12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

21. mál, fjárlög 1928

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer eina till. undir LXX. lið. Það er lánbeiðni til fyrirhugaðra læknisbústaða í Flatey á Breiðafirði og í Reykhólahjeraði. Þar sem þannig er nú háttað bæði um þessi hjeruð og önnur úti um land, sjerstaklega til sveita, að þau verða undantekningalítið að sjá fyrir húsi handa læknum sínum, þá leiðir af sjálfu sjer, að það verður að gera annaðhvort með samskotum eða lántökum einhversstaðar frá.

Viðkomandi lánum úr viðlagasjóði verð jeg að slá því föstu, að hjeruðum beri að ganga fyrir einstökum mönnum. En ekki er fyrir það að synja, að til eru ekki óveruleg fordæmi um, að einstökum mönnum hefir verið lánað þaðan. Og þegar sá siður er tekinn upp, þá má búast við, að síður verði synjað hjeruðum, sjerstaklega þegar ræða er um nauðsynlegar og óhjákvæmilegar framkvæmdir.

Mjer er ljóst, að þótt þessi lántaka verði samþykt, þá er ekki farið fram á þá upphæð, sem þarf til að byggja þessa læknisbústaði; en jeg vildi stilla svo í hóf að þessu sinni, enda ætíð hægt að bæta við fjárhæðina, þegar framkvæmdir hafa sýnt, að hin veitta fjárhæð hefir ekki verið nægileg. Vitanlega er það rjett, sem hæstv. atvrh. benti til, að komið getur fyrir, að fjeð verði ekki fyrir hendi. En þar sem hjer er aðeins um heimild að ræða fyrir stjórnina, hverja sem er, þá hefir hún þetta algerlega í sinni hendi; og býst jeg við, að vel megi við það una.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa till., en vænti þess fastlega af hv. deild, að hún setji sig ekki á móti henni, því að það væri þá í algerðu ósamræmi við það, sem áður hefir átt sjer stað í þessari hv. deild. Meira að segja hafa lánveitingar í þessu skyni farið svo langt, að veitt hefir verið einstökum mönnum til bygginga. — (KIJ: Og án trygginga!). „Án trygginga“, segir einn mikils virtur þingmaður. Úr því það hljóð kom úr þessu horni, held jeg mjer sje óhætt að gera orð þessa merka manns að mínum. Fer þá að færast skörin upp í bekkinn, ef synjað er einstökum hjeruðum um lán til jafnnauðsynlegra framkvæmda.

Jeg verð að slá því föstu, að jafnframt og jeg álít sjálfsagt, að slíkri till. sje sómi sýndur, þá sje farin mjög varhugaverð braut, ef einstaklingum þjóðfjelagsins er lánað úr viðlagasjóði án trygginga. En af því að jeg var nú mintur á þetta, man jeg eftir einu fordæmi, sem átti sjer stað fyrir nokkrum árum.

Jeg ætla ekki að fara út í hinar einstöku till. hv. þingmanna, það er ekki til annars en lengja þingtíðindin. Læt svo úttalað um þetta að sinni.

Jeg hafði mælt í gær fyrir till. minni undir X í fyrri kafla. En af því að aldrei er góð vísa of oft kveðin, vil jeg nota tækifærið, með leyfi hæstv. forseta, til þess að minna hv. deildarmenn á, hvað mikil sanngirni felst í henni; og jeg treysti hv. þd. að fella hana ekki.