19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

21. mál, fjárlög 1928

Jónas Jónsson:

Hæstv. landsstjórn hefir af einhverjum ástæðum álitið heppilegra að svara ekki sjálf vissu atriði viðvíkjandi „Óðni“, heldur beitti hún hv. þm. Vestm. (JJós) þar fyrir sig. Jeg hafði fyrir mjer bein orð Nielsens framkvæmdarstjóra um það, að hann hefði ekkert haft með þetta mál að gera fyr en hæstv. atvrh. kom til hans í haust í Kaupmannahöfn og spurði hann ráða. Nú reyndi hv. þm. Vestm. að sanna, að Nielsen hefði verið við byggingu skipsins riðinn, af því að hann var riðinn við undirbúning málsins á Alþingi. Það er vitaskuld alveg rjett, að Alþingi leitaði ráða til hans, og eins var hann með í ráðum, þegar „Þór“ var keyptur. En það, sem hv. þm. (JJós) tókst ekki að afsanna með tilvitnunum sínum, var einmitt aðalatriði málsins: að eftir að hæstv. landsstjórn afrjeð að láta byggja skip, tók hún sjer aðra ráðunauta. Ef þetta hefði verið í stærra landi, þar sem margir sjerfræðingar eru í þessum efnum, hefði auðvitað ekki verið neitt við þessu að segja. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins hefir vitanlega engan einkarjett á að láta spyrja sig ráða. En nú er ekki nema þessi eini maður, sem til mála getur komið að leita ráða til hjer í landi. Hann er viðurkendur sjerfræðingur, og aðstaða hans til að vera ráðunautur hefir batnað til stórra muna, eftir því sem hann hefir verið hjer lengur og kynst betur öllum staðháttum. — Mjer finst það því mega vera úttalað mái, að hann var ekkert við riðinn það byggingarlag, sem loks var ákveðið að hafa á skipinu. Enda hafa ekki verið bornar brigður á þau ummæli mín, hvorki af hv. þm. Vestm. nje öðrum. Hjer heima var skoðanamunur bæði um lengd skipsins og form að öðru leyti, og það hefir eflaust orðið til þess, að leitað var ráðlegginga hjá öðrum.

Jeg hefi áður minst á, að einkennilegt er, að skipið skuli smíðað í Danmörku, og að ódýrara tilboð hafi komið annarsstaðar að. Jeg á bágt með að skilja það, að ekki sje hægt að fá tilboð utan Danmerkur, sem ekki þarf að svara samdægurs. Einkum er þetta ólíklegt nú, þegar allar skipasmíðastöðvar sækjast eftir verkefni. Hinsvegar gladdi það mig, að hv. þm. Vestm. var mjer sammála um, að ósennilegt væri, að ekki mætti afla góðra tilboða utan Danmerkur. Því að á þessum tíma stóðu Danir sjerstaklega illa að vígi í iðnaðarsamkepni við aðrar þjóðir, og notuðu jafnvel sjálfir erlendar skipasmíðastöðvar.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. forsrh. (JÞ). Hann reyndi eftir megni að berja í brestina um, að sín stjórn væri þingræðisstjórn. Þó gekk hann ekki svo langt að segja, að hún væri meirihlutastjórn. En það er viðurkend regla, að þingræðisstjórn verði að vera meirihlutastjórn. Hæstv. forsrh. hlýtur að vita það sjálfur, ef hann veit nokkuð, að t. d. í Englandi er það skilyrðislaus skylda stjórnarinnar að hafa meiri hluta á bak við sig í neðri deild þingsins. En sá meiri hluti þarf ekki endilega að vera í flokki stjórnarinnar einum; — MacDonald var t. d. studdur bæði af verkamönnum og frjálslyndum. — Aftur á móti hefir þess ekki þótt þurfa í Englandi, að stjórnin hefði meiri hluta í efri málstofunni, því að hún ræður engu um fjármálin. Jeg held því, að staða hinnar íslensku stjórnar yrði ekki góð eftir enskum mælikvarða, þar sem hún er í beinum minni hluta í neðri deild þingsins. — Seinna í ræðu sinni hjelt hæstv. ráðh. (JÞ) því fram, að í Danmörku væri fordæmi fyrir sinni aðstöðu. Jeg neita algerlega, að svo sje. Það kom einmitt nýlega fyrir í Danmörku, að á þetta reyndi, og þá sást, að stjórnarandstæðingar eru í minni hluta. Jeg skal rekja nokkuð sögu stjórnanna í Danmörku á síðari árum. Zahle-stjórnin hafði lengi eins atkvæðis meiri hluta, þegar talinn var með stuðningur verkamanna, er höfðu þá svipaða aðstöðu gagnvart stjórninni og hægrimenn hafa gagnvart núverandi stjórn. Þegar Zahle-stjórnin fór frá, komu nokkur óvenjuleg atvik, og var mikill vafi um aðstöðu stjórnarinnar, þar sem einn þm. var veikur. Eftir kosningar kom síðan vinstrimannastjórn, sem með tilstyrk hægrimanna var í meiri hluta. Við næstu kosningar kom nýr meiri hluti í neðri deild þingsins, að vísu mjög veikur, en á honum sat þó ráðuneyti Staunings, uns hann kaus sjálfur að leysa upp þingið og komst í minni hluta við kosningarnar. Því er ekkert dæmi, hvorki frá Danmörku nje Englandi, sem sambærilegt sje við aðstöðu stjórnarinnar hjer. Hún getur hvergi komið fram sínum vilja af eigin rammleik. Hún ræður ekki forseta neðri deildar. Og í sameinuðu þingi er atkvæðum þannig háttað, að guðsdómur gengur á móti henni. Stjórnina vantar því öll aðaleinkenni þingræðisstjórnar, og ástæðan til þess, að Framsóknarflokkurinn ljet sjer nægja þessa yfirlýsingu í neðri deild, var sú, að svo nærri er komið kosningum, að ekki er hægt að flýta mikið dómi þjóðarinnar yfir íhaldinu með þingrofi. En þessi yfirlýsing, sem hv. þm. Str. (TrÞ) gaf sjerstakt gildi með mjög vængjuðu orði, var beinlínis miðuð við þá freku aðferð, sem stjórnin hafði haft, þegar hún vildi slá því föstu, að hún væri þingræðisstjórn. En með yfirlýsingu hv. Nd. var hún færð úr fötunum um þetta. Nú verður ekki lengur á móti því borið með nokkurri skynsemd, að hæstv. landsstjórn er sama eðlis og bráðabirgðastjórnir þær, sem settar eru til að halda stjórnarskútunni á floti, þar til þinginu líst að skipa nýja stjórn.

