19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það var viðvíkjandi þeim tíu spurningum, sem hv. 5. landsk. vjek til mín. Jeg skal reyna að leysa úr þeim flestum eða öllum og svara þeim stutt og áreitnislaust, eins og hv. þm. spurði.

Hv. þm. spurði fyrst um það, hvort tilgangurinn væri að fullgera byggingu á Kleppi í ár. Það hefir nú ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það. En stjórninni þótti rjett að búast ekki við, að það yrði hægt í ár, og fór fram á fjárveitingu á næsta ári. Hinsvegar hefir verið rætt um það okkar á milli, að ef vel liti út, þegar kæmi fram á sumar, gæti komið til mála að vinna fyrir þessa fjárveitingu. En um það er engin ákvörðun fengin; svo að það fer eftir því, hvernig landsbúskapurinn gengur, hvað mikið verður unnið þar í sumar.

Næst spurði hv. þm. um landhelgisrýmkunina, hvernig gengi með það mál. Það gengur þannig, að það standa nú yfir rannsóknir um það, hversu mikill munur sje á fiskmergðinni innan og utan landhelginnar hjer við land. Þessar rannsóknir eru framkvæmdar eftir ráðum dr. Schmidts. Hann segir, að eina ráðið til þess að geta gert sjer von um að fá þessa rýmkun landhelginnar sje það að geta sýnt fram á, að það hafi verulega þýðingu fyrir uppvaxandi fiskinn, — sýnt það og sannað vísindalega. Jeg vona, að jeg þurfi ekki að skýra frá, að dr. Schmidt er heimskunnur vísindamaður á þessu sviði. Hann hefir sagt við mig persónulega, að meðan þessum rannsóknum er ekki lokið, sjái hann ekki fært að mæla með þessu, því að það þarf að vera hægt að staðhæfa um nauðsynina með vísindalegum rökum. Það er kunnugt, að Danir fóru fram á það við Englendinga, fyrir hönd Færeyinga, að fá rýmkaða landhelgina kringum Færeyjar, en var synjað, meðal annars vegna þess, að það var ekki vísindalega sannað, að þetta hefði áhrif viðvíkjandi uppeldi fiskjarins. Og alveg sömu afstöðu hafa Englendingar tekið um Norðursjóinn, þrátt fyrir það, að komið hefir í ljós, að mergð fiskjarins þar hefir rýrnað mjög á síðari árum.

Í 3. lagi spurði hann um tryggingarmál, sem var til umræðu í fyrra. Um það er það að segja, að dr. Ólafi Daníelssyni hefir verið falið að gera þann útreikning, sem með þarf til undirbúnings því máli. Hann kom með bráðabirgðaútreikning skömmu fyrir þing, en ljet þess getið, að hann áliti ekki rjett að byggja á honum; þyrfti að athuga hann betur áður en farið væri að leggja hann sem gagn fyrir þingið.

Þá spurði háttv. þm., hvaða kaup vegamálastjóri borgaði nú verkamönnum almennum. Jeg verð að segja eins og er, að mjer er ekki kunnugt um það. (JBald: í Skagafirði?). Það er mjer alveg ókunnugt. Jeg býst við, að sama verði að ganga yfir Skagafjörð og aðrar sveitir. Í hv. fjvn. Nd. fjekk stjórnin ákúrur fyrir það, að vegamálastjóri hefði borgað of hátt kaup í fyrra. Hann átti og tal við nefndina, og sagði hún honum það sama. Jeg átti tal við hann og sagði honum, að auðvitað yrði kaupið í ár að lækka í hlutfalli við lækkun dýrtíðarinnar að minsta kosti. En að öðru leyti hefi jeg auðvitað falið honum að ráða mennina; því að það skilur hv. þm., að ráðherra getur ekki farið að gefa sig að ráðningu verkamanna, enda væri þá til lítils að hafa vegamálastjóra. Stjórnin getur ekki annað en sett aðallínurnar, en svo verður vegamálastjóri að framkvæma eftir þeim aðallínum.

