19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

21. mál, fjárlög 1928

Ingvar Pálmason:

Svar hæstv. atvrh. (MG) við spurningu minni kom bæði seint og illa. Fyrst og fremst gengur hæstv. ráðh. alveg framhjá að svara því, hvort það var vegna þess, að „Óðinn“ forfallaðist, sem strandvörnum var ekki sint fyrir Austurlandi seinni partinn í fyrrasumar. Hæstv. ráðh. sagði, að jeg hefði gefið í skyn, að jeg hefði fengið loforð frá fyrverandi forsætisráðherra (JM) um strandvarnir fyrir Austurlandi. Jeg gerði meira en gefa það í skyn, jeg fullyrti það, og er ekki einn til frásagnar um það. Jeg get vitnað til sjútvn. Ed., að í samráði við hana var það gert, og það var borið undir mig sem kunnugan mann. Og hefði hæstv. fyrv. forsrh. (JM) notið við, geri jeg ráð fyrir, að við loforðið hefði verið staðið. Viðvíkjandi gæslunni fyrir Austurlandi á þessu ári var svarið hjá hæstv. ráðh., að það sama yrði látið ganga yfir það og aðra landshluta. Það væri nú gott, ef við fengjum aðra eins strandgæslu og Vestmannaeyjar, aðeins að það yrði á þeim tíma, sem nauðsyn er mest, en það er að vorinu og síðari hluta sumars. Minni þörf um miðsumarið, þ. e. yfir júlí og ágústmánuði. Aftur á móti er lítil þörf á landhelgisgæslu yfir vetrarmánuðina. Hæstv. ráðh. þýðir ekki að svara út í hött og segja, að það sama verði látið ganga yfir Austfirðinga og aðra. Það, veltur alt á tímanum. Við viljum fremur fá 2 mánaða strandgæslu, ef það er á rjettum tíma, en 4 mánaða á óhentugum tíma. Það hefði verið heppilegast fyrir hæstv. ráðh. að fara að ráði fyrirrennara síns og leita upplýsinga kunnugra manna um það, hvenær heppilegast væri að hafa strandgæslu fyrir Austurlandi, og hvenær hennar væri þar helst þörf. Hæstv. ráðh. hefði átt að svara fyrirspurn minni svo, að einhverjar ályktanir hefði mátt draga út úr svari hans. Jeg vona nú, að hann svari fyrirspurn minni betur og sýni, að hann er atvinnumálaráðherra.

Jeg vænti þess, að hæstv. ráðh. (MG) beri það undir hv. sjútvn. eins og fyr, þó að jeg eigi þar ekki sæti nú, hvernig landhelgisgæslunni verði hagað á yfirstandandi ári. Jeg get fullvissað hann um það, að nefndin ber fult skyn á, hvernig henni verði haganlegast komið fyrir, svo að strandvarnirnar komi okkur Austfirðingum að fullu liði. Ef ekki á að binda sig við fastákveðinn tíma, eru þær gagnslausar. En það er hæstv. atvrh. auðsjáanlega þyrnir í augum að binda sig við fastan tíma.

Jeg verð að biðja hv. deild velvirðingar, hafi jeg tafið hana meira en góðu hófi þykir gegna. En jeg gat ekki látið vera að svara í öðrum tón en jeg spurði, því að hæstv. ráðherra gaf fult tilefni til þess.