12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Það eru hjer nokkrar brtt., sem jeg er riðinn við. Jeg vildi þá fyrst minnast á XXIX. brtt. á þskj. 336, um hámark skólagjalds. Stendur sú till. í sambandi við II. till. á sama þskj. Það er ekki þörf að fylgja þessari till. úr hlaði með mörgum orðum, enda geri jeg ekki þessa till. að neinu kappsmáli, en jeg lít svo á, að 100 kr. nú sje eins mikil upphæð og 150 kr., þegar hámarkið var sett. En sú brtt., sem jeg legg mikla áherslu á, er XXXIII. brtt. á þskj. 336, um 35 þús. kr. til húsmæðraskóla Norðurlands. Það urðu allmiklar umr. um þessa till. við 2. umr. fjárlagafrv., og skal jeg ekki endurtaka nú það, sem jeg sagði þá, en jeg vildi aðeins minna á það, að til eru lög frá 1917, um að stofna skuli húsmæðraskóla á Norðurlandi, undir eins og dýrtíðin minkaði. Nú hefir dýrtíðin minkað svo mikið frá því 1917, að tími virðist vera kominn til þess að hefjast handa um þessa skólastofnun. Alt bendir á það, að hv. þm. sjeu hlyntir aukinni húsmæðrakenslu í landinu, og þá ekki hvað síst það, að samþyktur var við 2.umr. fjárlagafrv. styrkur til söfnunar nýs skóla, sem sje Laugaskólans, enda þótt vitanlegt væri, að skólastofnun sú er alls óundirbúin. Nú liggur fyrir hv. Ed. frumvarp um stofnun húsmæðraskóla á Austurlandi. Er það sönnun þess, að hv. þm. líta svo á, að nauðsyn beri til að auka húsmæðrakensluna í landinu. En sje svo, þá á fyrst og fremst að byrja á því að efna gömul loforð og stofna nú húsmæðraskóla Norðurlands. Væri það æði óviðkunnanlegt, ef þingið hlypi nú til að stofna nýjan skóla á Austurlandi, en ljeti sig engu skifta 10 ára gamalt loforð um stofnun húsmæðraskóla Norðurlands. Eina ástæðan fyrir því, að ekki hefir verið krafist fyr fjárframlags úr ríkissjóði til húsmæðraskóla Norðurlands, er sú, að það þótti nokkuð langt gengið, meðan að ríkissjóður styrkti svo rausnarlega byggingu heilsuhælis Norðurlands, að krefjast þá jafnframt ríflegs framlags til byggingar húsmæðraskóla. Og var það almenn skoðun manna, að heilsuhælið ætti að ganga fyrir. Það er því algerlega rangt, sem sumir hv. þm. hafa viljað halda fram, að Norðlendingar hafi sýnt tómlæti í þessu máli. Þeir vildu aðeins ekki ganga of langt í kröfum sínum um fjárframlag ríkissjóðs, en nú, þegar hv. Alþingi vill stofna til nýrra skóla, þá er sú ástæða, sem var fyrir því, að ekki var krafist fjárframlags, fallin niður. Jeg hefi fulla ástæðu til þess að ætla, að hv. deild, þar sem hún er nýbúin að samþykkja stofnun nýs skóla, setji sig ekki upp á móti þessari skólastofnun, sem hjer er um að ræða, einkum þegar á það er litið, að 35 þús. kr. koma á móti ríkissjóðsstyrknum. Er í því efni ólíku saman að jafna, Laugaskólanum og húsmæðraskóla Norðurlands. Eins og hv. þm. hafa sjeð, þá hefi jeg borið till. fram í 2 liðum, höfuðlið og varalið. Af því má sjá, að mjer er síður en svo nokkurt kappsmál að koma í veg fyrir stofnun Laugaskólans, en hins krefst jeg, að loforðið frá 1917 sje látið ganga fyrir, ef hv. þdm. sjá sjer ekki fært að styrkja byggingu beggja skólanna.