Þá kem jeg að fjármálaræðu hæstv. ráðh. (JÞ). Þar verð jeg að segja, að hann var á allhröðu undanhaldi. Hann gat ekki neitað því, sem var aðalatriðið hjá mjer, að sú stjórn, sem nú kemur og biður um sparsemi, hefir á fjölmarga vegu lifað og látið eins og engin fjárlög væru til, og er að reyna að skapa sem flesta vegu til að nota landsfje utan við fjárlög á árunum 1927 og ’28. Hæstv. ráðherra gaf að vísu þá skýringu á orðum sínum, að hann vildi ekki endilega strika út þær litlu framkvæmdir, sem andstæðingar hans komu inn í fjárlagafrv. í háttv. Nd. Það er nú gott að heyra, að hann er ekki að panta hlutdrægni af stuðningsmönnum sínum í þessari háttv. deild. En það er eftir að vita, hvort hann sættir sig við það í framkvæmdinni, að skornar verði niður fjárveitingar til byggingar landsspítala eða til Vestmannaeyjahafnar, eða hvort hann vill fella frv. um heimavistir við mentaskólann, eða fresta að brúa Hvítá í Borgarfirði eða Hjeraðsvötn í kjördæmi hæstv. atvrh. (MG). Mjer finst það vera eftirtektarvert fyrir hv. deild að athuga þær stóru upphæðir, sem hæstv. stjórn vill hafa möguleika til að eyða. — En hæstv. forsrh. mintist ekki einu orði á það, með hvílíkri hörku fylgismenn hans í háttv. Nd. reyndu að drepa allar brtt. um framkvæmdir í kjördæmum andstæðinganna. Ekki nefndi hann heldur hitt, að hið danska stuðningsblað hans hjer í höfuðstaðnum hefir ekkert sagt út af Vestmannaeyjahöfn eða heimavistunum, en ætlar alveg af göflunum að ganga út af því, að hv. Nd. samþykti 9 þús. kr. fjárveitingu til vegagerðar í Suður-Múlasýslu.

Hæstv. ráðh. reyndi ekki að hrekja það, að eðlilegt væri, að öll hjeruð vildu hafa jafnrjetti um fjárveitingar, meðan fjárkreppan nær ekki alveg til ríkissjóðs. Jeg get vel búist við, að nú verði alt samþykt, heimavistir, samskóli, Vestmannaeyjahöfn o. s. frv., og síðan verði bætt við höfn í Ólafsvík og Stykkishólmsvegi fyrir stuðningslið stjórnarinnar. Þetta eru sumt góð mál, en árið 1928 getur þó sorfið svo að, að ekki sje hægt að koma neinu af þessu í framkvæmd. Jeg er síst að óska, að svo verði, en það er engan veginn óhugsandi. En það má líka hugsa sjer þann möguleika, að fjeð endist til að framkvæma margt af þessu, og kannske vel það. Sje jeg þá ekkert á móti því, að eitthvað mætti mætti fara í smásímaspotta og vegabúta í kjördæmum stjórnarandstæðinga.

Hæstv. ráðh. (JÞ) talaði mikið um sanngirni Íhaldsins gagnvart andstæðingum sínum. Já, — mjer hefði fundist rjett, að hæstv. ráðh. hefði nefnt Laugaskólann sem dæmi um þann mikla kærleik. Hæstv. forsrh. hefir sjálfur, hjer á hinu háa Alþingi, farið ókurteislegum niðrunarorðum um forstöðumann þessa skóla, af því að hann hafði rekið hæstv. ráðh. í vörðurnar á mannfundi á Norðurlandi. Fjárveitingar til þessa skóla hafa verið knúðar fram gegn vilja hæstv. landsstjórnar af andstæðingum hennar. Og nú síðast, við atkvgr. um stofnun húsmæðradeildar við skólann, var aðeins einn stuðningsmaður hæstv. stjórnar, sem þar greiddi ekki atkv. á móti. — Jeg fæ ekki sjeð, hvernig hægt er að. komast hjá því að tengja Akureyri við umhverfi sitt með vegum. En meðan ekki eru búnir nema 2 eða 3 km. af þessum vegi, sem hæstv. ráðh. vitnaði til til að sanna sanngirni sína, held jeg ekki, að þar sje mikið að þakka.

