19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. S.-M. var óánægður út af svari mínu við beiðni um strandgæslu eystra. Jeg kannast ekki við, að það sje rjett, að svar mitt hafi verið á nokkurn hátt ókurteist. En hitt er satt, að jeg hefi ekki sjeð mjer fært að lofa, að skip til strandvarna komi á ákveðnum mánaðardegi og fari á vissum mánaðardegi. Og við það held jeg fast. Hv. þm. (IP) var óspar á að margtyggja, að ekki væru haldin gefin loforð. Hann var að gefa í skyn, að loforð frá í fyrra hefði ekki verið haldið. (IP: Jeg meira en gaf það í skyn. Jeg sagði blátt áfram, að það hefði ekki verið haldið). Jæja, það var þá því betra. Þó var jeg búinn að taka það fram, að ekki var hægt að koma við strandgæslunni í fyrra á tilætluðum tíma, af því að gera þurfti við skipið. (IP: Það var ekki átalið). Það getur altaf komið fyrir, að skip þurfi viðgerðar við. En ef jeg þekki hv, 2. þm. S.-M. (IP) rjett, þá mun hann kalla það svik.

Jeg spurði, hvar stæði loforð fyrir því, að strandvörnum yrði haldið uppi vissan tíma við Austurland, því að jeg hafði hvergi rekist á það. Nú er það upplýst, að það var í hv. sjútvn. í Ed. En þar var jeg ekki viðstaddur, og það veit hann, og að jeg gat ekkert um það vitað.

Um síldarmatsmannsstarfið kæri jeg mig ekki að deila frekar. Jeg gerði það um daginn og rak þá háttv. þm. (IP) rækilega á stampinn. Jeg býst við, að það mál eigi enn eftir að leggjast fyrir þingið, og það er ekki enn á því stigi, að taki því að bítast um það strax.

Þá kvaðst hv. þm. vona, að jeg bæri þetta mál undir sjútvn. til umsagnar og leiðbeininga. Það getur vel skeð, að jeg geri það. En jeg endurtek hitt, er jeg sagði áður, að jeg hvorki vil nje get gefið hv. þm. loforð um ákveðinn mánaðardag, er skipið skuli koma og fara.