12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Auðunn Jónsson:

Það er svo, að jeg á fáar brtt. við fjárlagafrv. nú sem oftar. Ekki af því, að mitt hjerað þurfi síst fjárframlaga við. Það er öðru nær. Það má heita símalaust, vegalaust og svo að segja vitalaust. En sími, vegir og vitar eru þægindi, sem flest önnur hjeruð njóta að einhverju leyti, þótt ekki sje öllum kröfum fullnægt.

Jeg er ekki fús til að bera fram till., þótt nauðsynlegar sjeu. Öllum sem um hugsa, hlýtur að vera það ljóst, að það verður að halda í og lækka útgjöld ríkissjóðs. Við getum ekki haldið út til lengdar með 12–13 milj. kr. útgjöld á ári, eins og atvinnulífi þjóðarinnar er háttað.

Það, að Norður-Ísafjarðarsýsla mun vera með þeim hjeruðum, sem minst hafa fengið úr ríkissjóði, og langminst miðað við tillög þess hjeraðs til ríkisþarfa, stafar af því, að þeir mætu menn, fyrirrennarar mínir, þingmenn þessa kjördæmis, hafa látið sjer um annað annara en skara eld að köku síns hjeraðs. Og enda þótt mjer detti ekki í hug að mæla mig við þá að skörungsskap og þekkingu á stjórnmálum, fylgi jeg þó þessari stefnu þeirra um að fara gætilega í allar fjárkröfur. Norður-Ísfirðingar skilja allra manna best hverja þýðingu það hefir að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Held jeg, að óvíða sjeu jafnmargir raunverulegir sjálfstæðismenn sem vestur þar.

Þó hefi jeg ekki komist hjá að bera fram tvær till., sem horfa til útgjalda fyrir ríkissjóð, en þó báðar smávægilegar. Önnur er sú, að veita prestinum á Ísafirði nokkurn húsaleigustyrk. Nú segja menn, að þetta gæti orðið fordæmi til frekari fjárveitinga í þá átt. En svo er ekki að minni hyggju. Af öllum kaupstöðum utan Reykjavíkur eru Akureyri og Ísafjörður þeir einu, sem ekki hafa neitt fast prestssetur. Alstaðar annarsstaðar eru til jarðir til afnota fyrir sóknarprestinn. Ástæðan til þess, að jeg og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) berum fram þessa till., er sú, að presturinn á Ísafirði hefir hvað eftir annað orðið að hröklast úr einu húsnæðinu í annað, og loks, er hann átti ekki kost á neinni viðunandi íbúð, varð hann að ráðast í það, af engum efnum er mjer óhætt að segja, að kaupa hús til þess að tryggja sjer að geta verið í kaupstaðnum, svo sem embættisskylda hans býður honum. En er hann hafði keypt þetta hús, reyndist það honum ofurefli að standa straum af því efnalega, og varð hann því að selja það aftur.

Nú hefir hann á ný keypt hús utarlega í bænum. Liggur það ágætlega sem prestssetur, í útjaðri bæjarins, með dálitlum túnbletti í kring. En vegna fjárhagsvandræða sjer hann sjer ekki fært að halda því, nema honum komi þar til aðstoð. — Jeg held, að engir embættismenn eigi eins erfitt uppdráttar og prestar í kaupstöðum eins og Ísafirði, sem ekkert hafa við að styðjast, nema laun sín og aukatekjur, oft sáralitlar og misjafnlega vissar meðal fátæks almennings. Þessi prestur kom til safnaðar síns bláfátækur og með námsskuldir á baki. Og prestar hafa ekki þau laun, að þeir geti rjett við af embætti sínu einu saman. Við flm. hefðum gjarnan viljað flytja till. um, að húsið yrði keypt handa sóknarprestinum í þessu prestakalli. En jeg hygg, að það hefði ekki fengið góðar undirtektir, samanber úrslit málsins áður. Því höfum við valið þessa leið, að fara fram á lítilfjörlegan styrk, til þess að hann gæti þá haldið húsinu, sem getur orðið væntanlegt prestssetur, er stundir líða.