Aftur á móti get jeg verið hæstv. ráðh. þakklátur fyrir upplýsingarnar um ráðherrabústaðinn og viðgerðina á húsi Jóns heitins Magnússonar. Jeg var dálítið hissa, þegar jeg sá á fjáraukalögum aðeins fjárveitingu til viðgerðar á ráðherrabústaðnum við tjörnina, og hjelt því, að engin krafa hefði komið um greiðslu á hinni viðgerðinni, eða að niðurstaðan hefði orðið sú, að hún ætti ekki að borgast úr landssjóði. En nú sje jeg, að mjer hefir skjátlast, og að allstór fjárhæð hefir verið greidd í þessu skyni. Jeg veit ekki, hve há þessi upphæð hefir verið, en hafi viðgerðin verið greidd að fullu, gæti jeg trúað, að það hafi numið um 20 þús. kr. fyrir landssjóð. Jeg vil nú spyrja hæstv. ráðh. (JÞ), hve mikið hann hefir greitt af hendi í þessu skyni. Það skiftir nokkru máli, þegar þess er gætt, að þessu er eytt í viðgerð á húsi einstaks manns, svo að konungur geti búið þar 2 eða 3 daga, og einmitt á þessum tíma þarf að láta fram fara viðgerð á ráðherrabústað þeim, er landið sjálft á. Hefði konungi verið fenginn sá bústaður, hefði alveg sparast kostnaðurinn við viðgerð hins hússins, sem var mjög gott til allra venjulegra þarfa, án þess að nokkuð væri við það gert. Í þessu sambandi má minna á það, að fyrir nokkrum árum eyddi þáverandi stjórn 20 þús. kr. í viðgerð á húsi austur í Árnessýslu, svo að konungur gæti gist þar eina nótt.

Hæstv. ráðh. mælti svo fyrir hinni dýru byggingu, sem hann er að reyna að fá samþykta, — heimtavistunum við mentaskólann hjer, — að hann vildi, að Alþingi sýndi stefnu sína í þessu máli. En jeg fæ ekki sjeð, að þarna sje um neitt stefnumál að ræða, nema ef vera skyldi í því, að Íhaldið vilji heldur draga unglinga hingað en til Akureyrar.

Hæstv. fjrh. sagði, að óæskilegt væri að fá stöðvun í þessar framkvæmdir. Jú, þetta er satt. Þess vegna ættu menn að kunna sjer hóf og ráðast ekki í stórar húsbyggingar, sem vel mega bíða þar til úr rætist, svo sem heimavistahús mentaskólans o. fl., sem verið er að fitja upp á. Mjer skilst líka, að rektor mentaskólans hafi ekki verið spurður um þetta, og mátti það þó ekki minna vera.

Þá var það eitt atriði, sem jeg vildi beina til hæstv. forsrh., og er það þó sumpart til hans sem utanríkisráðherra. Þessi spurning er út af því, að hann hefir altaf verið að gera þær kröfur til Framsóknarflokksins, að hann eigi að líta á einn aðalflokkinn sem óaldarflokk, sem Framsókn megi ekki hafa nein mök við. Hæstv. stjórn og stuðningsblöð hennar hafa af veikum mætti reynt að sýna fram á það, að það gengi glæpi næst hjá Framsóknarmönnum að vinna um sum mál með verkamönnum, einkum að vinna á móti andstæðingum beggja, núverandi stjórnarflokki. Út af þessu vildi jeg vekja athygli á því, að hjer var á ferðinni í sumar foringi flokks verkamanna í Danmörku, sem er hliðstæður þessum íslenska óaldarflokki, sem hæstv. ráðh. telur glæpi næst að hafa nokkur mök við. Og á meðan þessi maður, Stauning forsætisráðherra, dvaldi hjer, hjelt hæstv. stjórn honum dýrindis veislur upp á ríkis kostnað, og sýndi honum yfir höfuð alla þá virðingu, sem hugsast gat og samboðin mátti vera hverjum þjóðhöfðingja, og meira að segja hefi jeg fyrir satt, að þessum danska verkamannaforingja hafi af hæstv. stjórn verið sendur blómvöndur á skipsfjöl, er hann lagði frá landi. Jeg get bætt því við, að jeg var af tilviljun staddur í Kaupmannahöfn í sumar, er hæstv. forsrh. var þar á ferð, og varð jeg þess þá var, að hann sat veislur með þessum mönnum, sem ætla má, eftir því sem hann hefir talað um flokksbræður þeirra hjer heima, að hann hefði ekkert samneyti viljað við hafa, en eiginlega var svo að sjá, að þarna í Kaupmannahöfn gengi hnífurinn ekki á milli hæstv. forsrh. og þessara skaðræðismanna í Danmörku.

Nú vildi jeg spyrja hæstv. ráðh. (JÞ), hvort hann álíti ekki, að þessir verkamannaforingjar í Danmörku sjeu álíka miklir glæpamenn eins og flokksbræður þeirra hjer á landi, og að siðspillandi sje að komast nokkuð í námunda við þá. Og sje þetta álit hæstv. utanríkisráðherra (JÞ), hvort honum finnist þá viðeigandi, að þessum erlendu mönnum sje sýnd sú kurteisi, sem hjer var gert, eða hvort honum virðist sæmandi að sitja veislur með þessum óaldarflokksforingjum.

En ef hann lítur nú svo á, að þessir menn sjeu honum jafnrjettháir að mannvirðingum og sæmilegir menn í allri framkomu, þá vildi jeg skjóta því til hans, að hann ætti ekki að vera með þennan fariseahátt í blöðum sínum, að verkamannaforingjarnir hjerna sjeu þeir misyndismenn, sem allir velþenkjandi menn verði að forðast eins og pestina.

