12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Er jeg talaði hjer í dag, gleymdi jeg að geta þess, að nafn mitt kemur við LII. brtt. á þskj. 336. Nú, sú till. er í sjálfu sjer þýðingarlítil, af því að hún er í sambandi við aðra till., er jeg tók aftur við þessa umræðu fjárlagafrv. En það gefur mjer tilefni til að minnast á þá fjárveiting, sem þessi till. eiginlega hljóðar um. Hvað snertir veginn í Vestmannaeyjum hefir háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl) upplýst nokkuð um kostnaðinn, og er af þeim upplýsingum fljótsjeð, að hver stika í veginum mundi kosta 12 krónur. Jeg tel því, að kostnaðurinn sje óvenjulega mikill, enda hlýtur þá að vera óvenjulega örðugt að gera þarna veg.

En út af fram komnum upplýsingum finn jeg ekki ástæðu til að setja mig upp á móti þessu ræktunarfyrirtæki, og tek jeg því aftur brtt. undir LII. lið á þskj. 336.

Út af samanburði háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) á till. sjútvn. og landbn. þessarar hv. deildar, finn jeg ástæðu til að minna á það, að landbn. hefir að þessu sinni ekki, svo jeg muni, komið fram með neinar till. til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Aftur á móti hefir ein till. frá landbn., þótt ekki standi hún í sambandi við fjárlagafrv., snúist um það að afbiðja mikil fjárframlög úr ríkissjóði til landbúnaðar. Jeg vil því biðja þennan háttv. þm. og aðra, ef þeir eru svo vinveittir landbúnaðinum, sem þeir vilja vera láta, að taka til greina þessa ósk landbn. um að veita ekki stórfje úr ríkissjóði til landbúnaðar, fje, sem að dómi landbn. ekki kemur landbúnaði vorum að haldi.