19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gleymdi áðan að svara hv. 2. þm. S.-M. (IP), sem gerði fyrirspurn út af strandgæslunni fyrir Austurlandi á yfirstandandi ári. Hann spurði, hvort það stæði ekki við það sama, sem hæstv. fyrv. forsrh. (JM) hefði lofað í fyrra. Jeg veit nú ekki, hvernig það loforð hefir legið fyrir, en jeg get fullvissað hv. þm. um það, að hið sama verður látið ganga yfir Austurland sem aðra landshluta. — Strandgæslunni verður hagað eins og þeir, sem með hana fara, álíta best og heppilegast. Frekara loforð fær hv. þm. ekki hjá mjer, enda get jeg ekki sjeð, að hann geti heimtað meira en að sama verði látið ganga yfir Austurland sem aðra landshluta.

Út af ræðu hv. 5. landsk. (JBald) þarf jeg ekki að segja nema örfá orð. Hann ráðlagði stjórninni að taka sem fyrst ákvörðun um byggingu Kleppshælisins. Jeg þakka honum fyrir góð ráð, en það þarf líka fje til þess að geta framkvæmt þetta, en stjórnin vill ekki taka lán til þess.

Þá mintist hann á Dynjanda og sagði, að jeg bæri ábyrgð á framkvæmdum í því máli. Það er of snemt nú að fullyrða, að ekkert verði úr framkvæmdum. Fjelagið þarf ekki að taka sjerleyfið fyr en 1. desember 1928, og svo hefir það 4 ár til stefnu. Að öðru leyti verð jeg að neita því, að jeg beri nokkra ábyrgð á því, að úr framkvæmdum verði.

Þá sagði hv. þm., að ekkert væri upplýst um það, hve mikið fje hefði farið í Ferjukotssíkið. Það er nú ekki von, að jeg hafi slíkar tölur á takteinum, og jeg get ekki verið að gera það honum til geðs að setja mig í gapastokkinn fyrir honum með því að nefna einhverjar tölur, því að náttúrlega býst jeg við því, að hann sje þessu máli þaulkunnugur. En jeg býst við, að allir geti verið sammála um það, að úr því, sem komið er, þá sjeu það ekki tiltök að flytja veginn þaðan.

Að því er snertir síldarsamlagið, þá skildi jeg hv. þm. svo, að mótmæli hefðu átt að koma frá stjórnum einhverra erlendra ríkja, og því var jeg að andmæla. En hitt var mjer fullkunnugt um, að þeir menn, sem við síldarsölu fást, höfðu sent andmæli.

Kaupgjaldið í Skagafirði ræði jeg ekki um við hv. þm., því að vegamálastjóra hefir verið falið að ráða menn til vegagerðar og þá vitanlega að semja um kaupgjaldið líka.

Þá var talað um, að ályktunin, sem gerð var í hv. Nd. um daginn, hafi verið gerð gegn vilja stjórnarinnar, og því hefði hún átt að segja af sjer. En hv. 5. landsk. (JBald) veit það ósköp vel sjálfur, að fylgismenn stjórnarinnar greiddu atkvæði á móti brtt. Framsóknarmanna af því, að þeir vildu, að greidd væru atkv. um vantrauststillöguna sjálfa. En jafnvel flm. tillögunnar, flokksbróðir hv. þm., hv, 4. þm. Reykv. (HjV), þorði, þegar til kom, ekki að láta till. sína koma til atkv., — vitanlega af því, að hann var þess fullviss, að hún mundi falla.