póstferðum.

Þetta mál þarf ekki langrar skýringar við, því að í raun og veru er nóg sagt í till. sjálfri. En fyrir þinginu hafa legið nokkur skjöl um þetta mál. Hjer á hlut að máli aldraður maður, sem hefir verið póstur í Þingeyjarsýslu síðan 1903, — þeim hluta landsins, sem einna erfiðastur er yfirferðar að vetrinum. Á þessari póstleið er Tunguheiði, bæði brött og há, mesta snjóakista og einhver versta heiði yfirferðar allra fjallvega á Norðurlandi, er óhætt að segja. Það er þrásinnis, að ekki verður komið við hestum yfir heiðina, og er þá ekki um annað að gera en bera póstflutninginn. Oft verður pósturinn að fá menn til þess að bera hann með sjer, — klífa yfir heiðina í botnlausri ófærð og bera kannske upp undir 100 pund á bakinu. Reynir því mjög á karlmensku í þessum ferðum. Sú hefir orðið raunin á um þennan mann, að þótt hann sje mjög harðgerður og hvatur að hverju sem er, þá hefir heilsa hans bilað við það mikla erfiði, sem hann hefir orðið að leggja á sig í póstferðunum. Stundum hefir hann orðið að liggja lengi eftir ferðirnar, sökum ofreynslu. Eitt skifti lá hann 8 vikur, í annað skifti eitthvað skemur; og heilsa hans er svo farin af þessum svaðilförum, að hann getur ekki unnið marga þá vinnu, sem honum er nauðsynlegt, svo sem heyskap og þessháttar. Af þessu hefir hann beðið mikil óþægindi og skaða, og því hefir hann sótt til þingsins, að það veitti honum í eitt skifti fyrir öll 8–10 þús. kr. uppbót.

Hv. fjvn. hefir haft erindi þetta með höndum ásamt fylgiskjölum, en sökum þess, hve hún er föst á fjeð, hefir hún ekki treyst sjer til að taka till. upp. En jeg vona, að hún verði þó ekki þessari till. andvíg, þar sem hún er mjög sanngjörn og eðlileg. Jeg hefi ekki farið fram á jafnháa fjárhæð sem sótt var um, heldur 3000 kr., og er það fyrir þá sök eina, að jeg treysti þá fremur, að till. nái samþykki hv. deildar.

Þegar litið er á það, að hjer á í hlut maður, sem starfað hefir yfir 20 ár í þjónustu landsins og beint tapað heilsunni til langframa við þau erfiðu störf og illa launuðu, þá finst mjer þetta svo sanngjörn beiðni, að hún ætti að fá einhuga fylgi háttv. deildar. Þessari umsókn fylgja vottorð frá fjórum merkum læknum um heilsufar Friðriks, og er þar tekið fram, að veikindi hans stafi af ofreynslu í bakvöðvum og margra ára vosbúð á vetrarferðalögum.

Kjör pósta yfir höfuð eru þau, að þeir vinna fyrir einna lægst kaup þeirra, sem starfa í þjónustu ríkisins; enda er það nálega einsdæmi, að þeirra störf eru boðin niður, sem ekki mun eiga sjer stað um aðra fasta starfsmenn ríkisins. Margir bjóðast til starfsins og þá stundum miður hæfir, eða hafa ekkert vit á, hvað til þess þarf, og bjóða niður fyrir það, sem nokkur sannsýni er í.

Þessi maður hefir auðvitað ekki getað safnað neinum auði til elliáranna; hann er kominn yfir sextugt, er eignalaus og nokkuð skuldugur. Honum er því brýn nauðsyn á þessu fje, og þótt meira væri.

Hv. fjvn. hefir skotið þessum skjölum til póstmeistara, en hann segist ekkert vita um þetta mál. Þarf þá ekki að leita hans fræðslu um þetta efni.

Jeg held málið liggi svo ljóst fyrir, að það þurfi ekki að fara fleiri orðum um það, og vona fastlega, að menn sýni þá sanngirni, að samþykkja Þessa tillögu.