19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Baldvinsson:

Aðeins fáein orð til hæstv. forsrh. (JÞ). Hann sagði, að vantrauststill. hefði verið vikið frá í hv. Nd. En það er ekki allskostar rjett. Þar var ekki beitt þeirri aðferð, er tíðkast á þingi, að vísa málum frá með rökstuddri dagskrá. Mál þau, er slíkri meðferð sæta, eru talin í flokki feldra mála í Alþingistíðindunum, og eins og hæstv. ráðh. getur sjeð, mun hann aldrei finna till. í þeim flokki. Nei, vantraustsyfirlýsingin var samþykt með áorðnum breytingum, og á í Alþingistíðindunum að vera talin með þeim málum, er samþykt hafa verið. Það er því rangt, að tillögunni hafi verið vikið frá.

Hæstv. ráðh. sagði, að flokksbróðir minn í hv. Nd., háttv. 4. þm. Reykv. (HjV), hefði ekki haft hugdirfð til þess að greiða atkvæði á móti brtt. við vantrauststill., heldur setið hjá. En hann gerði fullkomlega grein fyrir því, hvers vegna hann greiddi ekki atkvæði á móti till. Það var af því, að í henni er slegið föstu því aðalatriði, sem haldið er fram í aðaltillögunni, að stjórnin sje ekki þingræðisstjórn. Því sat hann hjá, þótt hann mundi hinsvegar hafa kosið að kveða skýrar að orði. En nú er hæstv. forsrh. og stjórn hans svo lítilþæg, að þau hafa tekið á móti till., sem gengur lengra í vantraustsáttina en nokkur stjórn ætti að geta sætt sig við.

Jeg játa, að hæstv. forsrh. tók dálítið klaufalega í tillöguna. Ef hann og flokksmenn hans álitu hana hlutleysisyfirlýsingu, áttu þeir vitanlega að sitja hjá og setja sig ekki gegn henni, eða samþykkja traust ella. En í stað þess ferst hæstv. ráðherra svo óhönduglega, að hann beitir sjer gegn till., og ályktun sú, er í henni felst, er samþykt gegn vilja hans og stjórnarinnar og flokksins.

Það er ekkert vafamál, að aðaldeild þingsins hefir lýst því yfir, að stjórnin hafi ekki traust þingsins að baki sjer og geti ekki fengið. Þetta verður hæstv. ráðherra að viðurkenna. Og þó að hann vitni í ummæli úr ræðu formanns Framsóknarflokksins sínu máli til sönnunar, þá er hægt að vitna í önnur ummæli hans, þar sem hann skýrði afstöðu stjórnarinnar samkv. orðalagi till., að hún skuli aðeins framkvæma þau daglegu störf, og lýsti einkennum hennar sem starfandi bráðabirgðastjórnar. Hæstv. forsrh. hefir ekki getið þessara ummæla, en þau munu finnast í ræðu hv. þm. A.- Sk. (ÞorlJ). Hvernig svo sem hann vill snúa sjer í þessu máli, fær hann ekki undan því komist, að háttv. Nd. Alþingis hafi gert „positiva“ ályktun viðvíkjandi stjórninni og þó gegn vilja hennar. Það vil jeg leggja sjerstaka áherslu á, er um þetta er rætt.