Þá á jeg ásamt hv. 1. þm. Reykv. (JakM) brtt. á sama þskj. undir XL. tölulið, um 2000 kr. til Freymóðs Jóhannssonar málara til þess að fullnuma sig í leiktjaldamálun. Maður þessi er þektur hjer í bæ og víðar, en þó sjerstaklega á Norðurlandi. Jeg er enginn listdómari, en þeir, sem vit hafa á, ljúka lofsorði á list hans, en þó sjerstaklega á leiktjaldamálun hans, enda mun hann fremstur manna hjer á landi í þeirri grein málaralistarinnar. Það hefir verið rjettilega tekið fram af hv. 1. þm. Reykv., að það er nauðsynlegt, er þjóðleikhúsið er komið upp, að hjer sje einhver, sem kann skil á þessari grein málaralistarinnar, og jeg hygg, að enginn maður hjer á landi sje líklegri til að verða fremstur á þessu sviði en einmitt þessi maður. Maðurinn er auk þess mjög duglegur, hefir brotist áfram af eigin rammleik og meðal annars farið víða um lönd til þess að sjá og læra það, sem að list hans lýtur.

Þá hefi jeg borið fram ásamt hv. þm. Str. (TrÞ) brtt. á sama þskj. undir tölulið XLVIII, um 2000 kr. styrk til Barða Guðmundssonar til lokanáms í íslenskri sögu við Hafnarháskóla. Barði Guðmundsson er þegar orðinn talsvert frægur fyrir það, sem hann hefir unnið að íslenskri sögurannsókn. Það má að vísu segja um hann, að hann hafi ekki getið sjer mikinn orðstír sem námsmaður, en hinu verður ekki móti mælt, að hann er óvenjumikið fræðimannsefni. En hann er einn þeirra kynlega kvista, sem fæðst hafa hjer öldum saman og eiga erfitt með að sökkva sjer niður í ákveðin fög og læra þau eins og páfagaukur, en eru leitandi og með sjálfstæðan rannsóknarhug. Væri það ilt verk að bregða fæti fyrir það, að slíkir menn geti gert vísindalegar rannsóknir að lífsstarfi sínu, og þó einkum norræn fræði. Hitt væri frekar Alþingi vegsauki, að styrkja slíka menn. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að það liggja fyrir mjög lofsamleg ummæli margra merkra fræðimanna erlendra um það, sem Barði Guðmundsson hefir lagt til norrænna fræðimála. — Jeg skal fúslega játa, að þar sem um svo margar styrkbeiðnir er að ræða, bæði nú og við 2. umr. fjárlagafrv., þá er erfitt að gera upp á milli manna og sjálfsagt að fara varlega í því að auka á útgjöld ríkissjóðs. En þó að sparsemi sje góð, þá má þó ekki fara svo langt í henni, að þjóðin bíði af því tjón. En starf Barða Guðmundssonar er þegar orðið svo gott og gagnlegt í þágu íslenskrar sagnfræði, að því má fyllilega treysta, að hann vinni fyllilega fyrir þessum 2000 kr., þótt það, sem er gert þessari þjóð helst til sóma, sje sjaldnast metið óþarflega hátt til fjár.

Þá hefi jeg ásamt tveim öðrum hv. þm. flutt brtt. LXII, við 18. gr. II, e. 10., um nokkra hækkun á eftirlaunum Páls Árdals á Akureyri. Jeg flutti þessa till. nokkru hærri, eða 1500 kr., við 2. umr., en þá náði hún ekki fram að ganga. Því hefir okkur flm. komið saman um að lækka hana nú niður í 1200 kr., og jafnvel niður í 1000 kr. til vara. Jeg hygg, að öllum hljóti að koma saman um, að hjer sje sanngirniskrafa á ferðum. Mun jeg ekki tala frekar fyrir henni að sinni, en læt hv. þd. um það, hvort hún vill, að þessi maður, sem verið hefir barnakennari yfir 40 ár og vegaverkstjóri um langt skeið, svelti nú á gamals aldri, þegar hann er orðinn farinn að heilsu og blindur.

