11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Nafn mitt er tengt við fjórar brtt. í þeim kafla fjárlagafrv., sem nú er til umr. Tvær þeirra fara fram á aukin gjöld úr ríkissjóði, en hinar tvær lúta að sparnaði á fje hans. Gjaldatill. nema til samans 7 þús. kr., en sparnaðartill. 21 þús. kr. Þegar jeg nú hefi lagt svona rösklega inn í viðskiftareikning minn við ríkissjóðinn, vonast jeg eftir, að vel verði tekið þessum litlu gjaldatill. mínum og þær ekki taldar eftir.

Jeg skal fyrst víkja nokkrum orðum að fyrri gjaldatill. Hún er undir rómverskum 42 á þskj. 336 og er um 1000 kr. styrk til Þórarins Jónssonar tónlistarnema í Berlín.

Við 2. umr. fjárlagafrv. flutti jeg brtt. um 1200 kr. styrk handa þessum manni, en hún fjell þá með litlum atkvæðamun. Jeg tel enga þörf að endurtaka það, sem jeg taldi þá þessum manni til gildis, en vil geta þess, sem er skylt að minnast og frægilegt er, að honum hefir, vegna afburðahæfileika og færleika í íþróttinni, verið boðið til Parísar til þess að vera þar. við hljómleika, sem sumpart eru hans verk. Boðinu varð hann að hafna vegna efnaskorts, en stjórn hljómleikafjelagsins ljet eigi við það staðar numið og sendi honum skotsilfur til fararinnar. Þess vegna dvelur Þórarinn líka sem stendur í París við hljómleika þessa, sem fram fara um miðjan þennan mánuð. Jeg vænti, að þetta verði í síðasta sinn, sem farið verður fram á styrk handa Þórarni í þessu efni, einkum þó ef hv. þdm. vildu nú veita honum þessa litlu hjálp, því að með því móti kynni hann að geta á næsta sumri náð takmarki því, er hann keppir að, og lokið námi.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða frekar um þetta, en skal þó geta þess, að jeg hefi hjer fyrir framan mig tvær af tónsmíðum Þórarins, sem söngfróður maður hjer í bæ lánaði mjer, og lýkur hann lofsorði miklu á þær. Tónverk þessi geta þeir fengið að athuga, sem vilja, og þeir, sem á hljóðfæri kunna, geta fengið þau lánuð, og er þeim kostur ger að æfa þau og ganga úr skugga um íþrótt höfundarins.

Seinni gjaldatill. er undir rómverskum 53 og fer fram á 6000 kr. fjárveitingu til húsabóta á Hallormsstað.

Þessi brtt. lá fyrir við 2. umr. fjárlagafrv., en var tekin þá aftur í því skyni, að háttv. fjvn. gæti kynt sjer málið betur.

Jeg ætla ekki að fjölyrða neitt um þessa till., ástæðum var öllum lýst við 2. umr. Hjer er um svo sjálfsagðan hlut að ræða, að um það ætti jafnvel ekkert að þurfa að standa í fjárlögum. Ríkið ætti að sjálfsögðu og án eftirgangsmuna að byggja þarna nothæf húsakynni, þar sem það á jörðina og skóginn, með skógræktarstöð og nýrækt. Hjer er líka mjög í hóf stilt um fjárveitingu, enda ekki um að ræða að byggja stórt, heldur ætlast til með þessu, að hægt verði að fella niður þá æfagömlu baðstofu, sem þarna stendur og er nú svo hrörleg orðin, að ekki getur lengur talist neinum boðleg til íbúðar, en fá ígildi hennar í nýju húsi.

Þá kem jeg að sparnaðartill. Sú fyrri er undir rómverskum 51, en hv. 1. þm. N.-M. (HStef) flytur hana með mjer.

Með þessari brtt. leggjum við til, að feldur verði niður 20 þús. króna styrkur til vegagerðar í Vestmannaeyjum. Því hefir verið haldið fram, að þessa fjárveitingu beri ekki að skoða eins og styrk til vegagerðar alment, heldur eins og styrk til ræktunarstarfsemi Vestmannaeyinga. Á yfirstandandi ári eru veittar 26250 kr. til þessarar sömu vegagerðar í Vestmannaeyjum. Þessi vegagerð á að vera í því skyni gerð, að letta kaupstaðarbúum flutning áburðar frá kaupstaðnum suður fyrir Helgafell, en þar er byrjuð útrækt nokkur, og eru þar allgóð skilyrði til aukningar henni. Þeir, sem komið hafa til Vestmannaeyja, vita, að hjer er aðeins um lítinn vegarspotta að ræða, og því er það næsta undarlegt, að samkomulag skuli hafa fengist um að leggja svona mikið fje af mörkum. Öll Heimaey er lítið stærri en meðalbújörð í sveit, og aðeins um nokkurn hluta hennar á að leggja veginn, veg, sem er líklega 11/2 km. að lengd og á að kosta 46–47 þús. kr. frá ríkissjóði. Þó að jeg leiti um öll fjárlögin, finn jeg enga upphæð, sem er jafnmikil fjarstæða og þessi vegagerðarstyrkur í Vestmannaeyjum. Það er því líkast, að við sveitabændurnir færum að biðja um 40–50 þús. kr. úr ríkissjóði til þess að leggja engjavegi á einstökum jörðum eða stekkjargötur. Vænti jeg því, að allir, sem nokkuð þekkja til í Vestmannaeyjum, standi með mjer um að fella niður þennan styrk úr fjárlagafrv. Hirði jeg ekki um að hafa þessi viðvörunarorð fleiri og læt skeika að sköpuðu, hvernig fer um brtt. þessa.

