19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. (JBald) getur ekki komist fram hjá því, sem flm. till. þeirrar, sem samþ. var í hv. Nd., sagði um hana. Hann sagði, að með henni væri vantrauststill. úr sögunni.

Það er þegar búið að afgreiða til stjórnarinnar till. þá, sem samþ. var, og í henni er ekki minst einu orði á vantraust. Jeg geri ráð fyrir, að í skýrslu Alþt. verði sú till., sem Framsóknarflokkurinn flutti og fjekk samþykta, tekin upp, en ekki hin. Þá sagði háttv. 5. landsk., að jeg hefði kallað till. hlutleysisloforð. Það er rjett; jeg sagði, að till. fæli í sjer loforð um hlutleysi til næstu kosninga, án þess að jeg telji flm. till. bundna við það loforð eða þá yfirlýsingu, ef eitthvað nýtt kæmi fyrir, sem gæfi tilefni til vantrausts. Þangað til verður hv. 5. landsk. að sætta sig við það, að hans flokkur hefir ekki atkvæðamagn til þess að koma fram vantrausti á núverandi stjórn.

Hv. 1. landsk. (JJ) þarf jeg eiginlega ekki að svara neinu. Það er engin furða, eftir þær löngu ræður, sem hann hefir haldið, að hugur hans er nú farinn að snúast um matinn. Það, sem hv. þm. sagði, að jeg hefði lýst verkamönnum sem glæpamönnum, er algerlega tilefnislaus uppspuni frá hans hendi, sem jeg verð algerlega að vísa heim. Jeg er þeim mun betur innrættur og meiri skapstillingarmaður en hv. 1. landsk., að jeg legg það ekki í vana minn eins og hann að nota ókvæðisorð um andstæðingana, heilar stjettir heiðarlegra manna, í hvert skifti, sem einhver hefir gaman af því að „hleypa honum upp“ á opinberum mannfundum. (JJ: Lætur hæstv. ráðh. þá blöð sín gera það?). Nei, ráðh. lætur blöðin ekki svívirða menn.