12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Guðnason:

Það lítur út fyrir, að háttv. þm. ætli að taka með þögn og þolinmæði þeim nærri allsherjar dauðadómi, sem hv. fjvn. hefir kveðið upp yfir brtt. okkar þdm., og fer ef til vill vel á því, þótt segja megi eins og álfkonan forðum: Ólíkt höfumst við að. Því að till. háttv. fjvn. hafa fengið alveg gagnstæðar undirtektir í deildinni við það, sem okkar brtt. hafa fengið hjá háttv. nefnd.

Jeg vildi þó reyna að halda dálítið í bakkann með þær till., er jeg hefi borið fram.

Kem jeg þá fyrst að till. á þskj. 336,XXIII,2, um 1000 kr. styrk til safnaðarstarfsemi meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn. Jeg er hissa á ummælum þeim, er hv. frsm. fjvn. hafði um till. Hann vitnaði til orða minna um safnaðarstarfsemi Íslendinga í Vesturheimi, en sneri ummælum mínum upp í röksemd gegn till., sem jeg bar fram. Þar sem safnaðarstarfsemi þeirra hefði aldrei verið styrkt með fje úr vasa Íslendinga hjer heima, væri ekki frekar ástæða til þess um Íslendinga í Kaupmannahöfn; þeir gætu alveg eins staðið á sínum eigin fótum og Vestur-Íslendingar.

En fyrst er því þar til að svara, að þessi mótbára er ekki á rökum bygð, því að það er alveg ósannað mál, nema nauðsynlegt og sjálfsagt hefði verið, ef ríkissjóður hefði verið þess megnugur, að styðja fjelagsstarfsemi meðal frumbýlinganna í Ameríku á fyrstu árum þeirra. Jeg er ekki í neinum vafa um, að íslensku þjóðerni væri mun betur borgið þar vestra en nú er, ef það hefði verið gert á sínum tíma.

En í öðru lagi er um þessa till. alt öðru máli að gegna. Það var svo með Íslendinga í Vesturheimi, að hættan, sem þjóðerni þeirra og tungu var búin á landnámsöld sinni þar, var ekki svo ýkja mikil, af þeirri ástæðu, hve ólíkt þjóðerni þeir hittu þar fyrir, auk þess sem þeir mynduðu víða hvar allstórar bygðir út af fyrir sig. Hættan ógnaði fyrst, er þeir fóru að kynnast og lifa sig inn í þjóðlífið, sem fyrir var.

Í Danmörku er aðstaðan öll önnur. Bæði er skyldleiki tungnanna mikill, — enda auðlærð ill danska, eins og máltækið segir, — og kynning og samgangur milli þjóðanna svo auðveldur og opinn, að miklu meiri hætta er hjer á ferðum, að Íslendingar glati að einhverju leyti þjóðerni sínu, renni inn í farveg dansks þjóðlífs, verði danskir Íslendingar. Aðstaðan er að þessu leyti svo ólík, að jeg fæ ekki betur sjeð en svo, að jafnrjettmætt og sjálfsagt geti verið að styðja slíka starfsemi, sem um getur í till., í Danmörku, jafnvel þótt maður ljeti svo vera, að þess hefði ekki verið þörf í Vesturheimi, en það læt jeg ósagt.

Þá kem jeg að því, sem hv. frsm. sagði um till. viðvíkjandi grískukenslunni. Jeg hygg, að telja megi víst, að ef till. okkar verður samþ., þá verði dósentsembættið í klassískum fræðum afnumið. Að öðrum kosti, nái till. ekki fram að ganga, má búast við, að hv. Ed. verði hikandi við að láta embættið leggjast niður. Til þess að flýta framgangi frv. ættu því þeir, er greitt hafa atkv. með því, að greiða nú atkv. með þessari till. mentmn.

Um 2000 kr. aukning á fjárveitingu til bryggjugerðar við Salthólma á Gilsfirði vil jeg geta þess, að engin tök voru á að láta fara fram rannsókn á bryggjustæði eða gera áætlun um verkið. En nauðsyn framkvæmda í þessu efni á þessum stað er svo brýn og hagræði, ef upp kæmist bryggja þar, svo mikið, að jeg hefi eigi hikað við að bera fram till. Jeg hefði þó látið það bíða að svo stöddu, ef von hefði verið á nánari upplýsingum, en jeg tel óvíst, að af því geti orðið í bráð. Trygging fyrir deildina álít jeg nægilega í því, að ekkert verði útborgað, nema hæstv. landsstjórn sjái og samþykki kostnaðaráætlun.

Jeg vil ítreka það, sem jeg sagði í gær viðvíkjandi styrk til framkvæmdar jarðræktarlaganna. Það upplýstist við umræðurnar í gær, að styrkurinn, sem greiddur var á árinu sem leið fyrir unnar jarðabætur og nam 130 þús. krónum, var fyrir jarðabætur unnar á árunum 1924 og 1925, þannig að styrkur var veittur fyrir 11/2–2 ár í einu, eftir því hvor hefir rjettara fyrir sjer, háttv. frsm. eða hæstv. atvrh. — Jeg vakti athygli á því þá, að gagnvart leiguliðum ríkissjóðs hefði ekki verið fylgt þessari reglu. Fyrsta eftirgjaldið, sem þeir fengu endurgreitt upp í unnar jarðabætur, var fyrir fardagaárið 1925–’26. Gagnvart þeim koma jarðræktarlögin því ekki til framkvæmda fyr en 2 árum eftir að þau gengu í gildi.

Jeg óskaði, að hæstv. ráðh. gæfi upplýsingar um, hvernig á þessu ósamræmi stæði. Væri æskilegt, að hann vildi nú í fáum orðum gefa skýringu á því. Og eins væri fróðlegt að fá að vita, hvort þetta ósamræmi er að tilhlutun Búnaðarfjelags Íslands. Það virðist, eins og jeg sagði í gær, að hjer hafi ekki verið fylgt til fulls ákvæðum jarðræktarlaganna.