12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

21. mál, fjárlög 1928

Sveinn Ólafsson:

Hv. frsm. fjvn. vjek að mjer í hálfkæringi nokkrum orðum, og lutu þau einkum að LI. brtt. á þskj. 336 og LV. brtt. á sama þskj., sem jeg mælti með fyrir hönd sjútvn. Um hina síðarnefndu skal jeg ekki fjölyrða mikið, með því að aðrir hv. þm., og einkum hv. þm. Ísaf., hafa þar haldið uppi svörum fyrir sjútvn. Aðeins vil jeg bæta því við, að hv. frsm. fór ekki rjett með, þegar hann nefndi upphæðina til síldarsölutilrauna. Það var aldrei sótt um 30 þús. kr., heldur 15 þús. Hinsvegar gat það ekkert ódæði talist, þótt nefndin færði niður upphæðina og reyndi þannig að koma einhverju áleiðis. Þar sem hv. frsm. ljet í veðri vaka, að fjvn. mundi styðja till. sjútvn., ef hún væri sannfærð um gagnsemi hennar, þá vil jeg segja það, að hvenær sem hv. fjvn. vill athuga þetta mál, mun hún geta sannfærst um þörf tilraunanna, en án þess er engrar sannfæringar að vænta.

Þá skal jeg víkja að till. minni um niðurfellingu á fjárveitingu til Vestmannaeyjavegarins, og skal jeg þó ekki fjölyrða um hana heldur. Upplýst var hjer í dag, að vegurinn ætti að vera 6 km. að lengd, en tekur þó aðeins yfir 2 km. lengd af eynni. Jeg verð að telja það óhæfilegt sukk með fje landsins að leggja slíkan veg í svo stórum bugðum, að úr 2 km. verði 6 km. Jeg held því fram, að þetta sje einhver óþarfasta fjárveitingin í fjárlagafrv. Vegarlagningin er víst ekki nauðsynleg vegna ræktunarinnar. Það er því ekki rjett hjá hv. frsm., að jeg hafi borið þessa till. fram til þess að gylla aðrar till. mínar. Jeg bar hana fram af því, að mjer fanst hún rjettlát og sjálfsögð. Jeg mun halda fast við hana og tel hana í alla staði forsvaranlega. Um aðrar brtt. mínar skal jeg ekkert framar segja. Þær voru af hv. frsm. lagðar niður við sama trog og flestar till. einstakra þingmanna.