12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Ólafsson:

Jeg get þakkað hv. fjvn. fyrir undirtektir hennar undir till. mínar. En mjer þykir leitt, ef nefndin hefir misskilið það, sem jeg sagði um till. hv. sjútvn. Jeg tók það skýrt fram, að mjer þætti sjútvn. ganga síst of langt í fjárkröfum til markaðsleitar. Það er í samræmi við það hljóð, sem hefir verið í öllum undanfarin ár, að ekki sje gert nóg til þess að afla markaðs fyrir sjávar, afurðirnar. En mjer þótti hv. sjútvn. dreifa fjenu, sem veitt er í þessu skyni, svo víða, að það kæmi ekki að því liði, sem æskilegt væri. Má telja tvo fyrri liðina koma slíku sæmilega af stað. Er illa farið, ef ekki er hafist handa í þessa átt nú þegar.

Jeg hefi ástæðu til að halda, að afstaða hv. fjvn. breytist, er henni hafa verið gefnar upplýsingar og misskilningur þessi leiðrjettur. Jeg geri ráð fyrir því, að menn sjeu á eitt sáttir um nauðsyn þess að veita nægilegt fje til þessara tveggja pósta: leitun nýrra fiskmarkaða og síldarmarkaða. Og nú sem stendur er rjettast og vænlegast til árangurs að sameina fjárveiting og krafta á þessa tvo staði, samkvæmt till. sjútvn., sem sje Suður-Ameríku, hvað snertir tilraunir um fisksölu, og Mið-Evrópu til útbreiðslu síldarmarkaðs.

Hv. fjvn. hefir ekki viljað taka til greina till. þá, er jeg mælti með, um fjárveiting lítilfjörlega til Verslunarráðs Íslands. Var svo til ætlast í upphafi, að þessi styrkur yrði veittur til upplýsingastarfsemi. Jeg verð að álíta, að hv. fjvn. hafi illa tekist að skifta þessari fjárveiting, með því að veita vissum manni utanfararstyrk í því skyni, að kynnast kaupþingafyrirkomulagi annara þjóða. Á því er ekki svo brýn þörf. Hitt væri miklu gagnlegra að veita upphæðina í sama augnamiði og undanfarið. Þótt jeg hafi ekkert umboð til þess að fara fram á, að þessu verði breytt, tel jeg hinsvegar sjálfsagt, að ráðinu verði veittar 2 þús. kr. til þess að gefa upplýsingar eins og undanfarið um varning og verslun.