Þá er hin till., sem jeg flyt ásamt háttv. þm. Str. (TrÞ), um eftirgjöf vaxta og greiðslufrest á afborgunum af hallærisvarnalánum tveggja hreppa. Jeg hygg svo líkt sje á komið með þessum hreppum, að ekki verði gert upp á milli þeirra. Háttv. deildarmönnum er kunnugt um ástæður fyrir þessari beiðni frá því á þingi 1924, og hirði jeg ekki um að endurtaka þær nú. En jeg skal geta þess, að ef lagður yrði sími, eins og allra hluta vegna er nauðsynlegt, norður til Snæfjallastrandar og þaðan til Grunnavíkur, þá er fallin burt ástæðan til þess að veita Grunnavíkurhreppi þessa eftirgjöf. Vegna símaleysis má heita, að aðalbjargræðisvegur hreppsins sje eyðilagður af togurum, er sækja á mið hreppsbúa, en ekki er hægt að segja til þeirra, því að frek hálf önnur dagleið er til næstu símastöðvar. En lega Jökulfjarðanna er svo, að þangað sjest ekki annarsstaðar frá, og þessir ránsmenn koma aðeins, þegar svo er vont veður, að ófært er smábátum á sjó að fara til þess að ná í síma, sem er mun fljótlegra, ef hægt er að fara sjóleiðina.

Þá ætla jeg að minnast örfáum orðum á till. háttv. sjútvn. um bygging radiovita. Till. hæstv. stjórnar um að byggja vita á Horni var feld með miklum atkvæðamun, og er þó kunnugt, hve nauðsynlegt er að fá þar vita, vegna siglinga norður um og fiskimiða þar undan landi. Á síðustu árum hefir verið afli mikill undan Horni, en þessi fiskimið verða helst ekki notuð vegna vitaleysis. Við lítum svo á, að varla sje forsvaranlegt, að vitagjaldið sje notað til annara þarfa en siglinga. Er því við brugðið, að Spánn einn allra ríkja í Norðurálfu notar vitagjöldin til annara ríkisþarfa, en ekki eingöngu til víta og annara þarfa siglinganna. Spánn hefir hæst vitagjöld allra landa í álfunni, og þótt það lendi nokkuð á landsins eigin börnum, þykir ganga ósvinnu næst að láta vitagjöldin ganga til annars en styrktar siglingum.

Jeg verð að líta svo á, að vegna fjárhags ríkissjóðs, — þó sæmilegur sje nú í bili, þá mun honum frekar hraka í framtíðinni, — mætti vel við það una í bráðina að setja upp miðunarstöð í sambandi við loftskeytastöðina í Vestmannaeyjum, meðan reynsla er að koma fyrir notum radiovita erlendis. Mundu flestir hlutaðeigendur geta sætt sig við þá úrlausn málsins til bráðabirgða. Slík miðunarstöð ætti ekki að kosta mikið, en halda yrði loftskeytastöðinni í Vestmannaeyjum opinni allan sólarhringinn, til þess að skip geti fengið vitneskju um afstöðu sína hvenær sem er. Flest skipströnd verða við Suðurland og þá við landtöku. Það er vitanlegt, að ekki mundi „Eiríkur rauði“ hafa strandað austur á Söndum, ef miðunarstöð hefði verið í Vestmannaeyjum. Miðunarstöð í Vestmannaeyjum mundi fyrst um sinn nægja og ljetta og gera öruggari landtökuna, sem öllum skipum er erfið eins og er.

Við verðum að færa niður útgjöld ríkissjóðs og það svo, að þau á næstu árum komist niður í 5–6 miljónir árlega. Atvinnuvegirnir þola ekki meiri gjöld til ríkissjóðs en það.