Þessir sleggjudómar hafa gengið svo langt, að íhaldsmaðurinn Einar Hjörleifsson Kvaran hefir að maklegleikum vítt þetta framúrskarandi heimskulega háttalag stjórnarblaðanna, og þessa grein Kvarans varð aðalmálgagn stjórnarinnar að flytja. Ef hæstv. stjórn meinar ekkert með þessu, ef verkamannaforingjarnir eru ekki eins vondir og látið er í veðri vaka, og ef hæstv. ráðherra þykir gott að drekka þeirra dýru vín og eta þeirra góða mat í veislusölum Kaupmannahafnar, þá ætti hæstv. ráðh. að leggja þessa hræsni á hilluna og láta blöðin tala eins og hann meinar.

Þetta er að því leyti utanríkismál, að ef verkamannaforingjarnir eru eins og haldið hefir verið fram í íhaldsblöðunum, þá hlýtur hæstv. stjórn að hafa litið svo á, að hún gæti á engan hátt haft samneyti við þessa bersyndugu menn.

Hæstv. atvrh. (MG) lofaði að halda stutta ræðu til þess að verja sig, og fullnægði því á þann hátt, að honum tókst að halda litla ræðu og innihaldslausa. Það litla, sem hann var að reyna að svara fyrir sig, var flótti frá spurningum mínum. Viðvíkjandi strandmælingum, þá sagði hann, að unnið hefði verið að þeim á Húnaflóa, þrátt fyrir það, þó að þáltill. mín í fyrra snerist aðallega um mælingar á Breiðafirði, þar sem þörfin er allra mest, að dómi þeirra manna, sem til þekkja. (Atvrh. MG: Jeg mintist á báða staðina). Jú, að vísu, en hæstv. ráðh. man þó, ef hann vill muna það, að í fyrra var aðallega talað um þörfina á því að mæla upp siglingaleiðir á Breiðafirði. Hann gaf líka loforð um það í fyrra, að strandvarnarskipin yrðu látin annast mælingar þessar að miklu eða öllu leyti, og ljet þess getið í því sambandi, að skipherrann á „Óðni“ hefði lagt á sig aukanám í því skyni að geta tekið að sjer slíkan starfa. Það getur nú kanske verið einhver afsökun í þessu efni, hvernig fór um þyngdarpunktinn í „Óðni“ og skipið tafðist frá störfum um langan tíma. En jeg vildi þá skjóta því til hæstv. ráðh., hvort ekki mundi hægt að nota vitabátinn til þessara mælinga, og vænti jeg, að hann gefi einhverjar upplýsingar í því efni.

Viðvíkjandi byggingu strandferðaskips, þá upplýstist nú, sem að vísu var vitanlegt áður, að hæstv. stjórn er mótfallin auknum strandferðum. Og þó má svo að orði kveða, að alveg ófullnægjandi strandferðir sjeu milli Hornafjarðar og Búðardals norður um land. Á þessu svæði er mikil þörf á því, að strandferðaskip komi á erfiðari hafnirnar, að minsta kosti einu sinni eða tvisvar í mánuði. Annars var það eitt atriði í ræðu hans, sem jeg vildi vekja eftirtekt á. Hann benti á og það með rjettu, hve erfitt það væri fyrir Vestmannaeyinga að fá innlent hey. Og af hverju? Af því að smáhafnirnar hafa svo vondar samgöngur, að þær geta ekki komið vöru sinni á markaðinn.

Það má t. d. nefna höfn eins og Hvammstanga; þar hefir ekki verið hægt að fá markað fyrir einhverja bestu og verðmætustu vöru hjeraðsins, laxinn, af því að svo strjálar ferðir eru þangað og þaðan, að ekki hefir verið unt að koma þessari vöru á markað. Og í þessu sambandi mætti t. d. á það benda, að einhver allra besta og mesta jörðin í sýslunni, þingeyrar, hefir verið auglýst til sölu í vetur, vegna þess að bóndinn, sem þar býr, getur ekki komið laxinum á markaðinn vegna slæmra og ónógra samgangna á sjó. Og þó er Húnavatnssýsla mun betur farin með samgöngur sínar heldur en t. d. Barðastrandarsýsla og Skaftafellsýslur.

Hæstv. stjórn hefir ekkert gert til þess að bæta strandferðirnar. Þó að Brúarfoss og Goðafoss fari kringum land einu sinni í mánuði og bæti að ýmsu leyti fyrir Akureyri, Siglufirði og Ísafirði, eru þó allar smærri hafnirnar þar á milli jafnilla settar eftir sem áður vegna þess, að hjer er aðeins um hraðferðir að ræða milli útlanda og stærri hafna hjer við land. Jeg bendi aðeins á þetta af því, að hæstv. atvrh. hefir ekki hugsað um þörf smærri hafnanna og lætur eins og hann viti ekki, að stóru millilandaskipin sneiða að mestu leyti hjá smærri höfnunum.

Þá svaraði hæstv. atvrh. ekki nema að litlum parti fyrirspurnum mínum viðvíkjandi fyrirhleðslunni í Þverá. Jeg spurði um kostnaðaráætlun þessa verks, sem hv. 2. þm. Rang. (EJ) komst lítillega inn á og fordæmdi sem einskonar káktilraun, sem að engu væri hafandi. Jeg spurði ennfremur, af því að mörgum leist betur á það en till. vegamálastjóra í fyrra, að hingað væri fengin stórvirk vjel, sem græfi niður farveg Markarfljóts, svo að hann yrði nógu djúpur, — hvers vegna ekki hefði verið að því ráði horfið.

Jeg vildi minna á þetta hjer, svo að það kæmi skýrt fram, að úr því að vegamálastjóri hindraði, að hingað yrði keyptur bíll, sem flýtur yfir snjó og vegleysur, en fjekk í stað þess ónýta mokstrarvjel, þá myndi maður sá ekki heldur óskeikull um fyrirhleðslu Þverár.

