11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

21. mál, fjárlög 1928

Bernharð Stefánsson:

Jeg var ekki við því búinn að taka til máls svona snemma, en gat þó ekki látið niður falla að minnast dálítið á 2 brtt., sem jeg er við riðinn, þótt jeg flytji hvoruga þeirra einn.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 336, LXIX, um biðlaun handa Eggert Stefánssyni símritara á Akureyri, 1800 kr., og til vara 1500 kr., þar til hann fær stöðu hjá landssímanum, með eigi lakari kjörum en hann áður hafði.

Hv. þdm. mun flestum vera kunnugt um þetta mál, því að erindi um þetta hefir legið fyrir þinginu áður, og líka vegna þess, að í hittiðfyrra flutti jeg samskonar tillögu og þessa, en upphæðin var þá hærri en hún er hjer. Jeg gerði þá grein fyrir því, hvaða rök lægju til þess, að jeg flutti þá till., og þau rök eru enn óhrakin, og get jeg því að mestu látið nægja að vísa til þess, sem jeg sagði þá, en við það vil jeg þó bæta einu eða tveimur atriðum til skýringar.

Eggert Stefánssyni var veitt stöðvarstjórastaðan á Borðeyri árið 1922, samkvæmt tilmælum þáverandi landssímastjóra, og hafði hann þá verið í þjónustu landssímans um mörg ár. Þessi veiting hlýtur að sýna það, að hann hafi leyst störf sín vel af hendi til þess tíma, annars hefði hann ekki fengið meðmæli frá landssímastjóra. En Eggert tók aldrei við þessari stöðu. Það varð að samkomulagi milli hans og þáv. atvinnumálaráðh., að hann fór aldrei til Borðeyrar, en var kyr við starf sitt á Akureyri. Þetta var gert vegna þess, að „Símamannafjelagið“ var óánægt með þessa veitingu, því að það vildi koma einum af sínum mönnum í stöðuna og hótaði jafnvel verkfalli, ef það fengi ekki að ráða, og Eggert dró sig til baka til þess að fyrra vandræðum. Við þetta starf á Akureyri var hann svo kyr þangað til 8. apríl 1924, að hann er sviftur stöðunni og honum gefin að sök drykkjuskaparóregla. Þetta lítur nokkuð einkennilega út. Haustið 1922 er Eggert talinn góður og gildur starfsmaður og trúað fyrir ábyrgðarmikilli stöðu, þótt svo atvikaðist, að hann tæki aldrei við henni, og það er sannanlegt, að fult ár eftir það var Eggert alger bindindismaður. Hjer getur því alls ekki hafa verið um brot að ræða í þessu efni, nema á tímabilinu frá því seint á árinu 1923 til 8. apríl 1924, þegar honum var vikið frá. Jeg hafði töluverð kynni af manninum á þessu tímabili, og var mjer alls ekki kunnugt um, að meiri brögð væru að vínnautn hans þá heldur en oft hafði verið, áður en honum var veitt stöðvarstjóraembættið og á meðan hann var talinn forsvaranlegur starfsmaður, og þótt svo kynni að hafa verið, hygg jeg, að finna megi mildandi ástæður. Hann var veikur um tíma þetta haust, 1923, og fyrsta vínnautn hans þá mun hafa verið samkvæmt læknisráði. Í öðru lagi má líta á það, að ef hann hefði farið til Borðeyrar, þar sem freistingar eru minni í þeim efnum en á Akureyri, þá hefði þetta ekki orðið honum að falli.

Jeg ætla ekki að fara mikið fleiri orðum um þetta mál, en einu vil jeg slá föstu: Eggert afsalaði sjer stöðvarstjóraembættinu á Borðeyri vegna ákveðinna tilmæla landsstjórnarinnar, þótt hann hefði fylsta rjett til að halda stöðunni og allar líkur sjeu til, að þar hefði hann getað staðist þá freistingu, sem talið er að hafi orðið því valdandi, að hann var sviftur stöðu sinni á Akureyri. Hann hefir því að minsta kosti orðið fyrir óvenjulegu harðræði, og því tel jeg rjett að bæta honum það að einhverju leyti. Jeg hefi fengið upplýsingar um það, að Eggert mun hafa verið með færustu símamönnum landsins; það eru menn, sem vel kunna um það að dæma, sem það hafa vottað. Hjer er ekki farið fram á annað en að hann fái lítilsháttar biðlaun, þangað til hann fær stöðu aftur við símann. Jeg skil ekki í öðru en hann fái hana, því að hann er mjög vel fær um að taka einhverja slíka stöðu að sjer. Jeg skal ennfremur benda á það, að þegar Eggert var sagt upp stöðu sinni á Akureyri, varð hann ekki einn fyrir því, heldur var stöðvarstjórinn líka settur frá, og hann hefir nú verið tekinn aftur.

Jeg verð að vænta þess, að Eggert verði látinn njóta sama rjettar, því að það, sem stöðvarstjóranum var gefið að sök, mun hafa verið öllu alvarlegra heldur en sök Eggerts á að hafa verið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, með því að meðflm. minn, hv. 1. þm. Rang. (KIJ), mun gefa deildinni frekari upplýsingar um málið, enda er hann enn kunnugri því en Jeg.