Hin sparnaðartill. mín er undir rómverskum 56. Hún lýtur að því að fella niður helming þess fjár, sem í 16. gr. undir 30. lið er fyrirhugað tveimur konum, sem fengist hafa við kenslu í vefnaði og hannyrðum. Jeg legg til, að styrkurinn til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal í Mjóanesi falli niður, af því að hún hefir fengið sjerstakan styrk til að halda uppi húsmæðrafræðslu, eftir 14. gr. Þarf jeg ekki frekar um þessa till. að ræða og hefi þá minst á þær fjórar brtt., sem nafn mitt er tengt við í þetta sinn.

En fyrir hönd sjútvn. verð jeg að gera nokkra grein fyrir LV. brtt. á þskj. 336. Með henni leggur sjútvn. til að hækka að miklum mun fjárveitingu til markaðsleitar, eða úr 5 þús. kr. upp í 30 þús. kr. Jeg get vel skilið, að hv. þdm., sumir hverjir, líti þessa till. óhýru auga og þyki fjárhæð þessi of mikil. En jeg bið alla hv. þdm. að athuga, að eftir það verðhrun, sem orðið hefir á sjávarafurðum sjerstaklega síðustu missirin, er okkur lífsnauðsyn að finna upp nýjar markaðsleiðir.

Ýmsar sjávarafurðir hafa á síðasta ári fallið í verði um 20–30%, t. d. Labradorfiskur o. fl. Á síðustu verslunarskýrslum, frá 1924, nemur fiskútflutningur alls um 70 miljónum kr., og aðeins 10% verðfall af því nemur 7 miljónum. Ef sama verðfalli heldur áfram, þá munar þetta svo miklu, að efnalegri afkomu landsmanna er hætta búin. Þegar svo mikið er í húfi, held jeg, að það geti ekki talist neinar öfgar eða goðgá, þótt sjútvn. leggi til, að talsvert stærri fjárhæð verði varið í þessu skyni en venja hefir verið áður.

Nefndin hefir borið þessa brtt. fram í 3 stafliðum, til þess að hv. þdm. eigi hægra með að sundurliða þetta og geti metið með sjálfum sjer, hver liðurinn eða tilraunin eigi mestan rjett á sjer.

Fyrsta till. nefndarinnar er sú, að 12 þús. krónur veitist til fisksölutilrauna í Suður-Ameríku. Það hefir verið margleitað til nefndarinnar um fjárveitingu í þessu skyni. Og nú síðast hefir verið farið fram á 15 þúsund krónur af fisksölufjelagi nokkurra íslenskra botnvöruskipaeigenda, sem tilraun gera um flutning fiskjar til Suður-Ameríku, og hefir nefndin fallist á að bera fram till. um 12 þús. kr. til til stuðnings þessu eða öðru fjelagi í því skyni. Nefndin lítur svo á, eftir þeim upplýsingum að dæma, sem hún hefir aflað sjer, að búast megi við allgóðum árangri af þessum sölutilraunum, og að fjárveiting þessi muni geta komið að miklu gagni, ef vel er á haldið, því að bersýnilega er markaðurinn á Spáni að offyllast.

Í öðru lagi leggur nefndin til, að veittar verði 10 þús. krónur til útbreiðslu síldarmarkaðs, sjerstaklega í Mið-Evrópulöndunum svo og Finnlandi. Um 15 þús. króna fjárveitingu í þessu skyni hefir sótt maður, sem dvalið hefir hjer um þingtímann, Ottó Tulinius, og með beiðni hans hefir sjútvn. mælt til fjvn., en hún einhverra hluta vegna ekki treyst sjer til að sinna beiðninni á neinn veg. Af þeim ástæðum hefir svo sjútvn. borið fram till. þessa.

Ýmsir líta svo á, að ekki muni mikil afrek unnin verða fyrir þessa fjárupphæð, og miða það við eldri tilraunir. Þeir segja, að það, sem gert hefir verið til þess að útbreiða síldarverslun á síðari árum, hafi engan eða lítinn árangur borið. Þetta mun rjett vera, en þess ber þó að gæta, að þær ferðir, sem farnar hafa verið í þessu skyni, hafa verið snöggar eftirlitsferðir. Erindrekarnir hafa oftast brugðið sjer snögga ferð til Þýskalands eða Eystrasaltslandanna, og hafa engin tök á því haft að gera verulegar sölutilraunir, enda af vanefnum gerðar tilraunir þeirra.

