12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Jeg á eina litla tillögu á þskj. 336, XLIII. Vlð 2. umr. flutti jeg brtt. í sömu átt, um 1500 króna styrk til Guðmundar Kristjánssonar. Hún fjekk litla áheyrn hjá hv. deild, en með því að mjer virðist, að þessi till. eigi að minsta kosti eins mikinn rjett á sjer og margar aðrar slíkar till., hefi jeg borið hana fram aftur, þó þannig breytta, að jeg hefi lækkað upphæðina niður í 500 kr. Mjer þykir líklegt, að svo fari, að eitthvað af styrkjum til einstakra manna nái samþykki, og vona jeg, að þessi till. verði á meðal þeirra, ekki síst þar sem jeg hefi lækkað upphæðina svo mjög.

Jeg þarf ekki að rekja sögu þessa unga manns. Hann er, eins og kunnugt er, af bláfátæku fólki kominn. Hann hneigðist snemma til sönglistar, en eftir að hann er kominn út á þessa braut með tilstyrk góðra manna, veikist faðir hans og stendur þess vegna mjög illa að vígi með að styrkja son sinn. Í fyrra gerði jeg tilraun til þess að fá styrk handa Guðmundi, en það fyrirfórst af vissum ástæðum, svo að tillaga mín kom ekki til atkvæða. Nú hefir aðstaða hans versnað mikið. Jeg býst reyndar við, að þetta sje svipuð saga og margir aðrir námsmenn hafa að segja, en sem sagt liggur við borð, að þessi efnilegi maður verði að leggja námið á hilluna, ef hann fær nú ekki þennan styrk. Jeg býst ekki við, að hann fái neitt af þeim styrk, sem stjórnin úthlutar, einkum vegna þeirra skilyrða, sem nú fylgja honum, og því eru engin önnur ráð en þau, að háttv. deild vilji nú leggja þessu lið.

Jeg býst ekki við, að það þýði að tala meira um þetta. Hv. deild getur gert sjer grein fyrir, hvernig þessum mönnum líður, þegar þeir eru langt í burtu frá ættjörðu sinni og sjá ekki fram á annað en að þeir verði að hætta námi og ef til vill svelta heilu hungri.

Þá hefi jeg einnig endurtekið till. mína um lán til Borgarneshrepps. Hún er á þskj. 336,LXXII. Jeg held jeg hafi gert grein fyrir þessari till. við 2. umr., eins og nauðsynlegt var. Þó skal jeg geta þess, að þetta er aðeins endurbygging. Stöðina sjálfa þarf að endurbyggja og gera fullkomnari en hún áður var, sökum þess að það liggur fyrir hendi aukin þörf fyrir ljós, sjerstaklega þegar höfnin verður endurbætt þar. — Jeg vænti þess, að hv. þdm. leggi þessari till. liðsinni, þar sem ekki er um styrk eða bein útgjöld að ræða. Og um leið og jeg flyt þessi fáu orð fyrir till., vil jeg leyfa mjer að þakka hæstv. atvrh. fyrir það liðsyrði, sem hann er þegar búinn að leggja þessari tillögu.