Þá er önnur brtt., sem jeg flyt ásamt hv. þm. Ak. (BL) og hv. 1. þm. Reykv. (JakM), á þskj. 345, lið VII, við 22. gr., um að heimila stjórninni að veita bræðrunum Esphólín alt að 75 þús. kr. viðlagasjóðslán til þess að koma upp tunnuverksmiðju á Siglufirði og endurbæta verksmiðju á Akureyri, gegn þeim tryggingum, sem stjórnin tekur gildar, og með öðrum þeim skilyrðum, sem sett eru í till. — Hjer er ekki farið fram á fjárveitingu, heldur aðeins lán. Áhætta er heldur ekki nein, því að það er ekki ætlast til þess, að lánið sje veitt, nema gegn fullri tryggingu að dómi stjórnarinnar. Hinsvegar er þetta mjög þarflegt fyrirtæki og vel þess vert, að þingið styðji það á þennan hátt. Það er talað um það, að útgerðin beri sig ekki, því að kaup verkafólks sje alt of hátt, o. s. frv. En þó að segja megi, að verkkaup sje of hátt um bjargræðistímann, þá er hitt víst, að verkamenn hafa ekki of mikið. Þetta stafar af því, að atvinnan er ekki stöðug, heldur koma langir atvinnuleysistímar á milli. Það er oft ekki um neina atvinnu að ræða að vetrinum til, og menn verða þá að lifa á því, sem þeir hafa aflað yfir sumarið. Það er því ekki að undra, að verkamenn krefjast mikils kaups. Þetta ólag stafar mjög af því, að menn hafa ekki komið því svo fyrir enn að vinna í landinu sjálfu ýmislegt, sem hjer er vel hægt að vinna, heldur kaupa vinnuna af útlendingum, og svo gengur fjöldi fólks hjer á landi iðjulaus yfir veturinn.

Ef nú tunnuverksmiðju væri komið á fót á Siglufirði og stækkuð og endurbætt verksmiðjan á Akureyri, þá ætti að vera atvinnu að fá einmitt á veturna, þegar annars yfirleitt er sáralítið að gera. Það er líka auðsjeð, að verkamenn nyrðra sjá, hverra hagsmuna. Þeir mega vænta af þessari framkvæmd, því að verkamenn á Siglufirði hafa boðist til að taka þátt í fyrirtækinu, þannig að leggja fram vinnu sína sem hlutafje.

Það hafa fróðir menn sagt mjer, að útvegurinn hjer þurfi um 270 þúsund síldartunnur á ári, og ef þær væru allar smíðaðar hjer, mundi það veita atvinnu 180 manns yfir veturinn. Þessar verksmiðjur, sem hjer er um að ræða, mundu vitanlega ekki fyrst um sinn geta smíðað allar þær tunnur, sem útvegurinn þarf, en þær yrðu þó vísir. Nú munu innfluttar síldartunnur — hingað komnar — kosta um kr. 5,50, eða m. ö. o., 270 þúsund tunnur kosta þá um hálfa aðra miljón króna. Efni í hverja tunnu kostar nú um 3 kr. hingað komið, eða efni í 270 þúsund tunnur kostar þá um 800 þús. kr. Mismunurinn á að kaupa aðeins efnið eða tunnurnar tilbúnar yrði þá um 700 þús. kr., sem yrði sparnaður fyrir þjóðarheildina, ef tunnurnar væru smíðaðar hjer, því að þá færi 700 þús. kr. minna út úr landinu en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Fleiri kosti mætti telja, t. d. það, að það er töluvert erfitt fyrir þá, sem fást við þennan atvinnuveg, að panta tunnurnar í óvissu; þeir verða að fara eftir áætlun um það, hve mikið þeir muni þurfa af tunnum. Væru tunnuverksmiðjur hjer til, þá gætu þær orðið nokkurskonar forðabúr í þessum efnum; síldarútflytjendur gætu pantað tunnurnar jafnóðum og þörf væri fyrir þær. Jeg hefi líka oft heyrt kvartað undan því, að síldarmarkaðurinn yfirfyllist snögglega, og hefir því verið um kent, að of mikið væri flutt út af síld í einu. En það kemur meðal annars af því, að síldin er send út með skipum þeim, sem flytja tunnurnar inn í landið. Ef ekki þyrfti að miða útflutninginn við þessi skip, þá mætti haga sendingunum eftir hentugleikum. Allir geta líka sjeð, að skiprúm sparast mikið með þessu, því að efnið í tunnuna tekur minna pláss í skipinu en tilbúin tunna. Að vísu er stundum flutt inn salt í tunnunum hingað, og kemur þá rúmið að notum, en það er ekki nema lítill hluti af öllum síldartunnum, sem salt er flutt inn í. Þá hefi jeg heyrt kvartað undan því, að hinar útlendu tunnur væru mismunandi að stærð, og ylli það óánægju hjá hinum útlendu kaupendum. Með innlendri tunnuverksmiðju mætti girða fyrir þetta.

Ef þessi atvinnugrein næði hjer þroska, þá mundi fara svo í framtíðinni, að einnig kjöttunnu- og lýsistunnugerðin færðist inn í landið, því að allar þrjár tunnutegundir er hægt að vinna í sömu verksmiðjum.

Jeg vænti þess, að hv. deild sinni þessu máli og líti á það með fullri sanngirni. Mjer er ánægja að því að gefa háttv. þm. þær upplýsingar um þetta mál, sem jeg get, á milli funda, ef þeir æskja þess, en hinsvegar sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það hjer í deildinni.