Það hefir líka komið fram í umr. í dag, að þessi maður, sem í fyrra hindraði kaup á snjóbílnum, hefir á sínu baki 80–100 þús. krónur, sem hann ljet á sínum tíma leggja í vegspotta inni undir Elliðaám, sem átti að liggja til Hafnarfjarðar, en var horfið frá, svo að þessi fjárupphæð kemur aldrei neinum að gagni. Þess vegna er það ekki til neins fyrir hæstv. stjórn að vitna í þennan mann sem sjerstakt „autoritet“, nema þá að hún vilji leggja sjerstaka áherslu á axarsköftin, er hann hefir unnið. því að þau eru svo mörg, að undrum sætir, að manni í opinberri stöðu skuli haldast slíkt uppi. Í því sambandi mætti minna á veginn hjá Ferjukoti. Hæstv. ráðh. ætti að spyrja Borgfirðinga um þau vinnubrögð og heyra dóm þeirra á framkvæmdum vegamálastjóra.

Þá fór hæstv. atvrh. (MG) lítið inn á það, hvernig sá snjóbíll hefir gefist, sem hann og vegamálastjóri stóðu fyrir kaupum á. Að vísu vildi hann kenna mjer um, að bíll þessi væri keyptur, en jeg neita algerlega að eiga þar sök á. Alt slíkt verður að skrifast á reikning þeirra beggja, vegamálastjóra og hæstv. ráðherra (MG). En hitt skal ósagt látið, hvað lengi þeim tekst að hindra það, að hingað verði keyptur bíll, sem getur farið yfir snjó.

Hæstv. atvrh. fór líka undan í flæmingi að svara, hvað sá mokstrarbíll hefði kostað, sem hingað er kominn. Jeg hefi heyrt talað um kaupverð, sem nam tugum þúsunda. En þá sjaldan hann hefir verið að verki, hafi fjöldi atvinnulausra manna hjeðan úr bænum orðið að fylgja honum eftir til þess að moka honum áfram.

Hæstv. ráðh. (MG) var kampakátur yfir því, hvað þessi mokstrarvjel hefði gefist vel. En jeg held hann ætti að spyrja stuðningsmenn sína austanfjalls, því að dómur þeirra er sá, að ekki muni gerlegt að bæta meiru á bak stjórnarinnar, og vilja þeir því koma þessum bagga á aðra. (Atvrh. MG: Þeir ætla, sem rjett er, að hv. 1. landsk. labbi með þennan bagga á sínu baki).

Vill stjórnin sverja fyrir börn sín? Vill hún lauma afglöpum sínum á bak annara? Annars vildi jeg skjóta því til hv. 5. landsk. (JBald), hvort ekki mundi heppilegt í atvinnuleysinu á Ísafirði að fá þangað eina tvo snjóbíla og láta flokk atvinnuleysingja draga þá á milli Hnífsdals og Ísafjarðar.

Þá kom hæstv. ráðh. að gin- og klaufaveikinni, og þykist hann hafa staðið sig vel í því máli með því að gefa út reglugerð, sem varni mönnum, sem koma úr sýktum fjósum í öðrum löndum, að gerast fjósamenn hjer, en hve snemma var sú reglugerð gefin út? Þessi maður, sem sagt er að komið hafi úr sýktu plássi, var kominn áður en reglugerðin kom út, en það sýnir einmitt það, að í fyrra var engin sjerstök áhersla lögð á varnarráðstafanir, vegna þess að sýkin var þá ekki komin til Noregs, en þegar veikin var komin þangað, ekki á einn bæ, heldur fjöldamarga, þá er fje þar skorið niður með ærnum kostnaði, og gerðar margbreytilegar ráðstafanir til þess að halda veikinni í skefjum. Og eftir að farið var að skrifa hjer um málið og knýja stjórnina til að gera eitthvað, þá gerir eitt stjórnarblaðið gys að öllu saman. Meira að segja, eftir að búið er að gefa út bann gegn innflutningi á heyi, mun samt hafa verið flutt inn hey til Vestmannaeyja. En að segja það til afsökunar, að heyið hafi verið frá Bergen, lýsir ekki mikilli þekkingu á norskum staðháttum, því að hey, sem skipað er út þar, þarf ekki að vera þaðan úr grendinni, maður veit ekkert, hvaðan það er að komið með járnbrautum. Jeg held, að það sje mjög lítill heyskapur í Bergen og hlíðunum þar í kring. (Atvrh. MG: Á götunum þar, það held jeg líka). Jeg held, að hæstv. ráðh. þurfi að læra sína norsku landafræði miklu betur áður en hann fer næst að halda fram heyskapnum í Bergen.

Hæstv. ráðh. segir, að þeir menn, sem komi frá sýktum löndum, eigi að gera vart við sig. Jeg vil í þessu sambandi minna á söguna um óbótamanninn og lögregluþjóninn, sem tók hann fastan á götunni og sagði: Legstu nú niður og bíddu rólegur, meðan jeg fer og sæki handjárnin. Þessi auglýsing, þótt hún sje birt í Lögbirtingablaðinu, er ekki þekt af mönnum, sem eru við nám eða vinnu utanlands. Hún er nokkuð linleg, samanborið við aðgerðir norsku stjórnarinnar, en þrátt fyrir allar aðgerðir hennar, komst veikin þó inn í landið. Nei, hvernig sem aðgerðir hæstv. stjórnar eru metnar, þá er stjórnin þar vegin og ljettvæg fundin. Yfirleitt finst mjer, að það minsta, sem stjórnin hefði getað gert, hefði verið að spyrjast fyrir á hverju skipi, sem frá útlöndum kom, um það, hvort hver maður, sem með skipinu kom, hefði skírteini fyrir því, að hann kæmi ekki frá sýktu hjeraði, og eins með allar vöruumbúðir, að láta taka vörurnar þannig upp, að þær væru um leið sótthreinsaðar.

