26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Ingvar Pálmason:

Það er út af ummælum hæstv. atvrh. (MG). Hann virtist gera ráð fyrir, að hægt væri — og jafnvel ætti að gera það, — að senda sveitarsjóðsreikninga á skotspónum. En jeg segi fyrir mitt leyti, að öll árin, sem jeg var oddviti, hafði jeg þann sið, ekki einungis að senda þá með pósti, heldur altaf í ábyrgðarpósti. Jeg hygg, að flestir, sem með þessi mál fara, vilji ekki eiga á hættu að senda slík skjöl með skottuferðum, því að það gæti verið ónotabaggi, ef alt tapaðist. Þetta sýnir gallana á þeim ástæðum fyrir því að halda fram þessum fastákveðna fresti, sem er viðurkendur alt of stuttur.

Háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) var að furða sig á, að jeg skuli ekki hafa komið fyr með brtt. á þessu ákvæði sveitarstjórnarlaganna en nú. Háttv. þm. er kunnugt um það, að gagngerð breyting á sveitarstjórnarlögunum hefir ekki legið fyrir fyr en nú. Breytingarnar, sem áður hafa verið gerðar, hafa verið á einstökum atriðum, en það hafa alls ekki verið neinar gagngerðar breytingar.

Þá er framlagning sveitarsjóðsreikninga. Mjer heyrast ýmsir, sem hjer hafa talað, hallast að því að nema úr lögunum þá skyldu að leggja sveitarsjóðsreikningana fram um nokkurn tíma. Ekki get jeg fallist á það. Jeg tel það óheppilega ráðstöfun og tel nær að bæta úr hinum stutta fresti, sem allir viðurkenna, að er alls ónógur.