11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Háttv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að það hefði verið haft rangt eftir sjer, að hann hafði sagt við framhald 1. umr. fjárlagafrv., að hann ætlaði að geyma eldhúsverkin þangað til við vantraustsumræðurnar. En jeg býst nú við, að ýmsir hafi heyrt hann segja þetta, og að minsta kosti hafa þingskrifararnir skrifað það eftir honum. Í handriti þeirra stendur: „Jeg er vanur að nota þetta tækifæri til eldhúsverka, en þar sem nú stendur svo á, að umræður um vantrauststillögu standa fyrir dyrum, get jeg komið öllum mínum aðfinslum að við það tækifæri og ætla því ekki að fara í eldhúsið nú“. Þetta hafa skrifararnir skrifað, en að vísu er ræðan óleiðrjett, og má því vel vera, að þingmaðurinn taki þetta út úr þingtíðindunum, en jeg held eigi að síður, að hann hefði getað sparað sjer að bera á móti þessu nú. Ef ekki þykir hægt að fara út í eldhúsverk við stjórnina, þá er það ekki af öðru en því, að hún hefir svo gott orð á sjer, að ekki er hægt að finna að neinu hjá henni; því að eldhúsverk eru ekkert annað í þessum skilningi en aðfinslur, sem hver stjórn má altaf eiga yfir höfði sjer.

Þessi „pólitíska operation“, sem hv. þm. var að tala um, er ekkert annað en það, að vantrauststillögunni var vikið frá með brtt., sem fól í sjer, að þessi stjórn ætti að sitja fram yfir næstu kosningar, eins og líka greinilega var tekið fram af frsm. flokksins, hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Þetta var því líka hlutleysisyfirlýsing frá stjórnarandstæðingum, sem ekki vilja styðja stjórnina, en sjá að þeir geta ekki myndað stjórn sjálfir.

Þá fann hv. þm. Str. mjög til þess, að allar ásakanir um ógætilega fjárhagsáætlun hitta fyrst hv. fjvn. Og má í þessu sambandi geta þess, að í fyrra bar hún fram till. til hækkunar á aðeins einum lið, sem nam nálega 330 þús. kr. Að jeg ekki lagðist fast á móti því þá, var fyrir þá sök, að nefndin lofaði að styðja ekki að fleiri hækkunartill., ef þessi næði fram að ganga. Það, sem mjer því er ámælt fyrir nú, er það, að jeg hefi látið fjárlagafrv. stjórnarinnar bera svip af áætlun hv. fjvn. frá síðasta þingi. En það er nú svo um þetta mál eins og öll önnur, að stjórnin verður að taka tillit til þess, sem þingið vill, og því bar henni skylda til að hafa hliðsjón af áætlun háttv. nefndar.

Þá vildi hann afsaka sig og nefndina með því, að nú væri útlitið framundan um afkomu ríkissjóðs ennþá verra en í fyrra, en þetta er ekki rjett, því ef munurinn er nokkur, þá er þó bjarta útlit um afkomu ársins 1928 en var í fyrra um afkomu yfirstandandi árs. Þess vegna er það enginn regindómur yfir fjárhagsáætlun stjórnarinnar nú, þó að hún feti einmitt í þau spor, sem samþykt voru hjer fyrir ári síðan.

Þá fór hann að tala um jarðræktarstyrkinn og viðurkendi nú, að engar upplýsingar hefðu legið fyrir frá Búnaðarfjelaginu um það, hve mikið fje þyrfti til hans eftir jarðræktarlögunum, og hann afsakaði Búnaðarfjelagið með því, að það hefði ekki getað gefið þessar upplýsingar, sökum þess að það hefði ekki fengið í hendur skýrslur frá búnaðarfjelögunum. En jeg vil þá spyrja, hvernig er hægt að ætlast til þess, að stjórnin viti um þetta, úr því að Búnaðarfjelagið var ekki einu sinni búið að fá skýrslurnar í sínar hendur?

Þá hafði háttv. þm. mikið að því að finna, að frv. um gengisviðaukann var ekki borið fram um leið og fjárlagafrumvarpið, en þetta var alveg eðlilegt, því að stjórnin vildi athuga, hvort nægja mundi óbreytt framlenging, eða breytingar þyrfti að gera til útvegunar á tekjum, og sú athugun gat ekki farið fram fyr en niðurstaða ársins 1926 var í ljós komin. Hitt er skakt, að áætlun stjórnarinnar hafi ekki verið gerð á grundvelli núgildandi laga. Hún hefir einmitt haft það fyrir augum, því að stjórnin mátti búast við því, að þessi lög yrðu framlengd, þegar þau fjellu úr gildi. Það var vikið að því á síðasta þingi og eins nú við fyrri umr. fjárlagafrv., að til þess gæti komið, að tekjuauka þyrfti að útvega á þessu þingi og þá ganga lengra en að framlengja þessi lög. Og ekki er enn sjeð fyrir það, hvort hjá því verður komist. En nú er tækifæri fyrir hv. fjhn. að athuga það mál í sambandi við frv. um framlengingu á gengisviðaukanum.

Annars tel jeg það mjög óheppilegt, ef fjárlagafrv. verður fyrir þeim útgjaldaauka í meðferð þingsins, að leggja verði þess vegna ný gjöld á þjóðina, því að það er vel hægt ennþá, þar sem fjárlagafrv. er ekki lengra komið, að afgreiða það í því formi, að hægt verði að hlífa þjóðinni við nýjum sköttum og álögum.