Þá á jeg brtt. LXXVI á sama þskj., um að heimila landsstjórninni að veita alt að 75 þús. kr. lán til hafnarbóta á Akureyri. Jeg þarf ekki heldur að vera langorður um þessa till. Á þingi 1925 flutti jeg till., um að ríkissjóður ábyrgðist nokkru hærra lán, sem Akureyrarkaupstaður ætlaði að taka í sama skyni. En um þessa ábyrgð var neitað, þótt undarlegt megi teljast. Svo stendur á, að Akureyri þarf nauðsynlega að láta gera skipakví, og liggur fyrir áætlun um, að verkið mundi kosta um 330 þús. kr. Bærinn á talsvert fje handbært, en gat þá fengið það, sem á vantaði, sem góðum kjörum, ef hann hefði trygga ábyrgð. Því fór hann fram á ábyrgð ríkissjóðs á alt að 150 þús. kr. láni, en um hana var neitað, svo sem jeg sagði. Síðan hefir hagur bæjarins batnað svo, að honum nægir 75 þús. kr. lán. Það hefir oft verið haft á móti lánum úr viðlagasjóði, að strax, þegar búið er að veita þau, sje komið og beðið um eftirgjöf. Ekkert slíkt kemur hjer til mála. Akureyri mun vera best stæð af öllum kaupstöðum á landinu, á ca. 1 miljón króna í skuldlausum eignum. Þess vegna er engin áhætta að veita þetta lán.

Loks þarf jeg að minnast á VII. brtt. á þskj. 345, sem jeg flyt ásamt tveim öðrum þm. Þar er farið fram á alt að 70 þús. kr. lán til Bræðranna Esphólín á Akureyri, til að koma á fót tunnuverksmiðju á Siglufirði og endurbæta tunnuverksmiðju á Akureyri. Það er langt síðan jeg fór að hugsa um þetta mál, og hefi jeg skrifað um það fyrir mörgum árum. Jafnvel hefi jeg gert miklar tilraunir til að koma einhverju svipuðu á fót, en ekki tekist sökum fjeskorts. Jeg býst við, að það verði verði líka seint hægt, nema með lánum eða annari aðstoð ríkissjóðs. Um það verður ekki deilt, að bráðnauðsynlegt er að koma þessum iðnaði upp í landinu. Fjöldi manna bæði á Akureyri og Siglufirði fæst við tunnuviðgerðir á sumrin, en hefir ekkert að starfa að vetrinum. Ef þessum tunnuverksmiðjum verður komið upp, hafa þeir þar atvinnu alt árið. Auk þess er ekki hundrað í hættunni að heimila lánið; stjórnin getur neitað að greiða það af hendi, ef henni sýnast ekki nægar tryggingar. Mjer finst yfirleitt, að Alþingi ætti að fara varlega í að neita um svona lánsheimildir, einkum þegar þeirri stjórn er á að skipa, sem treysta má, að fari gætilega með fjármál ríkisins.

Að endingu langar mig aðeins til að minnast á brtt. LV, b-lið, á þskj. 336, sem er um fjárveitingu til markaðsleitar fyrir síld. Jeg hygg, að það sje rjett, að árangur af samskonar fjárveitingu í fyrra hafi orðið minni en við var búist, en nú stendur nokkuð öðruvísi á. Eins og allri háttv. þd. er kunnugt, voru samþ. á Alþingi í fyrra lög um stofnun síldarsamlags. Þau hafa enn ekki komist til framkvæmda, en það má telja víst, að síldarsamlagið verði stofnað annaðhvort á þessu ári eða hinu næsta. Þessi fjárveitingstendur nú í fjárlagafrv. fyrir 1928 og verður ekki útborguð fyr en það ár, en þá geri jeg ráð fyrir, að henni verði varið til að hjálpa síldarsamlaginu af stokkunum. En handa því er þessi styrkur ekki aðeins æskilegur, heldur einnig nauðsynlegur, því að stjórn þess hefir ekkert fje til umráða fyr en komið er fram á sumar og síldin er farin að seljast. Þetta verður því til að ljetta undir með stjórn þess, þannig, að hún getur byrjað tilraunir sínar til markaðsleitar fyr en ella.