Það er rjett, sem hæstv. ráðh. segir, að þessi veiki getur komið hvort sem vera skal frá Noregi, Danmörku eða Svíþjóð, en jeg held, að þessar lítilfjörlegu varúðarráðstafanir, sem gerðar hafa verið af landsstjórninni, hafi aðeins komið undan þunga almenningsálitsins, eftir að andstöðublöð hæstv. stjórnar voru búin að skýra málið fyrir almenningi og hættuna, sem yfir vofði. Stjórninni hefir þá sömuleiðis fundist, að hún yrði að gera eitthvað að nafninu til. Að minsta kosti finst mjer það mjög lítilfjörleg ráðstöfun, sem að líkindum er er gert að tilhlutun hæstv. stjórnar, að fara með hálminn óbrendan suður með tjörn, þangað sem kindur eru stöðugt á beit, sem ganga hjer í kringum bæinn.

Þá kom hæstv. ráðh. aftur að varðskipinu, og þóttist hafa staðið sig að öllu leytin mjög vel, þar sem hann hefði gert svo ágætan samning um byggingu þess eins og raun er á orðin. Jeg held nú samt sem áður, að það hefði verið miklu skemtilegra, ef samningurinn hefði verið svo frábær, sem af er látið, að skipið hefði ekki reynst ónýtt, að það hefði ekki reynst mannhætta að vera á því, og að það hefði ekki þurft að leggjast á hliðina á einni af betri höfnunum, sem til eru á Íslandi. En það hefir hæstv. ráðh. þó orðið að játa, að skipið var sem sagt nær ónýtt til þess, sem átti að nota það til, þegar það kom. En það getur vel verið, eins og Danir segja, að „man kan og saa göre en Skælm uret“, að þyngdarpunkturinn hafi ekki verið eins langt frá því, sem hann átti að vera, og að stjórnarblöðin hafi sagt ástandið verra en það var. En þó að maður vilji ekki taka þessi blöð trúanleg um aðra hluti, þá býst maður samt ekki við, að þau vilji skrökva upp á hæstv. landsstjórn. En það er víst, að afvelta „Óðins“ á Siglufirði benti á það, að þyngdarpunkturinn væri óþægilega ofarlega, því að skipshöfnin var víst um stund í efa um, hvort hún myndi komast inn á höfnina öðruvísi en á kjöl, og hefði það verið leitt, ef þeir ágætu menn, sem nú eiga að komast á 12 þús. króna laun sumir hverjir, hefðu komið inn á Siglufjörð þannig, að þeir hefðu orðið að hanga á kilinum, alt fyrir vitlausan þyngdarpunkt í skipi því, er hæstv. ráðherra ljet byggja.

Nú mun það, því miður, vera aðalástæðan í þessu máli, að hæstv. stjórn hefir haft ungan ráðgjafa sjer við hönd, en ekki gamla og reynda menn, og jeg vona, að hæstv. ráðh. (MG) muni það ennþá úr sínum kristnu fræðum, að einn ungur og óreyndur konungur í Gyðingalandi vildi lemja menn sína með skorpíónum og hafa ráðherra á sínu reki til þess að leiðbeina sjer um ríkisstjórn. Nú býst jeg við, að það hafi verið eitthvað líkt ástatt um hæstv. ráðh., sem sagt hefir verið að hafi tekið með sjer ungan og óreyndan lögfræðing til þess að gera með sjer samningana um byggingu skipsins. Og virðist það, satt að segja, mikið yfirlætisleysi hjá hæstv. ráðh., ef hann hefir treyst þessum unga lögfræðingi betur en sjálfum sjer, enda þótt þessi lögfræðingur hafi áður verið „business“-maður á vegum hæstv. ráðh. og þess vegna átt að fá að njóta atvinnunnar áfram. Ef menn hefðu búist við, að ráðherrann væri ekki fær um að gera samninga af þessu tagi, þá hefði verið afsakanlegt að hafa ráðunaut.

