26.02.1927
Efri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Jóhannes Jóhannesson:

Ef það atriði í breytingunum á ákvæðum 21. greinar þessa frv., sem hjer liggur fyrir, nær samþykki, að hreppsbúar kjósi þá innansveitarmenn, sem endurskoða eiga sveitarsjóðsreikningana, í staðinn fyrir að hreppsnefndin kjósi þá, þá yrði að halda hreppsfund milli 15. og 20. febr., til þess að kjósa mennina. Býst jeg við, að það þætti mjög óheppilegur tími til sveitarfundarhalds. Að minsta kosti mundi þeim ekki þykja æskilegt að sækja fund á þessum tíma, sem telja óhæft að hafa kjördag fyrsta vetrardag.

Jeg held því, að það sje ekki svo auðhlaupið að því að gera þessa breytingu eins og mönnum kann að virðast í fljótu bragði.