12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

21. mál, fjárlög 1928

Bernharð Stefánsson:

Það eru aðeins örfá orð að þessu sinni, vegna þess að hv. frsm. hefir lítið talað um brtt. þær, sem jeg er við riðinn, svo að jeg þarf ekki að svara honum. En jeg kemst ekki hjá því að minnast á till. hv. þm. Ak., um styrk til húsmæðraskóla Norðurlands. Og það því fremur, sem jeg tók þátt í umræðum, sem snertu þetta mál, húsmæðrafræðsluna, við 2. umr.

Jeg get lýst yfir því, að mjer er það mikil gleði, að hv. þm. Ak. skuli hafa komið fram með þessa till., og það því fremur, sem jeg benti honum á það við 2. umr., að jeg teldi rjettara af honum að beita sjer fyrir þessu máli heldur en að berjast gegn húsmæðradeildinni við Laugaskóla. Því er ekki að leyna, að jeg mun styðja hv. þm. Ak. það, sem mínir kraftar ná, hvað aðaltill. hans snertir. En auk þess sem hv. þm. Ak. hefir flutt þessa till., um ákveðinn styrk til framkvæmdar lögunum frá 1917 um húsmæðraskóla Norðurlands, hefir hann flutt aðra till. til vara, um að þessi styrkur komi í stað styrksins til húsmæðradeildarinnar á Laugum, en sá styrkur falli niður. Jeg mundi nú einnig gefa fylgt þessari varatill. hv. þm. Ak., ef jeg hefði tryggingu fyrir því, að þessi skóli, sem fyrirhugaður er samkvæmt lögunum frá 1917, yrði reistur í Eyjafirði og einna helst við heitar laugar, sem þar eru, því að það hefir mikið að segja til eldiviðarsparnaðar og annara þæginda. En nú liggja ekki fyrir ákveðnar upplýsingar um það, hvar skólinn eigi að vera reistur. Að vísu gat hv. þm. Ak. þess, að skólinn gæti fengið stað á stóru túni. En hvar er þetta tún? Hvar er þessi staður? Jeg óska þess, að háttv. þm. Ak. svari þessum spurningum, því undir svarinu við þeim er það komið, hvort jeg get fylgt varatill hans. En á móti henni geng jeg ekki.

Jeg hefi litið svo á, að þessi fjárveiting, sem hv. þm. Ak. fer fram á, ætti að vera til húsmæðraskóla á Akureyri, annaðhvort í gróðrarstöðinni eða rjett við bæinn. Og lögin frá 1917 ætlast til þess, að skólinn sje svo nærri Akureyri, að stúlkur geti gengið þaðan á hann, því að í lögunum er ekki gert ráð fyrir jafnmörgum heimavistum og nemendum á skólanum. Mjer þykir og líklegt, að þetta hafi vakað fyrir hv. þm. Ak. Svo eru það líka konur á Akureyri, sem nú hafa vakið þetta mál upp á ný. Þetta mál er búið að vera lengi á döfinni fyrir norðan. Konur á Akureyri vilja hafa skólann þar, og þar sem það eru þær konur, sem hrinda málinu af stað, þá er líklegt, að það sje á þeim grundvelli.

Jeg hefi ekkert á móti því, að húsmæðraskóli komi á Akureyri, og jeg hygg, að það sje nauðsynlegt, að hin ungu húsmæðraefni á Akureyri fái þar fræðslu. En á hitt ber að líta, að ef skólinn yrði reistur á Akureyri eða svo til, þá tel jeg, að líka þyrfti að vera húsmæðrafræðsla í sveit einhversstaðar á Norðurlandi. Þykir mjer þá ilt, ef það þarf að vinna til þess að fá skólann á Akureyri að taka aftur fjárveitinguna til húsmæðrakenslu í sveit, sem deildin er búin að samþykkja. Jeg legg því áherslu á það, að aðaltill. hv. þm. Ak. verði samþ., og jeg get tekið undir margt af því, sem hann sagði um rjettmæti þessa máls. En fái jeg það ekki tryggt, að húsmæðraskólinn verði reistur í sveit, þá get jeg ekki unnið það til að ganga á gefin heit og fella styrk, sem búið er að samþykkja. Jeg vænti því. að aðaltill. verði samþ.