Nú hefir það komið í ljós hjá hæstv. ráðh., að skipið hefir verið teiknað í Flydedokken, smíðað í Flydedokken og eins og áður hefir verið sagt, smíðað í samkeppni í Flydedokken. En hvernig getur það átt sjer stað? Leikmönnum finst, að þegar um slíka samkeppni er að ræða, þá geti hún ekki átt sjer stað, nema því aðeins, að fleiri teikningar af skipinu sjeu til, og að allir, sem vilja keppa, fái teikningu af skipinu, fái að vita hve stórt og hvernig það á að vera. En nú hefir hæstv. ráðh. komið upp um sig, því að annars hefði skipið ekki verið bæði teiknað og smíðað í Flydedokken, og það lítur þá helst út fyrir, að samningar hafi þegar verið gerðir við Flydedokken, þegar hún teiknaði skipið, og þess vegna var hægt að koma fram ábyrgð á hendur henni, fyrir að teikningin hafi verið röng. Annars fanst mjer það dálítið hlálegt í ræðu hæstv. ráðh., að þessir einstöku starfsmenn í Flydedokken hafi verið að reyna að koma skömminni fyrir smíðagalla skipsins hverjir á aðra, en það sýnir þó, að þeir hafa haft næmari sómatilfinningu en hæstv. landsstjórn, því að hún ljet einn af stuðningsmönnum sínum segja, að skipið væri snildarlega úr garði gert, og að það væri einmitt svo ágætt að fá verkið svona af hendi leyst. En smiðirnir hafa aftur á móti sjeð, að verkið var ekki svo sómasamlegt fyrir þá, sem að því unnu. Og þó að skipið hefði þurft að fara út aftur til rannsóknar, þá vona jeg, að hæstv. ráðh. sje mjer samdóma um það, að það hefði ekki þurft að vera eins lengi í burtu, svo að færri togarar hefðu orðið til að hrella hv. þm. Snæf. (HSteins), og skipið hefði ef til vill getað veitt betur við Snæfellsnes. Jeg hygg yfir höfuð að tala, að enginn geti dást að þessu axarskafti hæstv. stjórnar, nema ef það væru einhverjir, sem vildu hafa varðskip sem minst hjer eða að mannskaði yrði sem mestur á þeim, því að það sýnist sannarlega ekki hafa verið stjórnarinnar dygð að þakka, að skipinu ekki hvolfdi og fjöldi manna fórst. Mjer þætti annars gaman að vita, hvort hæstv. ráðh. hefir getað komist hjá því að nota ráð framkvæmdarstjóra Eimskipafjelags Íslands, þangað til þurfti að fara að ráða bót á göllunum. Jeg hygg, að það standi óhrakið, sem jeg sagði í kvöld, að það hafi ekki þurft að láta lengja „Fossana“ eða Esju, sem Nielsen hefir látið smíða, og að þetta hafi farið svona óheppilega fyrir hæstv. landsstjórn, af því að hún hafi haft svo ófullkomna aðstoð við að leysa málið. Hitt er sannað, að þegar þessi reyndi maður var til kallaður og hafði ráðlagt að lengja skipið til stórra muna, en sem kostaði landið töluvert, þá var það gert og reyndist happaráð, og væri æskilegt, að þetta hefði verið sjeð fyr.

Hæstv. ráðh. sagði, að sjerfræðingar væru látnir ráða öllu um brúagerðir, síma- og vegalagningar, og að landsstjórnin skifti sjer ekkert af þeim málum. Jeg teldi það síst galla, þó að þeir væru látnir ráða þessum málum, ef ráð þeirra gæfust vel. En jeg teldi það á hinn bóginn stóran kost, ef sjerfræðingur hefði ekki verið látinn ráða vegarlagningunni frá Elliðaánum áleiðis til Hafnarfjarðar, eða ekki látinn ráða Kveldúlfsbúkkanum hjerna um árið, eða að það hefði ekki verið sjerfræðingur, sem reiknaði út Norðurárbrúna, eða sjerfræðingur,sem landsstjórnin hafði með sjer við samningana um Óðinn, því að það hefði þá líklega alt saman reynst betur. Það er sem sagt mjög undarlegt, þegar hver óvalinn maður getur farið út og látið smíða gufuskip eins og togarana, og þeir leggjast ekki á hliðina og hvað síst inni á höfnum, þá virðist það dálítið athugavert, hvort rjett er að láta þessa sjerfræðinga ráða öllu. Jeg fyrir mitt leyti skoða það svo, að þingið standi yfir þessum mönnum, og jeg skoða það eiginlega sem ósvífni að leyfa sjer að sleppa því hjer á þingi, að það sjeu menn með öllu óviðkomandi landsstjórninni, sem ráði öllum framkvæmdum í þessum málum. Það er að minsta kosti svo, að þingið á að ráða þessum málum, og ef hitt á sjer stað hjá Íhaldsflokknum, þá verður að búa svo um hnútana, að hann ráði sem minstu, ef hann leyfir sjer að vera sem undirtylla hjá slíkum mönnum. Það er algerður misskilningur hjá hæstv. ráðh. á starfi þessara manna, ef hann heldur, að þeir eigi að ráða öllu. Það er vitaskuld þingið, sem á að ráða, og að nokkru leyti þjóðin. En það á að hafa, að svo miklu leyti sem hægt er, ráð þessara manna, og það verður náttúrlega í mörgum tilfellum hægt að taka tillit til þeirra, t. d. til ráða Forbergs heitins landssímastjóra. Sjerfræðingar eru misjafnir eins og annað fólk. Jeg held, að Forberg hafi haft mjög lítið af símaframkvæmdum á samviskunni, sem sambærilegar væru við Hafnarfjarðarveginn, hina margumræddu fyrirhleðslu fyrir Þverá eða síkið hjá Ferjukoti.

Jeg mintist nú aðeins á þessa byrjun í Skagafirði í tilefni af þeirri sparnaðarræðu, sem einn af stuðningsmönnum hæstv. landsstjórnar, hv. 2. þm. Rang. (EJ), hjelt. En ef hv. þm. (EJ) er alvara, þá getur vel farið svo, að það verði t. d. að hætta við að brúa Hjeraðsvötnin. Það er ekki hægt fyrir hæstv. stjórn að knýja altaf fram meira og minna fje þar, sem stuðningsmenn hennar eiga hlut að máli, með því að skera niður alstaðar annarsstaðar. Það verður að láta jafnt ganga yfir alla.

Þá vildi hæstv. ráðh. láta það líta svo út með þessi frv., sem hæstv. stjórn hefir verið að knýja meðflokksvaldi gegnum þingið, að það væru uppástungur um, hvað ætti að gera á næstu árum. Það eru sannast að segja mjög skrítnar uppástungur. Hæstv. stjórn sagði, að hún vildi fá lög um heimavistir gegnum þingið til þess að geta gripið tækifærið, þegar peningar væru í sjóði. Henni nægði ekki að athuga málið, heldur vildi hún reyna að binda hendur þingsins þannig, að það væri ómögulegt að komast hjá því að gera þetta, ef eitthvert fje fjelli til. Það væri gaman að heyra það frá þeim háttv. stuðningsmanni stjórnarinnar, er talaði áðan (EJ) og vildi láta skera niður smávegi og smásíma, hvort hann vildi, að þessi heimild kæmist fram, til þess að hægt væri að brúka fje landssjóðs í það þetta sumar eða næsta sumar.