Nú er áformað, að þessi maður hafi fasta útsölustaði í Mið-Evrópulöndunum og Finnlandi og dvelji þar öðru hvoru. Með því veitist honum betri aðstaða til þess að vinna þessu máli gagn en hægt hefir verið áður. Þessi upphæð — 10 þús. krónur — er ekki há í samanburði við það, sem ætla má að vinnist á aukinni síldarsölu.

Markaður fyrir íslenska síld er mjög takmarkaður. Jeg hygg, að það sje um 150 þús. tunnur, sem flutt hefir verið út af íslenskri síld árlega undanfarið, og að það sje það mesta, sem ætla má, að hægt hafi verið að selja með nokkurri hagnaðarvon. Væri nú hægt að útvega markað fyrir 10 þús. tunnur í viðbót, þá mundi útflutningsgjaldið eitt af þeim gera betur en nægja til þess að greiða þann kostnað, sem farið er fram á með till. Af þessu er auðsætt, að útflutningurinn þyrfti ekki að aukast mikið til þess, að ríkissjóður hagnaðist til muna, en hitt er þó meira vert, að stopul atvinna margra landsmanna mundi við það verða tryggari. Jeg held, að það sje því meiri ástæða til þess að styðja þessar tilraunir, sem meiri líkur eru til, að fleiri en áður stundi síldveiðar á næstu árum. Þessar líkur eru í því fólgnar, að austanlands hefir verið gert meira að síldveiðum síðasta ár en um langt skeið á undan. Á síðasta ári var þar síldargengd töluvert mikil, og fjöldi manna aflaði sjer veiðarfæra og er nú við því búinn að veiða, ef síldarganga verður eins öðru sinni. Eins og kunnugt er, voru Austfirðir fyrir aldamótin eitt veiðisælasta svæðið við strendur landsins, þótt lítið hafi verið um síldveiði þar síðustu tvo áratugina.

Undir 3. staflið er lagt til, að veittar verði 8 þús. kr. vegna annarar markaðsleitar en þeirra nafngreindu og staðbundnu, og eru þá sjerstaklega hafðar í huga eftirgrenslanir viðvíkjandi sölu landbúnaðarafurða, jafnhliða því, að komið gæti til greina, — eftir erindi, sem legið hefir fyrir sjútvn., — að gera tilraun í Portúgal um sölu íslenskra sjávarafurða. Það hefir svo kynlega til tekist, að þótt mikið hafi verið flutt af íslenskum sjávarafurðum til Miðjarðarhafslandanna seinni árin, þá hefir sala á íslenskum fiski farið þverrandi í Portúgal, þrátt fyrir það, að innflutningur á fiski frá öðrum löndum til Portúgals hefir aukist yfirleitt mikið og fiskneysla þar í landi.

Það má vitanlega segja, að þar sem fulltrúi Íslands býr suður á Spáni, þá ætti hann að geta unnið að þessari sölutilraun í nágrannalandinu. Og jeg vil vona, að hann geri þá eitthvað til þess að styðja að útbreiðslu íslensks fiskjar í þessu nágrannalandi við Spán. En hvernig sem því er varið, þá hefir sala þangað farið minkandi síðustu árin. Má vel vera, að eitthvað sje rjett í því, sem einn af umsækjendum um styrk til markaðsleitar hefir bent á, að setja þurfi upp fastar útboðsstöðvar í Portúgal, ef trygging eigi að vera fyrir útbreiðslu.

Jeg hefi þá lauslega minst á þessar till. nefndarinnar og gert nokkra grein fyrir þeim. En jeg vil taka fram að lokum, að ef hv. þdm. geta ekki fallist á að styðja allar þessar tillögur sjútvn., þá lítur hún svo á, að mestu skifti um stafliðina a. og b.

Af ásettu ráði hefir nefndin ekki viljað binda þessar fjárveitingar við nafn, en hinsvegar talið sennilegt, er til þess kemur að fjeð verður notað, að þá verði þessir hlutaðeigendur, sem jeg í framsögu nefndi, aðnjótandi fjárins. Jeg viðurkenni, að óhjákvæmilegt er, að stjórnin hafi eftirlit með úthlutun fjárins og síðustu ákvörðun um það, hverjir njóti þess. Það getur margt breyst áður en kemur til greiðslu þessara upphæða, sem geri það að verkum, að jafnvel aðrir aðiljar gætu fremur komið til greina heldur en þeir, sem áður hafa nefndir verið. En nefndin lítur svo á, að sem stendur sjeu þessir aðiljar líklegastir.

Jeg skal ekki tefja tímann lengur. Það mun komið að þeim tíma, er ákveðið var að slíta fundi. En vera má, að jeg þurfi að víkja að þessu síðar.