11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Torfason:

Jeg vil leyfa mjer að gefa þessari háttv. deild dálitlar upplýsingar út af brtt. á þskj. 336,VII, frá samþingismanni mínum, háttv. 2. þm. Árn. (JörB). Hann var því máli ekki fullkunnugur og hefir því skotist yfir aðalástæðuna. Því er svo háttað um þann mann, er þar getur, að hann var einn okkar allra mesti dugnaðarmaður og hefir staðið ágætlega í stöðu sinni, hvar sem hann hefir verið.

Jeg vil geta þess sjerstaklega, að hann hefir verið háseti hjá Júlíusi Júlíussyni, núverandi skipstjóra á „Brúarfossi“, sem er alþektur sem einn okkar duglegustu skipstjóra, en þykir vinnuharður mjög. Hann hefir gefið Símoni þessum mesta ágætisorð, sjerstaklega fyrir ósjerhlífni við vinnu. Það er einmitt merkilegt, að þessi skipstjóri, sem fengið hefir það orð á sig að vera fullvinnuharður, skuli gefa honum þennan vitnisburð, og hinsvegar telur Símon skipstjóra vera ágætis húsbónda. Það sýnir, að hann er maður, sem vildi vinna og vann líka mikið, enda hefir hann heldur ekki ætlað sjer af, og er nú orðinn taugaveiklaður af ofreynslu. Seinna eignaðist hann mikið í húsi á Stokkseyri, en er hann veiktist — og nú hefir hann verið veikur í 3 ár — varð hann að veðsetja húsið til þess að kosta sig ytra, og nú er það svo veðsett, að ekki fæst meira út á það. Er skemst frá því að segja, að góðir menn austur þar á Stokkseyri hafa tekið að sjer að halda heimilinu við, meðan hann er úti. Því er þessi till. á annan veg en flestar samskonar fjárbeiðnir aðrar, því að hjer kemur fult á móti, meira en 1000 kr., sem hreppsbúar leggja til beint og óbeint.

Við lítum því svo á, að það sje stór samviskusök, ef hann getur ekki verið á heilsuhælinu áfram enn um stund, einkanlega af því, að nú á síðustu tímum hefir verið gefin góð von um svo sæmilegan bata, þótt aldrei verði hann jafnheill eftir og áður, að hann muni geta gengið að flestri algengri vinnu, sem ekki er beinlínis stritvinna.

Að þessu athuguðu vona jeg, að mönnum sje ljóst, að fáar sjeu þær fjárbænir til þessa þings um styrk til einstakra manna, er verðari sjeu stuðnings og samþyktar en einmitt þessi.