11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hefir að miklu leyti tekið frá, mjer umtalsefnið, því að jeg kvaddi mjer hljóðs út af orðum, sem fjellu hjá hv. þm. Str. (TrÞ). Hann kom inn á till. sjútvn., um að veita 60 þús. kr. til miðunarvitanna þriggja, og ljet á sjer skilja, að nefndin vildi heimta til vitanna jafnmikið fje og vitagjöldin næmu. Út af þessu þykir mjer rjett að minna á það, að 1925 voru vitagjöldin ekki 300 þús. kr., eins og hv. þm. (TrÞ) vill telja fram, heldur nærri 400 þús. kr., en útgjöldin til vitanna alls samkvæmt þessu fjárlagafrv. verða ekki nema 179620 kr., og að viðbættum þeim 60 þús. kr., sem sjútvn. vill leggja til miðunarvitanna, tæplega 240 þús. kr. Er því ekki farið fram á að nota í þarfir vitanna nema rösklega helming af vitagjaldinu, eins og ætla má að það verði. Hinsvegar get jeg verið hv. þm. Str. sammála um það, að ekki sje sjálfsagt eða skyldugt að nota í hvert sinn alt vitagjaldið í þarfir vitanna, þegar aðrar þarfir eru aðkallandi.

Jeg vona samt sem áður, að háttv. deildarmenn hallist að till. sjútvn. í þetta sinn og horfi ekki í þann tiltölulega litla mun, sem er á henni og till. hv. fjvn., því að tryggingin fæst fljótt og er ómetanleg fyrir líf og eignir sjófarenda, ef miðunarvitarnir koma allir þrír í einu.

Skal jeg svo ekki fara lengra út í þetta, fyrst og fremst sakir þess, að búið er að ræða töluvert um það áður, og í öðru lagi finst mjer ekkert uppbyggilegt að tala yfir tómum stólum, þegar menn eru flestir úr deildinni farnir.

Þó skal jeg lítillega minnast á till. mína á þskj. 336, XVI, um 9000 kr. til Hólmahálsvegar. Jeg tók svo eftir hjá hv. frsm. (ÞórJ), að meiri hl. nefndarinnar legðist á móti till. þessari, eins og hæstv. atvrh. gerði líka, og að mjer skildist af því, að þetta fje væri alt of lítið og kæmi því ekki að tilætluðum notum. En eins og jeg hefi minst á áður, þá bjóðast hlutaðeigandi hjeraðsbúar til þess að leggja fram hluta kostnaðarins, þótt þetta sje á lögákveðnum þjóðvegi, og stilla kröfum svo í hóf, að líklega þarf nokkur ár til þess, að vegspottinn milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar verði fullger. Og jeg skal fúslega viðurkenna, að það er eftir ráðleggingum mínum, að farið er svona hóflega á stað með fjárbeiðnina. Að síðustu skal jeg geta þess, sem mjer láðist að minnast á, þegar jeg talaði fyrir till. þessari, að á Reyðarfirði, sem er aðalbækistöð kjötútflutningsins frá Austurlandi, er engin kælistöð fyrir kjöt til útflutnings, en hún er til úti á Eskifirði. Er því æskilegt, að vegspottinn frá Eskifirði til Reyðarfjarðar verði sem fyrst gerður akfær, bæði af þessum ástæðum og öðrum, sem fyr voru taldar. Vænti jeg því, að hv. þdm. lofi þessari till. að fljóta.