Í 5. lagi spurði hv. þm., hví jörðin Lambhagi hefði verið seld, og með hvaða verði. Um síðara atriðið hjelt jeg, að ekki þyrfti annað en að fara inn í lestrarsalinn, því að jeg held, að hingað sje búið að senda skjöl um sölu þjóðjarða á síðasta ári. Um ástæðuna fyrir því, að jörðin var seld, held jeg að sje hið sama að segja og aðrar þjóðjarðir. Það var gert samkvæmt heimild laga frá 1905 um sölu þjóðjarða.

Um hinn svonefnda „Víðir“ í Mosfellssveit er það að segja, að 2 eða 3 stykkjum af landinu hefir verið ráðstafað. Það er held jeg rúmlega helmingur af því eða svo. Er svo tilætlunin, að Mosfellspresturinn hafi hitt til umráða og afnota.

Enn spurði háttv. þm. um Elliðaárveginn til Hafnarfjarðar, hvort tilætlunin væri að gera hann á næstunni. Af fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og frv. til fjárlaga fyrir næsta ár getur hann sjálfur sjeð, að ekki er ætlað fje til þessa vegar. Og það er af því, að stjórnin álítur svo góðan og viðunandi veg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að víða væri meiri nauðsyn að leggja nýja vegi heldur en þar.

Um líkur fyrir virkjun Dynjanda veit jeg ekki annað en það, að jeg fjekk nú nýlega brjef frá manni þeim, er mest gekst fyrir þessu máli í fyrra, þar sem hann tjáir mjer, að í sumar muni verða sendir verkfræðingar vestur, til þess að gera mælingar og undirbúa framkvæmdir. Vitaskuld ber jeg enga ábyrgð á, að þetta sje rjett. Jeg veit ekki, hvað hæft er í þessu að öðru leyti en því, að jeg hefi brjef um þetta til sýnis.

Í 9. lagi vjek háttv. þm. að bilun á vegi í Borgarfirði og spurði, hvort ekki væri tilætlunin að gera við hann í sumar. Jeg man ekki, hvort hann spurði um fleira í því sambandi, (JBald: Hvort hafa ætti á honum nokkra nýja tilhögun). Nú, það á að gera við þennan veg í sumar og breyta honum þannig, að gera vatnsrásirnar í gegnum hann víðari en áður. Það sýndi sig í vetur, að í áköfum leysingum gátu ræsin ekki tekið við öllu því vatnsmagni, sem leitaði á veginn. — Vegamálastjóri hefir tjáð mjer, að vegurinn mætti hiklaust teljast tryggur með stærri vatnsrásum og það hafi eingöngu verið vatnsmagnið, sem varð honum að grandi í vetur.

í 10. lagi spurði háttv. 5. landsk., hvað því hefði valdið, að síldarsamlagið, sem lög voru samþykt um í fyrra, komst ekki á fót í ár. Hann kvaðst hafa heyrt, að það stafaði af andúð utanlands frá. Sú ástæða er ekki rjett. Það er ekki af andúð gegn málinu erlendis, enda er auðsætt, að þetta er algerlega innlent mál. En ástæðan til þess, að það komst ekki á fót, er sú, að stjórninni þótti málið ekki nægilega undirbúið til þess, að það væri tímabært að svo stöddu. — Hún leit svo á, að fyrst þyrfti að útvega samlaginu aðgang að hentugum peningalánum. Annars eru smáútgerðarmenn í vandræðum með að geta haldið útgerðinni áfram. Og af því að ekki var útlit fyrir, að bankarnir sæju sjer fært að „finansera“ þetta fyrirtæki, þótti ekki rjett að stofna til þess nú á þessu ári.

Ef nægilegum undirbúningi verður lokið fyrir næsta nýár, er mjer vitanlega ekkert því til fyrirstöðu, að það komist á.

Þá hefi jeg svarað öllum spurningum háttv. 5. landsk. Hvort hann er ánægður með svör mín eða ekki, það kemur nú í ljós bráðum.