Þá gleymdi hæstv. ráðh. alveg höfninni í Vestmannaeyjum og sömuleiðis höfninni á Akureyri, sem jeg er mjög hræddur um, að muni koma til að kosta nokkra tugi þúsunda í sumar. Svo að ef á að fara að stunda sparnað, þá held jeg, að hæstv. ráðh. hefði átt að benda okkur í fjhn. á, að þetta mætti ekki gera, því að ríkissjóður hefði ekki ráð á því.

Um síldarmatsembættið á Austurlandi ætla jeg ekki að fjölyrða. — Annars hefir hæstv. stjórn verið svo fjarlæg því að færa saman embætti, að hún hefir hlaðið upp fjölda mörgum dýrum embættum. Hún hefir komið upp nýju embætti við háskólann, endurreist sendiherrann í Kaupmannahöfn, hlaðið undir Spánarlegátann, bjargað Mogensen, komið á upp undir 40 föstum embættum á varðskipunum og vill skapa ótakmarkaða starfsmannafjölgun með samskólafrv. og öðrum skyldum frv. Því að eins og jeg er búinn að sýna fram á, þá er ómögulegt að standa á móti því, að önnur hjeruð geti fengið fasta kennara handa unglingaskólum sínum og væntanlega til iðnfræðslu, úr því að hún verður tekin á landið fyrir Reykjavík. Það er því óþarfi fyrir hæstv. stjórn að vera að afsaka sig með því, að hún hafi opin augun fyrir embættasparnaði.

Hæstv. ráðh. reyndi að sýna fram á, að það væri ekki hægt að áfella sig fyrir það, að hann hefði stutt fagrar listir með því að vera með því, að umræddum málara hefði verið veitt lán. Jeg tók ekki eftir því, hvernig hæstv. ráðh. greiddi atkvæði, en hinu tók jeg eftir, að megnið af stuðningsmönnum hæstv. stjórnar og meira að segja sá íhaldsþingmaður, sem venjulega er harðastur við að fella alla styrki til lista og listamanna, greiddi þessari till. atkvæði. Jeg er ekki þar með að halda því fram, að það sje ekki gott verk að veita þessum manni lán til að byggja yfir sig, en jeg hygg, að hjer sje þó annar maður miklu hæfari, og það mun flestra manna álit, að sá málari, sem hv. Nd. vildi ekkert sinna, sje þeim kostum búinn, að það sje rangt að taka aðra málara fram yfir hann, og eins sje það mesta vansæmd að kaupa ekkert af honum í nokkur undanfarin ár.

Þá vil jeg beina einni lítilli fyrirspurn til hæstv. ráðh., sem hann skaut sjer undan að svara áðan. Það er hvernig stendur á því, að hæstv. stjórn hefir tekið það starf af þjóðmenjaverði að velja og kaupa málverk fyrir landið, og hverjum hún hefir fengið það starf. Það er að vísu vitanlegt, að hæstv. stjórn hefir tekið þetta starf af þjóðmenjaverði og fengið það einhverjum manni eða konu úti í bæ, sem svo hefir keypt fyrir alla peningana af einum og sama málara. Jeg segði ekkert um það, þó að eitthvað væri keypt af honum líka, en þetta verð jeg að skoða sem bersýnilega hlutdrægni, og mjer þætti mjög fróðlegt að fá að heyra, hverjum hæstv. stjórn hefir falið þetta starf. Jeg held, að þessi ráðsmenska stjórnarinnar og trúnaðarkonu hennar hafi vakið svo mikla gremju meðal listamannanna, að hörð mótmæli og vantraust á stjórnina frá þeim sje nú á uppsiglingu.

Þá endaði hæstv. ráðh. ræðu sína með því að segja, að það kendi miður ánægjulegs hugsunarháttar í ræðu minni til stjórnarinnar. Það er skiljanlegt, að þegar hún hefir fengið regn af spurningum yfir sig viðvíkjandi ráðsmensku sinni, er bera með sjer, hve illa hún hefir staðið í stöðu sinni, þá hafi það þau áhrif á hana, að henni finnist þær ósanngjarnar og óviðeigandi.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. atvrh. að vera að „moralisera“ hjer í deildinni. Menn vita nú orðið, hvaða „moral“ hann hefir að geyma, og menn hafa alment myndað sjer skoðun um það. Krossaneshneykslið stendur sem ævarandi minnismerki yfir hugsunarhætti hans. Hvernig sem hann reynir að þvo sig hreinan af því hneyksli, getur hann aldrei breytt því áliti, sem skapast hefir um hann. Hann getur ef til vill setið sem ráðherra part úr ári ennþá, en hitt er óhugsandi, að hann geti nokkuð breytt þeim rótgrónu skoðunum, sem almenningur hefir myndað sjer um hann í sambandi við Krossanesmálið og önnur mál. En við hinu, að hann fái við og við að dingla við völd af náð Íhaldsflokksins, er ekkert að segja. Flokkurinn hefir nú einu sinni ekki upp á betra að bjóða. En þar fyrir má hæstv. ráðh. ekki halda, að hann sje neinn æðsti prestur í siðferðilegum efnum. Hann getur því alveg sparað sjer að koma fram sem „moralskur“ vandlætari.