12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

21. mál, fjárlög 1928

Sigurjón Jónsson:

Jeg get ekki stilt mig um að segja nokkur orð áður en lýkur, út af orðum háttv. frsm. Honum fórust svo orð, að sjútvn, væri nokkuð frek í fjárkröfunum. Það vil jeg ekki viðurkenna og læt ekki standa ómótmælt. Það er að vísu satt, að till. sjútvn. um að taka upp radiovita var allhá, en fjarri því samt, að þar lýsti sjer nokkur heimtufrekja. En svo fór, að hún var feld við 2. umr., um leið og samþ. var till hv. fjvn. um að fella niður úr fjárlagafrv. stjórnarinnar 70 þús. kr. til vitabygginga.

Hjer er farið fram á 30 þús. kr. fjárveiting til markaðsleita. Eru þá kröfur sjútvn. ekki nema 25 þús. kr., því að 5 þús. kr. voru þegar til staðar í frv. frá 2. umr. Jafnvel þótt samþykt hefði verið þessi 75 þús. kr. fjárveitingartill., sem sjútvn. fór fram á til radiovita, og þó að ekkert hefði verið felt úr stjfrv. af því, er ætlað var til vitabygginga eða annars vitum viðkomandi, þá mundu vitagjöldin á árinu 1928 hafa nægt upp í þann kostnað allan. Þá eru eftir aðeins þessar 25 þús. kr., sem sjútvn. hefir lagt til að færu til markaðsleitar. Sitt er nú hvað, að sjútvn. skuli leyfa sjer að koma fram með till. um slíka óhemjufjárveiting til eflingar eða útbreiðslu markaðs á sjávarafurðum. Mundi hafa kveðið við annan tón, ef till. hefði komið frá háttv. landbn. Jeg verð að segja það, að mjer finst harla einkennilegt, að þegar sú nefnd, sem á að gæta hagsmuna annars aðalatvinnuvegarins, þess er mest flytur út og mest geldur í ríkissjóð, fer fram á nokkra tugi þúsunda til eflingar og nauðsynlegra þarfa þessa atvinnuvegar, þá skuli hv. fjvn. rísa upp á afturfótunum og fjargviðrast út af þeirri óheyrilegu heimtufrekju og segja þvert nei. En annnað hljóð kemur í strokkinn, ef farið er fram á nokkur hundruð þús. kr. til eflingar landbúnaðinum. Þar má benda á fjárframlög til kæliskips, jarðræktar, vegalagninga og brúagerða.

Mjer datt í hug, er jeg heyrði undirtektir hv. fjvn.: hvers vegna er Nd. að skipa sjútvn.? Er ekki best að sameina þessar tvær nefndir, sjútvn. og fjvn., eða afnema sjútvn. með öllu? Mjer finst í þessu sambandi engin goðgá að minnast á afstöðu þessara tveggja nefnda, sjútvn. og landbn., til hv. fjvn. Nd. (PO: Hvað hefir landbn. komið með?). Það er svo margt og engin þörf að tína það alt til. Ekki svo að skilja, að jeg telji vanþörf á að bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti, enda þarf ekki að kvarta undan því, að hv. fjvn. sje þar ekki með á nótunum. En við hitt er ekki komandi að taka vel í hóflegar málaleitanir frá sjútvn. til eflingar þeim atvinnuvegi.

Já, það voru 25,þús. kr., sem sjútvn. fór fram á. Hjer liggur og fyrir till. frá hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), um 3000 kr. styrk til landnámsfjelags í Reykjavík.

Jeg vil nú að vísu ekki segja, að þar sje um tiltölulega eins háa upphæð að ræða og þessar 25 þús. kr. frá sjútvn. En mikill munur var á undirtektunum. Jeg ætla ekki að mæla móti þessu 3 þús. kr. tillagi til fjelagsins „Landnáms“. En undarlegt er það, þegar hv. fjvn. tekur vel í þessa till., að þá skuli okkar till. fá þær viðtökur hjá henni, sem nú er komið á daginn.

Jeg gat ekki stilt mig um að gera þessa athugasemd, sjerstaklega þegar jeg athugaði ýmsar greiðslur, sem gert er ráð fyrir í þágu landbúnaðarins, og hinsvegar það litla, sem ætlað er til sjávarútvegsþarfa.