02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

21. mál, fjárlög 1928

Ingvar Pálmason:

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara mikið út í brtt. hv. fjvn. Að vísu get jeg ekki fylgt þeim að öllu leyti, en úr því, sem komið er, mun jeg þó fylgja nokkrum þeirra. Jeg býst heldur ekki við, að það beri mikinn árangur að hreyfa mótmælum, þar sem bæði hv. fjvn. og hæstv. stjórn virðast standa saman um þessar tillögur. Jeg hefi þó gerst svo djarfur að bera fram tvær litlar brtt., sem báðar stríða á móti þessari stefnu nefndarinnar. Sú fyrri er V. brtt. á þskj. 472 og er við brtt. nefndarinnar á þskj. 449, 22. lið, um framlag til Hólmahálsvegar. Nd. hafði samþ. til þessa vegar 9000 kr. Nú hefir hv. fjvn. þessarar deildar tekið það ráð að tálga dálítið utan úr öllum fjárveitingum til vegagerða, og skal jeg ekki beinlínis ámæla henni fyrir það, þótt leiðinlegt sje að þurfa að fara þá leið. En mjer finst ekki rjett að skera allar þessar fjárveitingar niður við sama trog, því að misjafnlega getur staðið á. Vegurinn, sem hjer er um að ræða, er þjóðvegur, en þessi fjárveiting, sem Nd. samþykti, var bundin því skilyrði, að hjeraðið legði fram kostnaðarins, og er það nokkuð á annan veg en venjulegt er um þjóðvegi. Það er líka rjett að geta þess, að búið er að byggja brú yfir Eskifjarðará, að miklu leyti fyrir fje sýslusjóðs og sveitanna. Þegar svo stendur á sem hjer, að viðkomandi hreppar vilja taka á sig aukabyrði til þess að hrinda verkinu í framkvæmd, finst mjer að taka verði tillit til þess. Þessi brú er þannig sett, að óhjákvæmilegt er að leggja veg beggja megin við hana, annars kemur hún ekki að fullu gagni. Jeg vænti þess fastlega, að hv. fjvn. komi til móts við mig í þessu máli, þar sem jeg geng inn á nokkra lækkun, en hinsvegar er viðurkent, að þessi vegur eigi sama rjett á sjer og aðrir þjóðvegir. Þegar litið er á aðrar lækkunartillögur nefndarinnar á framlögum til vegagerða, sjest, að aðeins einn vegur hefir orðið fyrir sömu meðferð og þessi, fjárveitingin verið lækkuð um það er Dalavegurinn. Jeg geri ráð fyrir, að nefndin kannist við, að ekki sje rjett að gera Hólmahálsveginum lægra undir höfði en flestum öðrum vegum á fjárlagafrv., og samþ. þessa hóflegu miðlunartillögu mína.

Þá skal jeg geta XXIII. brtt. á þskj. 472, sem fer fram á lítilsháttar styrk til aldraðrar, heilsubilaðrar konu, sem sumir hv. þdm. munu kannast við, ekkju Jóns Stefánssonar síldarmatsmanns á Seyðisfirði, en hann andaðist s.l. sumar. Það hefir tíðkast og þótt sanngjarnt að styrkja nauðlíðandi ekkjur starfsmanna ríkisins, og jeg fullyrði, að þessi kona er á allan hátt makleg slíks stuðnings. Fjvn. hefir tekið upp einn eða fleiri slíka liði, og jeg vænti þess, að hún sjái sjer fært að taka þennan litla styrk með. Jeg sje ekki ástæðu til að fara ítarlega út í brtt. nefndarinnar, en læt nægja að sýna afstöðu mína við atkvæðagreiðslu. Jeg skal þó láta þess getið, að mjer þykir ekki allskostar víðeigandi að tálga 5000 kr. af því litla fje, sem Fiskifjelagi Íslands hefir verið ætlað. Fjelagi þessu hefir altaf veist örðugt að fá fje frá fjárveitingarvaldinu, svo sem það hefði þurft til þess að verða hliðstætt Búnaðarfjelagi Íslands, eins og það hefði átt að verða. Það var um eitt skeið hálfdrættingur við Búnaðarfjelagið, en nú hefir það ekki nema á við það. Það er fjarri mjer að vilja á nokkrum hátt rýra styrkinn til Búnaðarfjelagsins, en eins og nú standa sakir finst mjer það lýsa of miklu skilningsleysi á verkefni Fiskifjelagsins að leggja sig niður við að tálga af því þennan 5000 króna styrk. Að vísu hækkaði hv. fjvn. Nd. þennan lið um þessa umræddu upphæð frá því, sem var í frv. stjórnarinnar, en jafnrjettmætt er það fyrir því. Þá er hjer ein brtt. enn frá nefndinni, sem jeg vil lýsa óánægju minni yfir. Nefndin leggur til að lækka styrkinn til markaðsleitar erlendis, og skal jeg ekkert um það segja út af fyrir sig. Hitt tel jeg lakara, að nefndin leggur til að fella úr fjárlagafrv. þá skiftingu þessarar fjárveitingar, sem hv. Nd. lagði til. Jeg tel illa farið, að þau drög til skipulags á þessu máli, sem hv. Nd. lagði til, sjeu niður feld, og jeg álít óheppilegra að ganga frá þessari fjárveitingu svo sem hjer er gert.

Jeg skal svo ekki lengja umræður frekar, nema tilefni gefist.