19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

21. mál, fjárlög 1928

Jóhann Jósefsson:

Við umræður um annað mál hjer í deildinni komst hv.

1. landsk. (JJ) inn á þetta sama og nú, vansmíðið á varðskipinu „Óðni“. Vill hann koma þeirri sök yfir á hendur hæstv. stjórnar og jafnvel á einstaklinga í landinu. Á sökin aðallega að vera fólgin í því, að stjórnin hafi ekki í þessu máli leitað aðstoðar hjá framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, og af þeirri stóru vangá hafi þessi mistök orðið á smíði skipsins. Þá dró hann og í efa, að heppilegt hefði verið að fela Flydedokken þessa smíði. Um það skal jeg ekkert fullyrða, þótt jeg hinsvegar geti látið í ljós, að jeg er ekki viss um, að það hefði verið á nokkurn hátt verra að taka tilboðum frá öðrum skipasmíðastöðvum.

Jeg held nú, að framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins sje enginn greiði ger með því að vera altaf að klifa á, að mistökin á smíði skipsins hafi stafað af því, að hans aðstoðar hafi ekki verið leitað, því að sannanlegt er, að framkvæmdarstjórinn hafði afskifti af máli þessu alt frá þeim tíma, er fyrverandi forsrh. (JM) tilkynti sjútvn. þingsins á þinginu 1925, að stjórnin hefði í hyggju að kaupa eða byggja strandvarnarskip, og með leyfi hæstv forseta vil jeg, sannleikans vegna, lesa upp kafla úr fundargerð sjútvn. þingsins frá þeim tíma, til þess að sýna, að E. Nielsen var við málið riðinn. Fundargerðin hljóðar þannig:

„Ár 1925, þriðjudaginn 3. mars hjeldu sjávarútvegsnefndir beggja deilda sameiginlegan fund.

Formaður sjútvn. Ed. tilkynti, að forsætisráðherra hefði hinn 28. febr. kallað nefndirnar saman á fund og tilkynt þeim, að stjórnin hefði í hyggju að kaupa strandvarnarskip, en með því að ekki væri nægileg heimild til í lögum fyrir stjórnina til þessara framkvæmda, hefði hann í hyggju að leggja frumv. fyrir þingið um heimild fyrir stjórnina til að kaupa nú strandvarnarskip. Samtímis hefði ráðherrann afhent nefndunum þau skjöl, er hjer greinir:

1. Brjef til ráðherrans frá Dir. E. Nielsen, dags. 28. febr. þ. á., um verð skips 160 feta með 13 mílna hraða.

2. Brjef til ráðuneytisins frá h f. Víði í Hafnarfirði, dags. 26. febr., þar sem fjelagið býður stjórninni skipið „Víði“ til kaups á 159 þúsund . . .“

Af þessu er það ljóst, að það er fjarri sanni, að framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins hafi ekki komið nærri þessu máli, þar sem hið fyrsta plagg, sem sjútvn. fá í hendur því viðvíkjandi, er einmitt frá honum.

Auk þess get jeg bætt því við, að mjer var kunnugt um, að allar teikningar og útboð viðvíkjandi hinu fyrirhugaða skipi gengu í gegnum Eimskipafjelagið þann tíma, sem þá var eftir þingsins.

Jeg þykist nú hafa lagt fram sannanir fyrir því, að þessi ásökun hv. 1. landsk. (JJ) á hendur hæstv. stjórnar er ekki rjett.

Hitt læt jeg ósagt um, hvort E. Nielsen hefði gert nokkuð til þess að bægja Flydedokken frá að ná samningum um byggingu þessa skips, enda þótt honum hefði verið falið að gera þá. Annars minnist jeg þess ekki, að fram kæmi nein aðvörun, hvorki frá þingmönnum nje öðrum, um að forðast Flydedokken frekar en aðrar skipasmíðastöðvar, við undirbúning þessa máls.