19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Kristjánsson:

Það var ekki ætlun mín að taka þátt í þessum umr., en það var einkum eitt atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem mjer fanst nokkuð athugavert. Hæstv. ráðh. var að tala um það, að Íhaldsflokknum væri að aukast fylgi í sveitum landsins. Mjer þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. vildi gera dálítið nánari grein fyrir þessu. Mjer skildist þetta standa í sambandi við það, að einn hv. þm. í Framsóknarflokknum hefði haldið því fram, að jafnaðarmenn hefðu mjög heilbrigðar skoðanir á landsmálum og vildu vinna að miklum framförum til hagsbóta fyrir hina vinnandi stjett landsins. Þetta átti að orsaka fylgisauka Íhaldsflokksins til sveita. Annars er það auðráðin gáta, hver tilgangurinn er með öllu þessu tali og öllum skrifum íhaldsmanna um óeðlilegt samband milli flokkanna. En jeg ber það traust til dómgreindar íslenskra bænda, að þeir láti alt slíkt sem vind um eyrun þjóta. Jeg get því alls ekki fallist á skoðun hæstv. forsrh., að fylgi Íhaldsflokksins sje að aukast, en Framsóknarflokksins að þverra, í sveitum landsins. Það er nú ekki langt að bíða úrskurðarins, og ef hann yrði á þá leið, að skoðun hæstv. ráðh. sje rjett, þá mundi það rýra mjög virðingu mína fyrir bændastjett þessa lands. — Þótt nú það sje talið óeðlilegt, að jafnaðarmenn og Framsóknarmenn geti átt samleið í nokkru máli, verður hitt þó að teljast miklu óeðlilegra, að Framsóknarmenn geti átt samleið með þeim mönnum, sem hafa unnið að því að draga megnið af fjármagni þjóðarinnar saman á einn stað, hjer í Reykjavík, og bæta þar steini ofan á stein, þangað til bærinn er orðinn eins og of stórt höfuð á vanskapaðan krypling. Þó að miklu fje hafi verið eytt til að útbreiða íhaldsboðskapinn um sveitir landsins, þá hefir árangurinn ekki orðið eins mikill og til hefir verið ætlast.

Í þessu sambandi dettur mjer í hug skýring sú, sem hæstv. forsrh. gefur í Eimreiðargrein sinni á undirstöðuatriðum stjórnmálastefnu Íhaldsflokksins. Hæstv. forsrh. tekur þar sem dæmi fyrstu landnámsmennina á Íslandi, sem tóku það ráð að flýja Noreg heldur en að lúta Haraldi hárfagra, og vill svo skýra þetta svo, að þessir menn hafi verið svo miklir íhaldsmenn, að þeir gátu ekki sætt sig við pólitík Haralds. Þeir hafi viljað halda svo mikið í hið ríkjandi ástand, að þeir gátu ekki unað stjórn Haralds. Jeg skildi svo þessa skýringu hæstv. ráðherra, að hann áliti, að Haraldur hárfagri hefði verið framsóknarmaður, en jeg verð að líta svo á, að sá skilningur sje algerlega rangur, því að hitt mun sanni nær, að hann hafi verið íhaldssamur harðstjóri.

Þá hygg jeg, að það sje einnig röng skoðun hjá hæstv. ráðherra, að fylgi Framsóknarflokksins sje að þverra. Hitt hygg jeg rjettara, að honum aukist fylgi svo að segja daglega í sveitum landsins. Enda er ekkert eðlilegra. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að bændur þessa lands láti villa sjer svo sýn, að þeir láti, eins og átt hefir sjer stað í seinni tíð, draga úr höndum sjer í fyrsta lagi uppvaxandi kynslóðina, vinnukraftinn, í öðru lagi fjármagnið og í þriðja lagi það pólitíska vald, sem þeir hafa haft frá landnámstíð. Ef svo færi, að skoðun hæstv. forsrh. reyndist rjett, þá verð jeg að segja það, að jeg aumka þessa stjett, sem talin hefir verið kjarni þjóðarinnar.